Sigurlaug Ólafsdóttir fæddist á Læk í Viðvíkursveit í Skagafirði 26. september 1927. Hún lést á líknardeild Landspítalans 12. maí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Ólafur Marteinn Jónsson, bóndi, f. 22. febrúar 1890, d. 31. ágúst 1974, og Guðrún Gísladóttir, húsfreyja, f. 6. apríl 1893, d. 7. maí 1965. Sigurlaug var yngst þriggja systkina. Systkini hennar eru: Margrét Lilja Ólafsdóttir, f. 7. apríl 1921, maki Herjólfur Sveinsson. Barn þeirra er Sveinn Þ. Herjólfsson, f. 1946, kennari. Gísli Pétur Ólafsson, f. 28. júní 1922. Þau lifa systur sína.

Árið 1952 giftist Sigurlaug eftirlifandi maka sínum, Óskari K. Ólafssyni, vélfræðingi, f. 31. maí 1924 í Reykjavík. Börn þeirra eru: 1) Ólafur Marteinn, viðskiptafræðingur, f. 1952. Eiginkona Hólmfríður Pétursdóttir. Börn þeirra eru: Anna Sigurlaug, f. 1977, í sambúð með Óskari Gíslasyni, Guðrún Fríður, f. 1981, og Halldóra Ósk, f. 1984. 2) Rúnar, verkfræðingur, f. 1955. Eiginkona María Antonsdóttir. Börn þeirra eru: Kristín Ósk, f. 1979, unnusti Trausti Ragnarsson, Erla Dröfn, f. 1982, Óskar Kristinn, f. 1990, og Sigurður Rúnar, f. 1991. 3) Valdimar Óskar, tæknifræðingur, f. 1963. Eiginkona Kristín S. Guðmundsdóttir. Börn þeirra eru: Egill Örn, f. 1994, og Sara Lind, f. 1997.

Útför Sigurlaugar fer fram frá Bústaðakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Ó, hve heitt ég unni þér allt hið besta í hjarta mér vaktir þú og vermdir þinni ást. Æskubjart um öll mín spor aftur glóði sól og vor, og traust þitt var það athvarf, sem mér aldrei brást. (Tómas Guðm.)

Elsku mamma mín. Örfá orð eru mér hjartans mál. Varla hafði árið 2000 gengið í garð þegar þungbærar fréttir bárust af heilsufari þínu. Þú sem hafðir verið svo heilsuhraust alla ævi. Engan óraði fyrir því ferli sem var að hefjast. Rúmum þremur mánuðum síðar varstu öll.

Minning, sem svo vel var geymd, skaut upp kollinum. Sem drengjum kenndir þú okkur bræðrum bænir og að auki var styrkur trúarinnar sóttur á fundi hjá KFUM. Óttinn við dauðann og þá sérstaklega að dauðinn taki manns nánustu var óbærileg tilhugsun ungum dreng. Ég gerði í huga mínum samning við Guð og hugsaði eins langt fram í tímann og ég gat og kunni. Já, pabbi og mamma skyldu að minnsta kosti fá að lifa til ársins 2000. Það var óralangt þangað til. Við bræður værum þá fullvaxta og rúmlega það og hlytum að axla þá byrði sem andlát foreldra legði á herðar okkar.

Okkur er sagt að meinsemdin sem tók þig frá okkur hafi jafnvel búið um sig fyrir áratugum, en samningurinn stóð. Andlát þitt var aldeilis ótímabært, en það hlýtur að eiga sér dýpri merkingu, ofar mínum skilningi. Ég þakka fyrir þann tíma sem þú varst með okkur.

Þegar litið er yfir farinn veg er hann varðaður minningum um þig. Þú og pabbi byggðuð upp heimili sem var í einstöku jafnvægi. Verkaskipting ykkar var svo skýr og ljós að um það þurfti aldrei að ræða. Brýnt var fyrir börnunum að ganga menntaveginn og síðar, fyrir barnabörnin níu, var heimilið ykkar sá staður sem var þeim afar kær. Hjálpsemi og fórnfýsi var í fyrirrúmi þegar fjölskyldan átti í hlut.

Lífið heldur áfram. Daginn eftir andlát þitt vorum við, nærfjölskyldan þín, heima hjá Valda bróður. Borðuðum góðan mat og horfðum á Eurovision keppnina. Einn stóran skugga bar vissulega á. Við vorum án þín. Þín, sem alltaf var til staðar til að umvefja börnin þín. Pabbi dró sig til hliðar, sorgin og söknuðurinn sóttu á. Óskar litli nafni hans stóð upp úr sæti sínu og settist við hlið afa, hjúfraði sig að honum og tók í hönd hans. Orð voru óþörf. Minningin um þig mun lifa - veita okkur hlýju og vera til eftirbreytni.

Hafðu þökk fyrir það sem þú gafst mér og fjölskyldu minni.

Blessuð sé minning þín.

Rúnar.

Elsku Silla, nú ert þú farin en samt ekki farin úr huga mér. Ég gleymi því ekki þegar ég hitti þig fyrst í búðinni hjá Óla, þú varst svo hlýleg en samt með ákveðinn svip. Ég hefði ekki getað átt betri tengdamömmu og veistu hvað, ég veit hvað ég er að tala um. Það sem mér finnst sárast er hvað þig langaði mikið til að eiga lengri tíma með Agli Erni og Söru Lind en þú manst að ég sagði við þig að þú myndir hitta þau seinna, við myndum öll hittast aftur seinna. Árin sem við áttum saman voru yndisleg og þú reyndist okkur svo vel.

Þremur dögum eftir andlát þitt kom hún Sara Lind með símann og vildi hringja í Sillu ömmu. Þegar ég sagði henni að amma væri hjá Guði og kæmi ekki aftur þá horfði hún á mig með stóru augunum sínum. Mér fannst hún skilja hvað ég ætti við því hún tók utan um mig og lagði vanga sinn við minn. Egill Örn ætlar sjálfur að skrifa þér bréf og eins og hann sagði sjálfur þakka þér fyrir að kenna honum hestavísuna. Ég þakka fyrir tímann sem við áttum saman og hlakka til að hitta þig aftur.

Ástar- og saknaðarkveðjur.

Kristín.

Mín kæra tengdamóðir Silla, en það var hún kölluð í daglegu tali, lést sl. föstudag á 73. aldursári. Þetta var fagur dagur í sumarbyrjun. Gróður allur að koma til og hlýindi í lofti. Minningarnar eru margar sem koma upp í hugann á svona stundum og allar eru þær góðar, þvílík sæmdarkona var Silla. Ég kynntist tengdamóður minni fyrir 25 árum þegar Rúnar kom með mig inn á heimili þeirra Óskars á Rauðalæknum. Það viðmót sem ég naut einkenndist af hlýju og trausti. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að búa á heimili þeirra hjóna fyrstu samvistarár okkar Rúnars og kynntist ég því þá vel hvern mann mín kæra tengdamóðir hafði að geyma. Rólegt og yfirvegað fas, en jafnframt var stutt í glettnina. Hún var alltaf til staðar fyrir sína nánustu og hafði alltaf tíma. Heimili hennar einkenndist af reglu, öryggi og kærleika. Í febrúar á þessu ári greindist Silla með þann illvíga sjúkdóm sem yfirbugaði hana að lokum. Þann tíma sem hún barðist við krabbameinið sýndi hún æðruleysi og alltaf hélt hún reisn sinni og stolti. Kæri tengdapabbi, nú átt þú um sárt að binda. Megi Guð styrkja þig í sorg þinni.

María Antonsdóttir.

Sigurlaug Ólafsdóttir frá Læk í Viðvíkursveit í Skagafirði verður til moldar borin í dag, rúmlega sjötug að aldri. Við Sigurlaug vorum systkinabörn og leiksystkin í æsku. Síðar olli landfræðileg fjarlægð okkar í milli því að samskiptin urðu stopul.

Silla á Læk var hún alltaf kölluð af frændfólki og leikfélögum, og enn þann dag í dag nægir nafn hennar eitt til þess að vekja til lífsins dýrmætar endurminningar hjá því sama fólki. Þegar á barnsaldri bar hún með sér skýra mannkosti. Frá persónuleikanum stafaði hlýrri birtu sem hún miðlaði öðrum án undantekningar. Hún var harðdugleg, tók snemma að ganga í fullorðinsverk. Allt lék henni í höndum, og að hverju starfi gekk hún með gleðibrag og lauk því að því er virtist án áreynslu. Hún sómdi sér vel í hverjum leik, og vissulega var ekki ónýtt að eiga svona fallega og skemmtilega frænku sem manni fannst bera mjög höfuð og herðar yfir annað fólk þó ekki væri hún sjálf há í loftinu.

Gaman var að heimsækja Sillu á Læk. Sá bær var mjög miðsveitis, ekki einungis landfræðilega heldur vegna fólksins sem þar átti heima. Foreldrar Sillu, frú Guðrún og Ólafur, og eldri syskinin Margrét og Gísli Pétur voru vinmörg. Suðaustan við Lækjarbæinn stóð samkomu- og þinghús sveitarinnar, vettvangur pólitískra og ópólitískra funda og þar sem ungir og aldnir skemmtu sér við dans og hljóðfæraslátt eins oft og efni stóðu til eða veður leyfðu. Snemma varð það næstum því ófrávíkjanleg hefð hjá þeim sem erindi áttu í þessa menningarmiðstöð sveitarinnar að líta inn hjá Lækjarfólkinu, þiggja þar veitingar og ræða heimsins gagn og nauðsynjar. Oft bar við, einkum ef svalt þótti í þinghúsinu, að heilu mannfundirnir flyttu sig þaðan heim í stofu á Læk til að halda áfram að ræða þjóðmálin. Bar því flest að einum brunni um að gestkvæmt væri á Læk og að sá staður stæði að mörgu leyti í nánara sambandi við umheiminn en aðrir bæir í sveitinni, enda fannst okkur krökkunum Silla ærið heimsborgaraleg í hugsun og með víðari sjóndeildarhring en við hin.

Sillu á Læk hefði verið það innan handar að stjórna stórbúskap á góðri jörð og þá helst í Skagafirði. Engum sem til þekktu hefði komið slíkt á óvart. Hér má rétt nefna að kornungri varð hestamennska henni hrein listgrein. Er þess nú að minnast að stundum þegar hún fór að ná í hrossin leyfði hún frænda sínum að koma með sér og var það þá látið heita svo að þau væru bæði að ná í hrossin og var það nokkur upphefð. Skemmst er þó frá því að segja að í þeim sendiferðum varð frændinn einungis til trafala. Hann var vonlaus hestamaður. Ekki voru hrossin fyrr búin að koma auga á fylgdarmanninn en þau tóku að snúa að honum höm með tilheyrandi kollhúfum og frýsi og ekki viðlit að hann næði neinu þeirra, ekki einu sinni kerruklárunum. Þessu var öfugt farið hjá Sillu. Hrossin litu til hennar með velþóknun og urðu öll gæf í hennar viðurvist. Hún gat valið úr, hnýtt snærisspotta upp í úrvalshrossið og þeyst hvert á land sem hugur hennar stóð til. Frændinn öfundaðist og fór að vola. Hún beislaði kerruklár í skyndi, hjálpaði honum umyrðalaust á bak svo að hann þyrfti ekki að hlaupa á eftir hrossunum í bakaleiðinni en kæmist aftur heim í hlað með fullri reisn.

Hestamenn og konur eru miklir uppalendur. Ótemjan lærir því aðeins réttan gang að umhyggja og alúð fylgi tamningunni og að harðræði sé hún aldrei beitt. Sama máli gildir um börnin. Þau eru fljót að átta sig á greinarmörkum umhyggju og yfirgangs og miklu líklegri til að taka tilsögn en hlusta á aðfinnslur. Silla á Læk skildi því ekki aðeins öðrum betur sálarlíf hrossanna sem við umgengumst næstum því daglega. Hún varð snemma fágætur uppalandi eins og ráða má af eftirfarandi dæmi: Á barnaballi sem haldið var á Lækjarhúsi um jólaleytið einhvern tíma um eða upp úr miðjum fjórða áratug síðustu aldar var mikið um dýrðir. Þar var jólatré í krækilyngsskrúða, sagnaskemmtan, söngur og dans. Eins og við var að búast bar Silla af í dansinum. Hún var sú sem kunni að dansa og þá einnig sú sem gat dansað. Frændi hennar, sá sem alltaf reyndi að fylgja henni eftir, var mættur til leiks, en hann hvorki kunni að dansa né gat dansað, var auk þess feiminn og nokkuð skrýtinn í framkomu. Ekki lét hún slíka agnúa á sig fá fremur en endranær en bauð frændanum upp í dans og hefur líklega ætlað að slá tvær flugur í einu höggi með því að flétta honum saman tilsögn og skemmtan. Ekki tókst þó betur til en svo að frændinn varð svo þversum í dansinum að hann steig ofan á tærnar á dömunni, slengdist utan í dömur af öðrum bæjum og rakst síðan utan í jólatréð.

Skömmu síðar heimsótti Silla frænda sinn. Ekki minntist hún á hrakfarir hans á nýafstöðnu barnaballi á Læk. Hins vegar ræddi hún tæpitungulaust um nauðsyn þess að efla danskennslu í sveitinni og lét ekki sitja við orðin tóm heldur hófst kennslan þegar í stað. Hún var kennarinn og frændinn nemandinn. Fyrsta atriði dagskrár var "foxtrott". Sá dans er þannig að herrann byrjar fyrsta skref með því að stíga fram vinstra fæti. Ef stigið er nógu langt fylgir sá hægri vitaskuld fljótlega á eftir. Hér hljóp þó strax snurða á þráðinn því að nemandinn hafði að vísu oft heyrt orðin "vinstri" og "hægri", en merking þeirra var honum svo óljós að kennarinn lét sér strax skiljast að þau myndu með öllu ónothæf í kennslustund.

Úrlausnar var þó ekki langt að leita. Út um suðurgluggann á stofunni þar sem dansæfingin fór fram blasti við sjálfur Mælifellshnjúkur og þá um leið sú lausn að dansinn "foxtrott" hæfist með því að herrann stigi fyrst fram þeim fæti sem væri austan megin hnjúks í trausti þess að fóturinn sem lenti hægra megin sama hnjúks lyki skrefinu hér um bil sjálfkrafa, en herrann varð þá jafnframt að gæta þess að dansa alltaf í suður og rugla ekki kerfið með því að taka stjórann í aðrar áttir. Hér fóru ekki úrræðin í þurrð og mætti margur nokkuð af læra.

Við brottför frú Sigurlaugar Ólafsdóttur héðan úr heimi rifjast ekki einungis upp góðar minningar sem hún átti drýgstan þátt í að skapa, heldur má gleðjast yfir því að auk meðfæddra hæfileika bjó hún sér sjálf sitt eigið leiðarhnoða sem hún fylgdi ótrauð til hamingju og heilla ævina á enda. Bráðum verður dagur lengstur hér á norðurhveli og þá verður Sigurlaug væntanlega komin alla leið suður að Mælifellshnjúk, ekki þeim hinum sama og við sáum forðum út um suðurglugga á stofum heldur því eilífsfjalli sem gnæfir yfir aðra tinda og er einhvers staðar að finna í upphæðum. Þar mun hún bíða ættmenna og vina úr Skagafirði og öðrum þjóðlöndum, reiðubúin að veita þeim þá umhyggju og tilsögn sem þörf krefur.

Eiginmanni frú Sigurlaugar og fjölskyldu hennar allri vottum við samúð.

Haraldur Bessason.

Elsku hjartans amma. Okkur langar að kveðja þig með nokkrum orðum, sem reyndar aldrei geta orðið of mörg. Við trúum því ekki enn að þú sért farin frá okkur. Þetta gerðist svo snögglega.

Það er erfitt að hugsa til þess að við fáum aldrei að sjá þig aftur. Við söknum þín svo mikið.

Þegar við skrifum þessi orð til þín, elsku amma, erum við með mynd af þér hjá okkur. Augun fyllast af tárum og ógleymanlegum minningum. Þú kenndir okkur barnabörnunum svo margt sem við munum búa að alla tíð. Þú kenndir okkur að syngja, spila á spil, leggja kapal, baka, sauma og svo mætti lengi telja. Við munum svo kenna börnum okkar og barnabörnum eins og þú gerðir.

Alltaf var gott að koma til þín og afa í Steinagerðið. Við vorum alltaf velkomin hvenær sem var. Þú áttir alltaf kökur og annað góðgæti, svo ekki sé minnst á pönnukökurnar á sunnudögum. Þú varst besta amma í öllum heimi, alltaf svo glöð og kát.

Amma mín, þú stóðst þig eins og hetja í veikindum þínum. Þú kvartaðir aldrei. Það sem skipti þig mestu máli var að allir í kringum þig væru ánægðir, þá leið þér vel.

Þegar við sáum þig í hinsta sinn, elsku amma, varst þú svo friðsæl og falleg. Vonandi líður þér vel þar sem þú ert nú. Við vitum að þú munt passa upp á okkur öll og vaka yfir okkur. Við biðjum Guð að vaka yfir þér. Okkur langar að minnast þín með þessu fallega ljóði:

Ó, hve heitt ég unni þér

allt hið besta í hjarta mér

vaktir þú og vermdir þinni ást.

Æskubjart um öll mín spor

aftur glóði sól og vor,

og traust þitt var það athvarf, sem mér aldrei brást.

(Tómas Guðm.)

Elsku besti afi minn. Við munum gera allt til að styrkja þig og hjálpa í þessari miklu sorg. Amma mun alltaf lifa í hjarta okkar. Við munum aldrei gleyma þér, amma mín.

Þín barnabörn,

Kristín Ósk og Erla Dröfn.

Elsku amma. Þú kenndir okkur margt og mikið og þú varst svo góð við okkur. Þú kenndir okkur að spila olsen-olsen, rússa, tunnu, lönguvitleysu, veiðimann og fleiri spil. Svo kenndir þú okkur marga kapla. Nú getum við ekki spilað við þig oftar. Á sumrin slógum við grasið í garðinum hjá þér og afa og þú bakaðir pönnukökur handa okkur. Við munum líka svo vel eftir vísunum sem þú kenndir okkur. Ein þeirra er:

Litla Jörp með lipran fót

labbar götu þvera.

Hún skal seinna á mannamót

mig í söðli bera.

Elsku besta amma. Nú passar guð þig og lætur þér líða vel. Við söknum þín mjög mikið.

Óskar Kristinn

og Sigurður Rúnar.

Í dag kveðjum við Sillu ömmu með óendanlega miklum söknuði.

Með okkur lifa samt margar góðar minningar sem aldrei munu gleymast.

Það var alltaf gaman að koma í heimsókn til ömmu og afa í Steinó. Amma hafði alltaf tíma fyrir okkur og elskaði að fá okkur í heimsókn. Hún töfraði fram ógrynni af kræsingum þegar við komum og tók aldrei í mál að við færum án þess að borða eitthvað. Hún hafði alltaf áhyggjur af því að okkur væri kalt og að við borðuðum ekki nóg.

Hún hafði ómælda þolinmæði gagnvart okkur systrunum, það var sama upp á hverju við tókum og hvaða vesen við vorum með, alltaf hélt hún ró sinni og gerði gott úr hlutunum. Hún gerði aldrei upp á milli okkar, heldur elskaði okkur eins og við erum og naut þess að stjana við okkur.

Okkur er það efst í huga hvað húnamma var ólöt við að spila við okkur. Þegar við komum í heimsókn var hún annað hvort spilandi eða leggjandi kapal. Hún kenndi okkur fjölmörg spil og kapla, og hafði gaman af. Hún skemmti sér konunglega þegar sest var við eldhúsborðið í Steinó og spilað. Hún kom þeirri hefð á hjá fjölskyldunni að á jóladagskvöld kom fjölskyldan saman og spilaði fram á nótt.

Þegar við vorum yngri var það mikið sport að fá að "kúra í holunni" hjá ömmu og afa í náttfötunum sem stelpurnar hennar fengu lánuð hjá henni. Einnig fannst okkur mjög gaman að fá að eyða degi með henni í vinnunni.

Við áttum mörg yndisleg jól heima hjá ömmu og afa, þar sem öll fjölskyldan kom saman og hafði gaman af. Okkur fannst það ekkert tiltökumál þótt við þyrftum að ferðast langt að til að vera með þeim um jólin.Ömmu fannst það alltaf jafnskemmtilegt að hafa okkur öll í kringum sig og stjana við okkur.

Elsku amma, takk fyrir samveruna, þú hefur gefið okkur svo óendanlega mikið. Minningarnar um þig munum við geyma eins og gull í hjarta okkar.Við nutum þess alltaf að vera hjá þér og það verður skrítið að geta ekki kíkt til ömmu í kaffi og spjall. Einnig mun okkur vanta símtölin frá þér þegar þú hélst að við værum búnar að gleyma ykkur gamla fólkinu. Það var aldrei og mun ekki verða.Við munum hugsa vel um hann afa eins og við lofuðum þér þarna um kvöldið á líknardeildinni. Þrífa í kringum karlinn þinn eins og þú sagðir brosandi, sem þú varst alltaf, síbrosandi.

Þín verður sárt saknað við jólaborðið. Næstu jól munu verða skrítin þar sem þú munt ekki sitja brosandivið hliðina á honum afa að fylgjast með öllum æsingnum við jólatréð.

Elsku amma okkar, við kveðjum þig að sinni með miklum söknuði í hjarta, en vitum að þú munt hafa þaðgott og að við sameinumst á ný.

Anna Sigurlaug,

Guðrún og Halldóra.

Elsku Silla, kynni okkar voru allt of stutt en ég er ríkari maður af þeim. Hlýju þinnar vináttu geymi ég og óskir þínar verður mér ljúft að uppfylla. Tómarúmið verður aldrei fyllt en minningarnar verða smyrsl á sárin, þær eru gull sem við geymum í hjarta okkar.

Takk.

Óskar Gíslason.

Elsku amma, ég sakna þín svo mikið en ég veit að þér líður vel núna. Ég veit að þú fylgist með mér og passar bæði mig og Söru eins þú gerðir alltaf áður.

Ég gleymi aldrei leyndarmálinu okkar á bak við útvarpið þegar ég fékk að sofa hjá ykkur afa og stundunum sem við sátum saman og spiluðum eða púsluðum. Ég man líka að ég gat alltaf fengið ýsu í matinn þegar ég mátti ráða.

Takk fyrir allar vísurnar sem þú kenndir mér og sérstaklega fyrir hestavísuna.

Þetta heita hestarnir:

Hörður, Kjói, Grani,

Ljósa, Skjóna, Lýsingur,

Léttfeti og Hrani.

Ég ætla alltaf að muna þessa vísu og kenna börnunum mínum hana.

Elsku amma, við hittumst örugglega einhvern tíma seinna en þangað til ætla ég að hugsa til þín.

Egill Örn.

Rúnar.