Ingi Gests Sveinsson fæddist í Reykjavík 4. nóvember 1919. Hann lést 12. maí síðastliðinn. Foreldrar hans voru Sveinn Helgason, f. 22. apríl 1890 á Ketilsstöðum, Kjalarnesi yfirprentari í prentsmiðjunni Gutenberg og kona hans Björg Sigríður Þórðardóttir, f. 15. nóvember 1890 í Sperlahlíð Arnarfirði. Þeirra börn voru: 1) Sóley, dó nýfædd. 2) Margrét, f. 16.12. 1913, látin. 3) Helgi Kalman, f. 14.1. 1916, látinn. 4) Ingi Gests, f. 4.11. 1919, sem nú er kvaddur. 5) Guðlaug Helga, f. 26.9. 1929.

Árið 1941 kvæntist Ingi Guðrúnu Gísladóttur, f. 26.12. 1918, d. 17.2. 1988. Foreldrar hennar voru Gísli Ólafsson, skáld frá Eiríksstöðum, f. 2.1. 1885 og Jakobína Þorleifsdóttir, f. 28.6. 1890. Systkini Guðrúnar voru: Ólafur, f. 16.3. 1916, látinn og Hulda, f. 8.8. 1913, látin.

Ingi og Guðrún skildu.

Börn Inga og Guðrúnar eru: 1) Jakobína, f. 1.2. 1942, maki Erlingur Lúðvíksson, þau eiga þrjú börn. 2) Sveinn, f. 3.1. 1947, maki Birna Ólafsdóttur. Börn hans af fyrri hjónaböndum eru fimm, eitt er látið. Börn Birnu af fyrra hjónabandi eru þrjú. 3) Gylfi, f. 16.5. 1949, hann á þrjú börn. 4) Björn, f. 30.11. 1950, maki Elísabeth du Pond, þau eiga eitt barn. Björn á eitt barn frá fyrra hjónabandi og Elísabet tvö börn.

Eftirlifandi eiginkona Inga er Lilja Eygló Karlsdóttir, f. 29.10. 1921. Foreldrar hennar voru Karl Jónsson og Guðrún Eyjólfsdóttir. Systur Lilju eru Sigríður, Ingigerður og Ingibjörg. Lilja á fimm börn frá fyrra hjónabandi: 1) Ragna Gísladóttir, f. 27.7. 1942, maki: Bryngeir Vattnes þau eiga þrjú börn. 2) Karl Gíslason, f. 10.4. 1944, maki María Einarsdóttir þau eiga tvö börn. 3) Ólafur Gíslason, f. 10.3. 1946, maki: Sigurbjörg Þorleifsdóttir þau eiga fimm börn, Ólafur átti eitt barn áður. 4) Jón Gunnar Gíslason, f. 8.4. 1956, maki Margrét Árnadóttir, þau eiga þrjú börn. 5) Gísli Gíslason, f. 16.6. 1957, maki: Anna Haukdal þau eiga fjögur börn.

Árið 1941 lauk Ingi námi í rennismíði frá Landssmiðjunni í Reykjavík, meistararéttindi í vélvirkjun- og bifvélavirkjun hlaut hann síðar. 1945-1947 sá hann um byggingu slippsins á Neskaupstað. 1948 gerðist hann verkstæðisformaður á vélaverkstæði Kaupfélags Skagfirðinga og vann hann þar til ársins 1958 er hann stofnaði eigið verkstæði.

Ingi kenndi eðlis- og efnafræði við Iðnskólann á Sauðárkróki um tíma. Árið 1963 var Ingi vélstjóri á Hamrafellinu. 1964-1966 vann Ingi við Búrfellsvikjum. 1967 hóf Ingi störf hjá Íslenska álfélaginu er það hóf göngu sína og vann þar sem verkstæðisformaður á fartækjaverkstæðinu allt til ársins 1989 er hann hætti störfum sökum aldurs. Á yngri árum var Ingi einn af bestu sundmönnum Íslands. Ingi tók mikinn þátt í skátastarfi sem unglingur og ungur maður. Sótti skátamót heima og erlendis. Árum saman tók Ingi virkan þátt í Rótarýstarfi á Sauðárkróki. Aðaláhugamál Inga voru radíósamskipti sem hann var virkur í frá yngri árum. Hann hafði náð sambandi við öll lönd þegar hann hætti. Ingi var heiðursfélagi í Íslenska radíóamatörafélaginu.

Útför Inga fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Hvar ég fer um æviárin aldrei gleymi ég þér. Þegar hjartans svíða sárin sæl þín minning er. Þótt ég heyri ei óm af orðum ógni fjarlægðin. Ég veit þú leiðir líkt og forðum litla drenginn þinn. (Gísli Ólafsson.)

Elsku pabbi minn. Mig langar með nokkrum orðum að kveðja þig og þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið og kennt mér. Þú varst sem klettur í lífi mínu, stór og sterkur og barst höfuðið hátt, alltaf traustur og tryggur. Þú hafðir ekkert mörg orð um hversdagslega hluti, hugsaðir þeim mun meira um lífið og tilveruna á heimsvísu. Þú fylgdist alltaf vel með öllum stjórnmálum hér heima og úti í hinum "stóra heimi".

Ekki varst þú gamall þegar þú fórst að sendast hjá Johnson & Kaaber á reiðhjóli með grind framan á og þú fórst að læra morse aðeins 13 ára gamall og grúska í radíóblöðum til að geta búið til tæki svo þú gætir haft sambönd úti í himingeimnum, þú hugsaðir alltaf hátt og stórt. Þú lagðir það einnig á þig að læra tungumál svo þú gætir sinnt áhugamálunum.

Skátahreyfingin átti einnig hug þinn á yngri árum og með þeim fórst þú einnig að kanna heiminn. Þú fórst einnig ungur að árum að iðka sundíþróttina þótt það yrði að æfa í sjónum til að byrja með. Og mikið fannst manni kassinn flottur sem þú áttir með öllum verðlaunapeningunum.

En þú varst ekki að hafa hátt um afrekin. Ég man hvað þér þótti mikið vænt um systkini þín og saknaðir alltaf mikið Helga Kalman bróður þíns sem var þremur árum eldri og dó aðeins átta ára gamall úr heilabólgu, hann var yndislegur lítill drengur sem var í huga þínum allt til enda. Ég man hvað þér þótti alltaf gaman að gefa. Þú fórst nú ansi margar ferðirnar til útlanda, hafðir komið í nær allar heimsálfurnar og alltaf komst þú með gjafir handa þínum nánustu.

Elsku pabbi minn, ég mun sakna þín mikið en þú munt alltaf verða í huga mínum sem kletturinn og ég veit að þú ert aðeins lagður af stað í hinstu ferðina og búinn að hitta alla ættingjana og vinina og að þér líður vel og að við hittumst aftur.

Jakobína Ingadóttir.

Ingi Gests Sveinsson fæddist í Reykjavík 4. nóvember 1919. Foreldrar hans voru Sveinn Helgason prentari og Björg Þórðardóttir. Ingi var næstyngstur fjögurra systkina en eldri bróður sinn missti hann í æsku og mátti merkja, að allt sitt líf saknaði hann Helga. Ingi byrjaði að keppa í sundi ungur að árum og sagði hann mér að sín fyrsta keppni hefði verið í Örfirisey 1932. Ingi tók þátt í sínu síðasta móti árið 1944 og setti hann tugi Íslandsmeta á sundferli sínum. Ingi varð snemma hugfanginn af radíóamatörum, og sinnti þessu áhugamáli sínu nánast allt sitt líf meðan heilsa entist, enda uppskar hann ríkulega, hlaut innlendar og erlendar viðurkenningar, enda eini Íslendingurinn og einn örfárra manna í heiminum, sem hefur komið á staðfestu radíósambandi við öll lönd veraldarinnar. Fyrir nokkrum árum sagði hann mér að fall járntjaldsins hefði bjargað þessu, þar hefði hann átt eftir nokkur lönd þar á meðal Albaníu, sem var alveg lokað þar til járntjaldið féll.

Ingi lærði rennismíði og einnig vélvirkjun og bifvélavirkjun. Hann starfaði við störf tengd þessum iðngreinum allt sitt líf. Hann starfaði við dráttarbrautina í Neskaupstað, hjá Kaupfélagi Skagfirðinga á Sauðárkróki, rak sína eigin smiðju þar, vann við byggingu Búrfellsvirkjunar, en síðustu 20 árin starfaði Ingi sem verkstjóri hjá Íslenska álfélaginu. Þar voru Inga falin ýmis sérverkefni, m.a. starfaði hann um tíma á vegum móðurfyrirtækis ÍSAL, í Suður-Afríku og niður við Persaflóa.

Ingi var ákaflega dulur maður og flíkaði nánast aldrei tilfinningum sínum við börn sín, samstarfsmenn eða aðra. Þrátt fyrir þetta hafa samstarfsmenn hans til fjölda ára sagt mér að fáa yfirmenn hafi þeir þekkt sem hafi haft betri skilning á mannlegum þáttum, og verið raunbetri að leysa úr vandamálum, ef til hans var leitað.

Ingi dvaldi síðustu mánuðina á hjúkrunarheimilinu Holtsbúð í Garðabæ, þar naut hann umönnunar góðs starfsfólks, einnig naut hann ástúðar og hlýju eiginkonu sinnar, Lilju Karlsdóttur, sem dvaldi langtímum saman hjá honum er heilsu hans tók að hraka.

Mig langar að kveðja þig, pabbi minn, með þessum ljóðlínum.

Hvar ég fer um æviárin

aldrei gleymi ég þér.

Þegar hjartans svíða sárin

sæl þín minning er.

Þótt ég heyri ei óm af orðum

ógni fjarlægðin.

Ég veit þú leiðir líkt og forðum

litla drenginn þinn.

(Gísli Ólafsson.)

Sveinn Ingason.

Sá sem eftir lifir

deyr þeim sem deyr

en hinn dáni lifir

í hjarta og minni

manna er hans sakna.

Þeir eru himnarnir

honum yfir.

(Hannes Pét.)

Sendum öllum ættingjum og vinum dýpstu samúðarkveðju.

Guðrún Birna

Gylfadóttir og fjölskylda.

Kveðja frá Íslenskum radíóamatörum

Merki Inga Sveinssonar, TF3SV, hins mikla aldna öðlings okkar radíóamatöra, er hljóðnað á okkar bylgjulengdum. Ingi Sveinsson var heiðursfélagi Íslenskra radíóamatöra, ÍRA. Hann var um árabil í hópi okkar bestu DX-manna og náði æðstu alþjóðlegu viðurkenningunni "DXCC Honor Roll" og var fremstur okkar á þeim vettvangi.

Hann fékk áhugann 13 ára og lærði þá mors hjá Gísla Ólafssyni loftskeytamanni, fór að ná sér í tímarit og byggja tæki næstu árin. Hann mun hafa verið virkur fyrir stríð, en 1943 flyst hann úr Reykjavík til Norðfjarðar og þaðan til Sauðárkróks árið 1947. Þar byggði hann fyrstur íslenskra radíóamatöra loftnetsturn með snúanlegu stefnuvirku loftneti. Á Sauðárkróki var hann virkur, með heimasmíðuð tæki eingöngu, einkum á árunum 1951-1956 undir kallmerkinu TF5SV. Hann flyst aftur suður 1963, en um 1970-1971 gengur hann til liðs við félagið og verður virkur aftur, nú undir kallmerkinu TF3SV. Fljótlega gnæfði endurbættur loftnetsturninn hans yfir Hafnarfirði, eða þar til hann flutti í Garðabæ, en þá gaf hann félaginu turninn.

Hann hafði meira gaman af morsi, fannst það skemmtilegra og persónulegra. Í upphafi, þegar hann var að læra mors, tók hann á móti því ómótuðu. Hann notaði í þrjú ár viðtæki án "beat oscillators," og sagðist í gegnum þá þjálfun ekki hafa átt í neinum vandræðum eftir það.

Þjálfunin í hinum knappa en hnitmiðaða talsmáta morsins mótar með vissum hætti hugsun og tjáningu í þá veru að segja frekar það sem segja þarf án óþarfa málskrúðs. E.t.v. átti þetta þátt í að kjarni hvers máls sem hann tjáði sig um kom fram í skýrum og skemmtilegum dráttum, settum fram á hógværan og hnitmiðaðan hátt, sem alltaf hitti í mark.

Við sem fylgdumst með Inga í loftinu tókum eftir hans íþróttamannslegu framkomu í loftinu og að hann var alltaf með einn "stóran" á hinum endanum.

Hvernig hann fór að þessu var okkur hinum aðdáunar- og undrunarefni.

Nota eyrun rétt, hlusta meira, kalla minna og á réttum tíma, þekkja skilyrðin og vera með góð loftnet. Þetta kunni Ingi öðrum betur. Alltaf var hann reiðubúinn að miðla okkur hinum af reynslu sinni og þekkingu í þessum efnum, hvetja okkur hina og ryðja brautina.

Við sem urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast heiðursmanninum Inga Sveinssyni munum aldrei gleyma þeirri hugljómun sem hann veitti okkur og þeirri fyrirmynd sem hann var okkur.

Íslenskir radíóamatörar senda aðstandendum Inga Sveinssonar innilegar samúðarkveðjur.

Kristján Benediktsson, TF3KB.

Jakobína Ingadóttir.