Jóhanna Petra fæddist á Hlíðarenda í Breiðdal 20. janúar 1911. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli 12. apríl síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Heydalakirkju í Breiðdal 22. apríl.

Við kvöddum móður mína, Jóhönnu Petru Björgvinsdóttur, hinstu kveðju í Heydalakirkjugarði 22. apríl sl., fjölmennur hópur afkomenda, ættingja og vina, margir langt að komnir. Á kveðjustund hellti sólin geislaflóði yfir snæviþakin fjöllin. Var vel við hæfi að Breiðdalur, sveitin hennar, sýndi þá alla sína tign og fegurð. Móðir mín var alin upp á Hlíðarenda. Sá bær stendur í þeim hluta Breiðdals er nefnist Norðurdalur, umlukinn tignarlegum fjöllum með skörðum á milli, sem um lágu þjóðleiðir þeirra tíma til Héraðs, Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Norðurdalur var í alfaraleið, og var aðhlynning gesta og gangandi ríkur þáttur í tilverunni. Gestrisni var mikil og endurgjalds í formi fjármuna ekki veitt viðtaka. Slíkt var ekki til siðs þótt ekki væri alltaf af miklu að taka. Sjálfsagt að ganga úr rúmi fyrir næturgestum þegar þannig stóð á og láta gesti njóta hvíldar í sinn stað. Þannig varð það frá upphafi einlæg og bjargföst sannfæring móður minnar að aðstoð við náungann væri sjálfsögð skylda hvers kristins manns. Hún innrætti okkur sonum sínum að vinna af trúmennsku og samviskusemi þau störf sem okkur væri trúað fyrir. Við ættum aldrei að upphefja okkur á kostnað annarra, né hælast yfir verkum okkar. Við ættum að vera nægjusamir, eta það sem á boðstólum væri hverju sinni. Hún var af þeirri kynslóð sem hafði oft séð hungurvofuna glotta skammt undan. Þá snerist dæmið einfaldlega um að halda lífi og halda fjölskyldunni saman. Móðir mín hleypti heimdraganum um tvítugt, fór til starfa á Sjúkrahúsinu á Seyðisfirði. Eftir ár þar fór hún til Akureyrar í vist á svokölluðu "betra heimili" sem þótti þá ungum stúlkum gott veganesti. Hún sagði að húsmóðir sín hefði mikið haft vín um hönd. Lagði hún fast að henni, húshjálpinni, að drekka áfengi með sér og fleiri konum "af betra standi," og tileinka sér "dannaða siði." Þá siði vildi hún ekki tileinka sér. Sýndist heimur Bakkusar innantómur og gæfulaus þeim er þar dvöldu. Þarna var hún í eitt ár, kemur síðan vanfær heim að Hlíðarenda og eignast þar sveininn Björgvin Hlíðar Guðmundsson, árið 1932. Árið 1940 giftist hún föður mínum, Páli Lárussyni frá Gilsá og flutti þangað til hans. Þau eignuðust þrjá syni, mig Stefán Lárus, Sigurð Pálma og Sigþór. Foreldrar mínir slitu endanlega samvistum vorið 1948. Þá var heimili okkar á Gilsá leyst upp og móðir mín flutti örsnauð með fjóra syni sína í Hlíðarenda. Þar var hún í sambýli með Sigurbjörgu Erlendsdóttur móður sinni, ljúfri sómakonu, ásamt bræðrum sínum Gunnari, Herbirni og Erlendi. Þá bjó þar líka Gísli Friðjón bróðir hennar, ásamt Sigurbjörgu konu sinni, og þrem börnum. Á heimilinu var öldruð kona okkur vandalaus, sem Sigurbjörg amma hafði tekið upp á sína arma, kölluð Lauga fingralausa, fatlaður einstæðingur sem fékk skjól hjá stórfjölskyldunni á Hlíðarenda eins og fleiri. Þá var mannmargt á Hlíðarenda, 15 manns við matborðið, auk þess að oft var gestkvæmt. Þá dvöldu þar oft börn af öðrum bæjum sem voru við nám í farskóla. Ekki var rafmagn á bænum þá, og þurrkað sauðatað eldsneyti til suðu og upphitunar. Þetta var hinn sjálfbæri búskapur. Í öllum mínum minningum er móðir mín vinnandi frá því eldsnemma morguns til síðkvölds eða lengur, hvern einasta dag sem Guð gaf. Gekk í öll verk jafnt úti sem inni. Vann erfiðustu störf, talin karlmannsígildi til vinnu, með réttu. Fær fyrst rafmagn inn á heimili sitt um fimmtugsaldur. Eignast skömmu síðar frumstæða þvottavél, fyrsta raftækið í hennar eigu. Aðstæður hennar eru nútímafólki í ofneyslu gerviþarfa og þægindaþjóðfélagi okkar óskiljanlegar. Endalaust strit. Aldrei gefið eftir. Hún átti aldrei frí. Þvílíkt ofurmannlegt og aðdáunarvert þrek og æðruleysi. Safnaði ekki veraldlegum auði. Bústofn hennar árið 1949 er samkvæmt dagbók Gísla bróður hennar eftirfarandi: 20 ær, sex gemlingar, ein kýr, einn kálfur, átta hænsni. Þetta var aleiga hennar eftir átta ára búskap, og fjögur börn á framfæri. Kúna missti hún svo af völdum hunda nágranna sinna, bótalaust. Hafði hún fá orð um þann skaða sem var mikill, við hennar aðstæður. Þar fór stór undirstaða lífsafkomu einstæðrar móður fjögurra barna. Dýrmætasta eignin. Á Hlíðarenda bjó á þeim tíma ein stór samhent fjölskylda, og vorum við synir Petru að öllu leyti við sama borð og hin börnin. "Guði þykir ljótt ef einn er settur hjá" var orðtæki Sigurbjargar ömmu, ættmóðurinnar á Hlíðarenda. Og enginn var settur hjá. Séð var um að allir fengju sinn hluta, þótt oft væri lítið til að skipta, og okkur leið vel. Í huga móður minnar var sveitin hennar paradís á jörð. Árið 1958 flutti móðir mín með okkur þrjá syni sína frá Hlíðarenda í Fellsás til Erlendar bróður síns, sem þá hafði keypt jörðina. Þar dvaldist hún fyrst sem bústýra, þar til Erlendur kvæntist Fribjörgu Midjord frá Færeyjum. Var hún áfram á heimilinu, og reyndust þau hjónin henni sérlega vel. Hafði hún oft á orði við mig að Fribjörg hefði reynst sér eins og besta dóttir og mat hana mikils. Þegar að því kom vegna heilsuleysis Petru og ellihrumleika, að nauðsyn bar til að hún flytti á hjúkrunarheimili, var það um síðir gert með sárum trega af hálfu fjölskyldunnar í Fellsási. Móðir mín hafði þar notið hjúkrunar og umhyggju eins og best var hægt að veita miðað við aðstæður. Móðir mín naut góðrar aðhlynningar hjá starfsfólki Skjólgarðs á Höfn, síðustu æviárin. Hrakaði heilsu og atgervi smám saman í tímans rás. Návist barna gladdi hana mjög þar til yfir lauk. Hún fékk hægt andlát 12. apríl sl. Hún virtist skynja nærveru Jóhönnu ömmu sinnar skömmu fyrir andlát sitt. Þær voru mjög nánar í bernsku hennar. Móðir mín trúði staðfastlega á handleiðslu Guðs almáttugs. Þegar hún varð fyrir þeirri þungu sorg að elsti sonurinn fórst í sjóslysi um dimma vetrarnótt 1962, frá konu og tveim ungum börnum, tók hún því af miklum styrk, og bar harm sinn í hljóði. Við bróðir minn Pálmi, vorum þá báðir á vélbátnum Braga frá Breiðdalsvík þessa vertíð. Ég spurði hana hvort ég ætti ekki að fara í land, henni til hugarhægðar eftir sonarmissinn? Hún leit í augu mér og svaraði. "Nei, Lárus minn, það flýr enginn örlög sín. Taktu þínu hlutskipti með æðruleysi, hvert sem það verður. Sé þér ætlað að farast á sjó þá verður það. En sé þér ætlað annað hlutskipti verður svo, guð ræður, treystu handleiðslu hans." Lengst af síðan átti hún alla drengina sína þrjá, farsæla á sjó. Þeim hafa vafalaust fylgt heitar móðurbænir til almættisins um að vakað skyldi yfir velferð þeirra á hafinu. Þær bænir hafa verið heyrðar. Þegar ég fyrr á árum spurði móður mína hvort hún hefði hug á að flytja til mín, á öðru landshorni, svaraði hún: "Nei, í Breiðdal líður mér best, þar á ég alltaf heima."

Mamma mín, nú ert þú komin endanlega heim í Breiðdalinn, sveitina þína sem var þér paradís þessa heins. Sveitina þar sem þú upplifðir gleði og sorgir. Þar sem þú áttir óteljandi spor, í bjartri vornóttinni, í dökku haustmyrkri og hríðarbyljum vetrar. Þar sem þú ólst syni þína fjóra og komst okkur til manns, og horfðir á nýjar kynslóðir vaxa upp og þá eldri hverfa á braut. Hvíl þú í friði,móðir góð, eftir langan starfsdag. Ég minnist þín sem góðrar móður, konu sem ekki flíkaði tilfinningum sínum. Konu sem fórnaði sér fyrir aðra. Konu sem leit á vinnusemi sem dyggð og taldi iðjuleysi undirrót þess illa. Konu sem ekki vildi skulda neinum neitt, konu með stolt. Þessi fátæklegu orð eru hinsta kveðja til móður, frá syni, sem á svo margt að þakka.

Blessuð sé minning þín.

Stefán Lárus Pálsson.

Stefán Lárus Pálsson.