Dagbjartur Guðjónsson fæddist í Nýjabæ í Sandvíkurhreppi 22. apríl 1921. Hann lést á Landspítalanum 1. maí síðastliðinn og fór útför hans fram frá Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu 12. maí.
Dýrðlegasta nafn sem nefnt hér á jörð, Jesús, Jesús, trúuðum safnar í hólpinna hjörð, Jesús, Jesús. Það hefir styrkt mig í þrautanna dal, það hefir glatt mig í hátíða sal duga mér einnig í dauðanum skal, Jesús, Jesús. (Þýð. séra Magnús Runólfsson)
Ég vil þakka Guði fyrir líf og starf trúbróður míns Dagbjarts Guðjónssonar. Hann var maður fullur af trú og heilögum anda. Hann var grandvar í orði og verki, hann lifði í hlýðni við Guð. Hann var mikill bænamaður og lét vitnisburðinn hljóma um náðarverk Guðs.
Ég hef svo mikið að þakka Dagbjarti, hann var vakandi í verki Drottins, oft hringdi hann í mig og bauð mér og systkinum mínum að koma með er hann fór á elliheimili eða sjúkrahús að vitna um Drottin okkar og Frelsara og margar náðarstundir átti ég fyrir árverkni Dagbjarts að fara út og vitna um Drottin og Hans undursamlegu náðarverk. Jesús er dýrðlegri en allt, við eigum allt ef við eigum Jesú, því hann sér um allt fyrir okkur svo við þurfum ekki að hafa áhyggjur. Það er algjört öryggi í lífi og dauða að eiga Jesú.
Dagbjartur spilaði vel á gítar og söng yndislega vakningasöngva um Jesú, það var hans þrá að þjóna Jesú heilsteyptur.
Nú er hann kominn heim í dýrðarríki Drottins, þar er eilíf sæla og gleði svo mikil að það hefir ekki eyra heyrt né auga séð slíka dýrð sem á okkur mun opinberast.
Elskuðu vinir sem lesið þessar línur. Jesús elskar ykkur svo heitt, hann þráir að þið njótið sannrar hamingju, hún fæst aðeins fyrir náðarverk Jesú Krists. Jesús einn gefur himneskan frið og sanna gleði.
Dýrðlegasta nafn sem nefnt hér á jörð,
Jesús, Jesús,
trúuðum safnar í hólpinna hjörð,
Jesús, Jesús.
Það hefir styrkt mig í þrautanna dal,
það hefir glatt mig í hátíða sal
duga mér einnig í dauðanum skal,
Jesús, Jesús.
(Þýð. séra Magnús Runólfsson)
Ég votta öldruðum bróður hans og ættmönnum innilega samúð. Guð blessi ykkur öll.
Anna Guðrún Jónsdóttir.
Anna Guðrún Jónsdóttir.