Sr. Heimir Steinsson fæddist á Seyðisfirði þann 1. júlí 1937. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 15. maí síðastliðinn. Foreldrar hans voru Steinn Stefánsson, skólastjóri á Seyðisfirði, f. 11. júlí 1908, d. 1. ágúst 1991 og Arnþrúður Ingólfsdóttir, húsfreyja, f. 14. ágúst 1916, d. 25. júní 1964. Systkini Heimis eru Iðunn, rithöfundur, f. 5.janúar 1940, Kristín, rithöfundur, f. 11.mars 1946, Ingólfur, ritstjóri og tónlistarmaður, f. 25. janúar 1951 og Stefán, læknir, f. 18.janúar 1958. Eftirlifandi eiginkona Heimis er Dóra Erla Þórhallsdóttir, fulltrúi, fædd þann 19. júní 1941. Þau gengu í hjónaband 9. september 1961. Foreldrar hennar voru hjónin Þórhallur Þorkelsson, húsgagnasmiður í Reykjavík, f. 3. ágúst 1910, d. 4. desember 1977, og Halldóra Ólafsdóttir, húsfreyja, f. 16.apríl 1914, d. 4. júní 1999. Eignuðust Heimir og Dóra tvö börn. a) Þórhallur, prestur í Hafnarfjarðarkirkju, f. 30. júlí 1961. Kona hans er Ingileif Malmberg, sjúkrahúsprestur, f. 31. júlí 1964 . Eiga þau þrjár dætur, Dóru Erlu, f. 22. júni 1987, Rakel, f. 15. mars 1991 og Hlín, f. 25.janúar 1993. b) Arnþrúður, f. 6. september 1971, kandídat í búvísindum. Eiginmaður hennar er Þorlákur Magnús Sigurbjörnsson, búfræðingur, f. 2. janúar 1973. Eiga þau einn son, Heimi Sindra, f. 14. desember 1999. Heimir varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 17. júní 1957. Hann stundaði nám í fornleifafræði við Kaupmannahafnarháskóla 1958-59 og í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands 1959-61. Heimir lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 27. maí 1966 og stundaði hann framhaldsnám í trúfræði og almennri kirkjusögu við University of Edinburgh 1968-69.Heimir var settur sóknarprestur í Seyðisfjarðarprestakalli frá 1. júní 1966 og vígður 12. júní sama ár. Hann gegndi því kalli til 30. september 1968. Var hann kennari við Haslev udvidede Højskole í Danmörku 1969-72 og við Utgarden folkehöjskole í Noregi vorið 1972. Heimir var Rektor Lýðháskólans í Skálholti, síðar Skálholtsskóla, frá stofnun haustið 1972 til 15. júlí 1982. Einnig var Heimir stundakennari í kirkjusögu við guðfræðideild Háskóla Íslands 1981. Hann var skipaður sóknarprestur í Þingvallaprestakalli og þjóðgarðsvörður á Þingvöllum frá 1. janúar 1982 og gegndi þeim embættum til 1. október 1991. Heimir var skipaður útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins frá 1. október 1991 til 15. desember 1996. Var hann síðan skipaður sóknarprestur í Þingvallaprestakalli og staðarhaldari á Þingvöllum frá 15. desember 1996 og gegndi þeim embættum til æviloka. Hann var og framkvæmdastjóri og ritari Þingvallanefndar 1982-91 og ritari nefndarinnar frá 1996. Gegndi Heimir fjölmörgum trúnaðar- og nefndarstörfum fyrir kirkju og þjóð og starfaði á margvíslegum vettvangi. Heimir var meðlimur í Reglu musterisriddara (9. stig) frá 1985. Eftir Heimi liggja fjölmörg ritverk, bækur, ljóð, bókakaflar, greinar og þýðingar. Má þar m.a. nefna ljóðabókina "Haustregn" frá 1986, hugvekjusafnið "Á torgi himinsins" frá 1999, þýðingu hans á "Þriðju bæn heilags Anselmusar til Maríu guðsmóður" er kom út 1998 og sálma í sálmabókunum 1972, 1997 og sérútgáfu söngmálastjóra Þjóðkirkjunnar vegna kristnitökuafmælis . Einnig samdi hann "Annál Prestafélags Íslands 1918-1988" er koma mun út sumarið 2000 með hinu nýja Guðfræðingatali. Auk þessa hefur Heimir flutt fjölda fyrirlestra er tengjast kirkju, trú og sögu lands og þjóðar. Heimir hlaut margvísleg heiðursmerki um ævina, m.a. veitti forseti Íslands honum riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 1991. Útför sr. Heimis fer fram frá Dómkirkjunni í dag, og hefst athöfnin klukkan 13.30. Jarðsungið verður í Þingvallakirkjugarði.

Ég minnist þín í vorsins bláa veldi, er vonir okkar stefndu að sama marki, þær týndust ei í heimsins glaum og harki, og hugann glöddu á björtu sumarkveldi. Þín sál var öll hjá fögrum lit og línum, og ljóðsins töfraglæsta dularheimi. þú leiðst burt frá lágum jarðarseimi, í ljóssins dýrð, á hugar-vængjum þínum. Ég sakna þín, ég syrgi farinn vin, í sálu þinni fann ég dýpsta hljóminn, er hóf sig yfir heimsins dægur-glys. Á horfna tímans horfi ég endurskin, ég heyri ennþá glaða, þýða róminn, frá hreinni sál með hárra vona ris. (Steinn Steinarr.)

Ástkæri faðir.

Ég minnist þín í vorsins bláa veldi,

er vonir okkar stefndu að sama marki,

þær týndust ei í heimsins glaum og harki,

og hugann glöddu á björtu sumarkveldi.

Þín sál var öll hjá fögrum lit og línum,

og ljóðsins töfraglæsta dularheimi.

þú leiðst burt frá lágum jarðarseimi,

í ljóssins dýrð, á hugar-vængjum þínum.

Ég sakna þín, ég syrgi farinn vin,

í sálu þinni fann ég dýpsta hljóminn,

er hóf sig yfir heimsins dægur-glys.

Á horfna tímans horfi ég endurskin,

ég heyri ennþá glaða, þýða róminn,

frá hreinni sál með hárra vona ris.

(Steinn Steinarr.)

Orða er vant.

Minn ástríki faðir er horfinn frá mér, minn góði vinur. Skarð hefur myndast sem verður aldrei fyllt, en óbrotgjarnar minningarnar um þig eru dýrmætar.

Þú varst svo sérstakur maður, og allir þættir persónunnar órjúfanlega samtvinnaðir. Þú hafðir mikla löngun til þess að bæta heiminn, og að vera þess megnugur að viðhalda og auka við menningarverðmæti okkar. Tungumálið, sagan, bókmenntirnar og trúin, þetta urðu hornsteinar í lífi þínu, og gleði þín og trú á þessum manngildum snart fjölmarga. Siðferðisgildi þín voru mjög skýr, hver maður skyldi hafa þá sjálfsvirðingu að hefja sig yfir hegðan sem ekki er sæmandi. Enda væri okkur ætlað að láta óhagganlegan veruleika ævarandi Guðs móta allt atferli vort hér í heimi. Þú trúðir því einnig statt og stöðugt, að hinir breysku menn sem byggja þessa jarðarkringlu væru í eðli sínu Guði þóknanlegir. Að hver maður þráði í raun að vera góður, með reisn, menntaður og trúaður. Eins og sáðmaður gekkst einnig þú út að sá fræjum þínum, þau féllu sum í grýttan jarðveg, önnur uxu upp þar sem enginn hefði búist við að lífvænlegt væri, og enn önnur þroskuðust og döfnuðu og dreifðu fræjum sínum áfram. Stundum olli þessi trú á manninn þér miklum sársauka, því oft er mannleg vera svikul. Mér, eins og mörgum öðrum, varðst þú hvati til að gera mitt fremsta til að vera menntuð persóna, sem færi gegnum lífið með reisn. Við vorum líka gæfusöm feðgin, okkur varð aldrei sundurorða. Þú varst trúr sannfæringu þinni, ávallt tryggur því fólki og þeim manngildum sem þú trúðir á, hvikaðir aldrei.

Byrði betri

berrat maðr brautu at

an sé manvit mikit.

Vinnuharka þín var afspyrnu mikil. Vakinn og sofinn varstu yfir þeim verkefnum sem þér voru falin, og ekkert mátti frá þér fara sem ekki var fullkomið. Þú sagðir við mig, að í lífinu væri ekki hægt að gera betur en sitt besta, en í þeim orðum var einnig fólgin hógværð þín, ekki væri viðunandi að gera minna en sitt besta.

Þú hafðir líka einstakan hæfileika, sem var næmi þitt á texta. Það olli þér engum erfiðleikum að muna heilu kvæðabálkana orðrétt, eða endursegja góðar bækur, án þess að nokkursstaðar væri farið rangt með. Það voru þvílík auðæfi fyrir lítinn krakkastubb að hlusta á og reyna að læra. Aldrei leiddist mér á ferðalögum eða öðrum samverustundum okkar tveggja, því lindin var óþrjótandi, sögur af sterkum fornköppum eða gáfumönnum, ævintýri og þjóðsögur sem tengdust þeim stöðum sem ferðast var um, kvæði sem þú fluttir svo fallega af þinni styrku rödd, þannig að ókleift var annað en að elska þau. Við lékum okkur líka að orðum, kjarnyrt íslenska í máli og á blaði voru barnagull mín.

Ég varð líka þeirrar gæfu aðnjótandi að geta og mega vera mikið í kringum þig við vinnu þína. Þú varst óhemju mikilvirkur maður, og sífellt að nema, fræða eða vinna. Þegar þú varst rektor í Skálholti rölti ég (þótt ég stæði vart út úr hnefa) oft inn í kennslustund og hlýddi á, eða inn í skrifstofu þína, ég var ávallt velkomin. Okkur leið báðum vel að sýsla hvoru í návist annars.

Bókin, sá gnægtabrunnur, varð einnig okkur báðum töm. Bókin var alltaf í nálægð þinni. Ég sé þig svo oft fyrir mér að lesa bók, að leita í bókum og ræða um þær, og ekki sá í heilu veggina heima fyrir bókunum þínum. Ef ekki var bók í hendi, þá var það penninn, að semja góðan texta og ljóð, og uppfræða heiminn. Enda áttuð þú og Þingvallastaður eins vel saman og nokkur kostur er, þar samtvinnaðist þú við fræðin, trúna, söguna, náttúruna, fjölskylduna og fræðsluna. Það var mikil gæfa, bæði þín og staðarins.

Barngóður varstu og máttir ekkert aumt sjá, og börnum sem hafa kynnst þér vel þykir öllum óhemju vænt um þig. Þegar mér fæddist lítill drengur þennan vetur, þá var hann umvafinn kærleika þínum frá því fyrir fæðingu, og hver stund sem gafst þegar ég var með drenginn fyrir sunnan var nýtt til að hjala við nafna, og syngja kvæði fyrir hann. Það var dásamlegt að vera barn og alast upp með þér. Ótímabær missir afabarnanna er átakanlegur og sár.

Ég er svo þakklát fyrir ástirnar sem þú gafst mér. Ástina á bókum, ástina á íslenskri tungu og fallegu málfari, ástina á ljóðum, ástina á sögum, ástina á söng, ástina á trúnni, ástina á náttúrunni, ástina á þér, ástina á mér. Þú byggðir mig upp á svo ótal vegu. Og þótt ég tæki svo allt aðra stefnu en þú í lífinu gerði það ekkert til, þú studdir mig samt af alhug, og ég á veganestið frá þér.

Fyrst og fremst var þó ein þungamiðja alls lífs þíns: Trúin og útbreiðsla fagnaðarerindisins. Nú hvílir þú í faðmi hins alvalda Guðs, nýtur að eilífu friðar, kominn til hins æðsta leyndardóms.

"Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu."

(Halldór Laxness.)

Heimir Sindri Þorláksson kveður afa sinn með þessari vísu:

Deyr fé,

deyja frændr,

deyr sjalfr et sama.

En orðstírr

deyr aldrigi,

hveims sér góðan getr.

Arnþrúður Heimisdóttir.

Elsku afi. Það er svo skrýtið að þú skulir ekki vera hérna hjá okkur lengur. Þú passaðir okkur svo oft og varst alltaf svo góður við okkur. Þakka þér fyrir allar sögurnar sem þú sagðir okkur og allar vísurnar og öll lögin sem þú kenndir okkur. Það var svo gott að fá þig í heimsókn þegar við vorum veikar, þá hugsaðir þú svo sérstaklega vel um okkur. Þá sagðir þú okkur sögurnar um Gunnlaug Ormstungu og drauminn um hrafnana tvo og svaninn, söguna um Helgu og gullskóinn og fleiri og fleiri sögur og söngst fyrir okkur öll fallegu lögin þín. Það var líka svo gaman að heimsækja þig og ömmu á Þingvöll. Þá fórum við í göngutúra, drógum upp fánann með þér, gengum á Lögberg og gáfum gæsunum að borða. Nú höfum við þig ekki lengur hjá okkur elsku afi og söknum þín mikið. En við vitum að þú ert hjá Guði og að þú hugsar alltaf til okkar og fylgist með okkur. Elsku afi. Við kveðjum þig með einni af hinum mörgu vísum sem þér þótti svo vænt um:

Þó að kali heitur hver,

hylji dali jökull ber,

steinar tali og allt hvað er,

aldrei skal ég gleyma þér.

(Skáld-Rósa.)

Já elsku afi. Við biðjum Guð og alla englana hans að passa þig.

Þín afabörn,

Dóra Erla, Rakel og Hlín.

Enn hverfur bróðir og vinur af velli. Séra Heimir Steinsson, best kenndur við Skálholt og Þingvelli, er genginn eftir þræðinum veika sem strengdur er yfir djúpið mikla á vit aftureldingarinnar.

Við séra Heimir kynntumst fyrst 1984 um þær mundir er börnin okkar tóku saman og gengu í heilagt hjónaband, hann gaf þau saman í Þjóðkirkjunni í Hafnarfirði. Þetta var upphaf nýrra tíma. Bæði þá og síðar var eins og leyndur strengur tengdi okkur. Þessi minningarorð verða e.t.v. svolítið óræð, þannig voru áhrif séra Heimis á mig. Stundir okkar saman voru tíðum stundir þagnar eða fárra orða í dulinni leit að sannleika sem er ofar öllu, fagur og skær. Myndmál, táknmál eða "symbolik", fráhvarf frá bókstafnum, eins og ljóð fárra orða með djúpri merkingu og hrifum. Séra Heimir var mikill trúmaður, en í honum bjó einnig mikil togstreita og þrá, metnaður og barátta góðs og ills. Guðsmaðurinn tók sjálfan sig til bæna í kvæðinu "Málalok" þegar hann horfir til baka til þeirra sem fundu glætur í lófa sér "til þess að verjast ógn og ofboði til þess að gleyma því að þeir gengu í svartamyrkri" og hann bætir við " eins og öll við hin", og er yfir lauk bað hann "hvers vegna gerði ég það? Bróðir minn smár og systir, fyrirgefið mér". Í umfjöllun um ljóðabók séra Heimis "Haustregn" (A.B.1986) segir reyndar að engrar fyrirgefningar væri þörf, hann hafði haft á réttu að standa (Árni Bergmann). Þar fyrir skal ekki gert lítið úr auðmýktinni að lokum og bæn um fyrirgefningu.

Ég á margar bjartar minningar um séra Heimi. Hann stækkaði litlu kirkjuna á Þingvöllum með trúarstyrk og andagift sinni, raddstyrk og söng.

Hann var mikill unnandi íslenskrar náttúru og kunni á henni góð skil, ekki síst á Þingvöllum. Sagan var honum einnig hugleikin. Á vordögum 1984 á Þingvöllum líkti hann með miklu dálæti tengdadóttur sinni, sem gekk hljóðlát og afskiptalaus í túni umhverfis Þingvallabæinn með ófæddan frumburð sinn, við á eða heimalning í haga. Seinna var barnið skírt á eftirminnilegum hátíðardegi í Þingvallakirkju að viðstöddum ættingjum og vinum. Séra Heimir lagði þá áherslu á að "kærleikurinn væri þeirra mestur" og kom þannig til móts við þá kærleiksríku sem stóðu í anddyri kirkjunnar. Seinna minnist ég einnig helgistundar í kirkjunni á Þingvöllum með séra Heimi við undirbúning fyrir brúðkaup sem síðar varð á öðru höfuðbóli hans, í Skálholti.

Árin liðu, það kom að páskum 1999, mér var boðið til dvalar á Þingvöllum hjá þeim Dóru og séra Heimi. Miklar væntingar bjuggu með okkur. Séra Heimir prédikaði á föstudaginn langa, svolítið reikandi, en lítt áberandi þó.

Dró svo af honum um kvöldið, á sjúkrahús í Reykjavík daginn eftir, langt og strangt stríð sem lauk með sigri lífsins að sinni. Séra Heimir efldist og hóf störf að nýju m.a. með miklum væntingum til kristnitökuhátíðar sumarið 2000. Eina minningu aðra frá þessum tíma ber þó jafnvel hæst, leikur hans á gólfi við barnabörnin sín suður í Hafnarfirði, stúlkur tvær, léttur og reifur í hispurslausum heimafatnaði. Andstæðan við hátíðlega framkomu og skrúðann í starfi var mikil, en maðurinn þó hinn sami.

Stelpur mínar þrjár í Fálkahrauni í Hafnarfirði og strákur og nafni hans í Fljótum í Skagafirði, þið hafið misst mikið, en viðhaldandi minning um góðan og kærleiksríkan afa mun fylgja ykkur til styrktar veginum fram eftir lífinu.

Svo kom er nálgaðist páska 2000 að aftur varð séra Heimir veikur. Að þessu sinni varð hann undan að láta eftir erfitt stríð. Og enn eykst einsemd okkar hinna með minningar um allt sem við áttum ósagt, en í von um að nálægð og tilfinning hafi komið einhverju til skila. Berum boðskap okkar vitni í orðum og gerðum. Séra Heimir steig upp frá táradalnum og breytti "honum í vatnsríka vin". Ég tjái hug minn á tregastundum, þannig er veik trú mín um veginn, sannleikann og lífið. Mín persónulega reynsla af séra Heimi er að hann vakti af blundi, gaf og skýrði.

Að lokum vil ég votta elskulegri Dóru, eiginkonu séra Heimis, börnum þeirra þeim Þórhalli og Arnþrúði, barnabörnum, tengdabörnum, bræðrum og systrum, og vinum og vandamönnum öllum sem og Þingvallasöfnuði, dýpstu samúð mína vegna fráfalls séra Heimis Steinssonar. Guð blessi minningu hans.

Kona missir maka, börn föður og afa, hvar er ljós í myrkri? Jú, í upprisu til eilífs lífs.

Að lokum skal hér enn skírskotað til séra Heimis sjálfs með síðasta ljóðinu í ljóðabókinni "Haustregn" (A.B.1986):

Leystar eru festar:

Hefst og rís

úr nausti, landið,

landið eina.

Gott er að lifa

og elska

landið í hafinu,

börnin í landinu

og Guð vors lands.

Landið siglir

ofar skýjum.

Krossinn blaktir

yfir landinu.

Með trega og þakklæti.

Svend-Aage Malmberg.

Okkur langar í fáum orðum að minnast vinar okkar, sr. Heimis Steinssonar, sem við vorum svo lánsöm að fá að kynnast í starfi sem leik. Minnisstæð eru sumrin þrjú á Þingvöllum þar sem við unnum undir hans stjórn, á Þingvöllum var sr. Heimir á heimavelli og leyndi sér ekki að þar var sannur leiðtogi á ferð sem ávallt gaf mikið af sér. Það voru forréttindi að fá að starfa á Þingvöllum með sr. Heimi og munum við lengi búa að þeirra reynslu. Einnig eru minnisstæðar aðrar stundir sem við áttum með sr. Heimi og fjölskyldu hans og bera þar hæst áramótafagnaðirnir sem við komum saman á í nokkur ár. Nú er komið að kveðjustund en hlýjar minningarnar um sr. Heimi munu alltaf lifa.

Elsku Dóra, Þórhallur, Ingileif, Arnþrúður, Þorlákur og börn, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð.

Páll Jakob Malmberg og

Ingibjörg Arnardóttir.

Elskulegur frændi minn, Heimir Steinsson, hefur nú kvatt þessa jarðvist eftir mikil og erfið veikindi.

Allt hefur sinn tíma.

Ein kynslóð fer og önnur kemur í staðinn, en jörðin stendur að eilífu.

Við Heimir vorum systkinabörn og þótt aldursmunurinn væri mikill þá kynntumst við vel þegar hann var sóknarprestur á Seyðisfirði og stundakennari við Barna- og unglingaskólann.

Þar var ég svo heppin að vera nemandi. Hann var frábær kennari, ólatur við að miðla okkur unglingunum frá sínu brjósti fróðleik um sögu og fornleifafræði, landafræði og ensku.

Heimir blés nýju lífi í kirkjustarfið, stofnaði æskulýðsfélag, stúlknakór við kirkjuna, stóð fyrir "opnu húsi" í skólanum, fór með okkur í ferðalög og margt fleira sem of langt er upp að telja í stuttum kveðjuorðum.

Eftir að við fluttum burt frá Seyðisfirði hittumst við sjaldnar en alltaf voru það fagnaðarfundir. Það var gott að spjalla við hann og aldrei var langt í glettni og hlátur. Alltaf var hægt að rifja upp Guðrúnar ömmu sögur, sem voru ófáar.

Ég vil að lokum þakka Heimi frænda mínum allt sem hann gerði fyrir mig. Allt það sem hann gerði fyrir fjölskyldu mína, þessa stórfjölskyldu þar sem frændsemin er alltaf í fyrirrúmi.

Ég veit að hann fær góða heimkomu og líður nú vel eftir allt þetta veikindastríð.

Ég sendi Dóru, Þórhalli, Arnþrúði og fjölskyldum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Bryndís Pálína Hrólfsdóttir.

Hann var fagurkeri austan af fjörðum, gáfaður menntamaður sem var margt til lista lagt. Hann var ljóðrænn orðsins maður með ákeðnar hugmyndir um lífið og tilveruna sem aldrei fór með veggjum. Hann elskaði allt fagurt; fagra siði, framkomu og menntir, fagurt ritmál og tungu, fagra náttúru og fólk með snotra en ögrandi og vitra sál. Hann gekk ekki hvers manns vegu; var í raun Þorgeir á Þingvöllum alla tíð; hafði skoðun á flestu og uppskar eftir því. Drangar á berangri sverfast af gnauði vinda. Hálir eru hvers manns vegir sungum við í Kvennalistanum á sinni tíð. Það var þá!

Ljúfsár er sú skylda mín að minnast Heimis, tengda- og fjölskylduvinar sem er alltof snemmkvaddur úr mannheimum til æðri starfa.

Kynni okkar hófust þegar Heimir, ungur og stór í sniðum, með framtíðina í fanginu, fastnaði sér Dóru Erlu, glæsilega frænku míns látna ektamaka, Matthíasar, sem Heimir jarðsöng, af sinni alkunnu fágun, en einnig alltof snemma. Fyrir það og ýmsar aðrar stórar stundir í fjölskyldunni er þakkað.

Heimir kom eins og hvítur stormsveipur inn í tengdafjölskyldu mína, maður sem talaði tæpitungulaust. Tengdafólkið sýndi hins vegar ekki af sér neina hjárænur og lá ekki á skoðunum sínum; engin lognmolla þar. Pólitíkin var frá svarbláu yfir í fagurrautt. Fólk gerði sér frekar upp skoðanir af hreinni óart, sjálfu sér til skemmtunar, en hafa engar. Rökrætt var fullum hálsi - allir á háa C...inu. Álengdar hefði mátt halda að allir væru komnir í hár saman og allt í leiðindum. Síður en svo. Gaman, gaman, prakkaraskapur réð för og Fossárættin gaf hvurgi eftir fyrir Austfirðingum. Prúða stúlkan var þó alla tíð hún Dóra Erla, eiginkonan; stoðin og styttan hans Heimis, með sín jarðtengdu heilræði og ráðdeild.

Saman lögðu þau gjörva hönd á margt.

Jarðarberin úr garðinum þeirra á Danmerkurárum ólýsanleg, sömuleiðis heimsóknir á prestsetur fyrir austan tungl og sunnan mána, orðræður um menntun og siðfræði ásamt góðum beina í Skálholti og á Þingvöllum. Fagrar myndir í minjasafni okkar sem nutum, sumar einnig þjóðarinnar allrar.

Heimir Steinsson og þau hjón bæði voru glæsilegir fulltrúar lands og þjóðar á Þingvöllum - sannir Þingvallagoðar.

Minning um góðan dreng lifir. Megi góðar vættir geyma fjölskyldu Heimis Steinssonar, Dóru Erlu, Arnþrúði, Þórhall, tengdabörn, barnabörn og aðra vandamenn.

Elín G. Ólafsdóttir og

fjölskylda.

Vinur er fallinn frá.

Sr. Heimir setti mjög svip sinn á allt kirkjulegt starf þar sem hann kom nærri enda ótvíræður kirkjulegur leiðtogi. Um langt árabil áttum við samleið með sr. Heimi í kirkjufræðslunefnd. Verkefnið var umfangsmikið og visst brautryðjendastarf og fundir okkar margir og langir og oftast nær afar skemmtilegir. Nefndarstörfum lauk með stofnun fræðsludeildar kirkjunnar en við vinirnir héldum áfram að hittast okkur til mikillar ánægju og uppbyggingar.

Frá þessari samvinnu sem við áttum standa eftir sterkar myndir af Heimi um margt ólíkar, einkum kannski tvær, myndin af baráttumanninum og hins vegar manni íhyglinnar.

Þessir tveir þættir koma glögglega til skila í sálmi sem sr. Heimir þýddi nýlega og nefndi "Í návist Guðs" og verður sunginn við útför hans. Þessi sálmur hefur orðið okkur umhugsunarefni er við kveðjum hann. Þar ávarpar hann Guð sinn með líkingu úr hernaðarlistinni. Þar segir:

Ver þú minn skjöldur og skjómi á braut

skjól mitt og vígturn í ævinnar þraut

styrkur og göfgi í gleði og sorg

græðsla og máttur í himneskri borg.

Honum voru töm orð úr heimi hernaðar og baráttu, sum nokkuð forn og framandi. Sjálfur var hann ódeigur til atlögu og gat verið vígreifur og þunghöggur en jafnframt var hann viðkvæmur maður, innhverfur og íhugull. Hann brást við bæði hratt og hart ef málstaður eða stofnun sem hann var hollustubundinn átti í hlut, hvort heldur var til sóknar eða varnar. Hann var heill í hollustu sinni og trúr embættismaður - af gamla skólanum. Þrátt fyrir baráttugleðina var hann sáttfús þegar á reyndi.

Hann hafði vopnin til baráttunnar, góð tök á tungunni og jós af þekkingarbrunni, með latneskar tilvitnanir á hraðbergi, tilvísan í skáldskap fornan sem nýjan, söguþekking hans var mikil og guðfræðin traust. Stundum var mál hans fornt og nokkuð tilgert. Hann hafði fjölþætta menntun og reynslu, menntamaður og skólamaður. Allt frá uppvexti á Seyðisfirði til æviloka var hann tengdur skólum og skólastöðum. Nú síðast uppfræddi hann nemendur leikmannaskóla kirkjunnar um Passíusálmana og kristna mystík, en hvort tveggja var honum afar hugleikið.

Skóli er dregið af grísku orði og merkir næði og tóm. Hinir frjálsbornu grísku menn fengu leyfi frá hermennsku til að sinna öðrum menntum í næði. Þar gafst næði til að leita dýpri lífsfyllingar. Sú var hin myndin af Heimi sem vitnað var til hér að framan.

Hann var að vissu leyti einfari og naut þess að vera einn með sjálfum sér og sótti að brunnum fornrar menningar sér til uppbyggingar og væðingar í starfi. Hann lét þau orð falla að sér mundi aldrei leiðast af því hann ætti eftir að lesa svo mikið af bókum. Þeirri þekkingu og visku sem hann öðlaðist miðlaði skólamaðurinn samferðamönnum sínum bæði í ræðu og riti. Heimir fann sinni kristnu íhygli farveg í ljóðum og sálmum.

Auðlegð mér gezt ei né innantómt hrós;

arfleifð þín, Guð, sé mitt tærasta ljós.

Þú og þú einn, gef mér innheim þinn sjá,

alfaðir huldi, mín leyndasta þrá.

Heimir þekkti vel veikleika sína og háði oft mikla innri baráttu en átti jafnframt djúpa og margslungna trú sem bar hann að föðurhjarta þess Drottins sem gaf honum lífið og kallaði hann ungan til fylgdar við sig.

Baráttu Heimis vinar okkar er nú lokið. Nú gefst næðið þar sem hann mætir Drottni sínum.

Konungur sólna, lát sigurinn þinn

sigra í elsku hvern veikleika minn.

Hjarta þitt, Kristur, við hjarta mér slær,

himneska ásjóna, Drottinn minn kær.

Með þakklæti felum við bróður okkar Heimi þeim Guði sem hann þráði að eiga návist við með hans eigin bænarorðum:

Herra og Guð, ver þú heilsulind mín;

hverfi mér allt nema tilvera þín.

Hugsun mín daglangt og draumur um nótt

dvelji við auglit þitt kyrrsælt og rótt.

Bernharður Guðmundsson,

Ingólfur Guðmundsson,

Þorvaldur Karl Helgason.

Séra Heimir Steinsson gleymist þeim ekki, sem kynntust honum og áttu við hann samskipti. Hann lét víða að sér kveða og gegndi mikilvægum og viðkvæmum störfum bæði á kirkjulegum og veraldlegum vettvangi af eftirminnilegri reisn.

Sr. Heimir sinnti skólahaldi í Skálholti, prestþjónustu og staðarforystu á Þingvöllum og leiðtogahlutverki innan ríkisútvarpsins. Hann tengdist þannig þremur höfuðbólum í tæpa þrjá áratugi og alls staðar markaði hann spor með þeim hætti, að fáir geta farið í þau.

Mörgum kom á óvart, þegar sr. Heimir var skipaður útvarpsstjóri í október 1991. Á vettvangi ríkisútvarpsins stjórnaði sr. Heimir með mjög persónulegum stíl. Hann var ötull málsvari stofnunarinnar í ræðu og riti. Leit hann á útvarpið sem þjóðlega fræðslu- og menningarstofnun.

Eftir að ég varð menntamálaráðherra vorið 1995 samhliða því að gegna formennsku í Þingvallanefnd, komst ég fljótt að því í samræðum okkar sr. Heimis, að hugur hans var ekki síður bundinn Þingvöllum en ríkisútvarpinu. Hann hafði verið Þingvallaprestur og þjóðgarðsvörður í níu ár, þegar hann varð útvarpsstjóri. Skynjaði ég fljótt, að kyrrð og fegurð Þingvalla átti betur við hann en amstrið og hraðinn í ríkisútvarpinu. Þróuðust mál á þann veg að ósk sr. Heimis, þegar prestlaust varð á Þingvöllum, að hann réðst þangað aftur sem sóknarprestur og staðarhaldari, því að þjóðgarðsvarðarstarfinu hafði verið ráðstafað með öðrum hætti.

Samstarf sr. Heimis og Þingvallanefndar var með miklum ágætum og var hann vakinn og sofinn yfir virðingu Þingvalla og sérstaklega áhugasamur um sögu staðarins og lagði áherslu á, að þar yrði ráðist í fornleifarannsóknir. Fyrir utan preststarfið tók hann að sér leiðsögn gesta um þinghelgina og sinnti jafnframt fræði- og ritstörfum í þágu Þingvalla. Lét honum einstaklega vel að taka á móti tignum gestum og leiða þá um hinn sögufræga stað og til kirkju.

Persónulegar minningar af samskiptum okkar sr. Heimis eru margar og góðar. Hann varð eindreginn talsmaður þess, að hugað væri með skynsamlegum hætti að varnar- og öryggismálum þjóðarinnar og áttum við góða samleið í þeim efnum á tímum kalda stríðsins og eftir að því lauk.

Í hugann kemur að lokum helgistund í Þingvallakirkju á dánardægri foreldra minna og lítils frænda. Sr. Heimir bauð okkur til hennar og flutti mál sitt með þeim hætti, að ekki gleymist. Á ég ekki betri ósk til Dóru, barna þeirra hjóna og fjölskyldu en trúarstyrkur sr. Heimis á þeirri stundu verði þeim leiðarljós í sorg þeirra.

Blessuð sé minning Heimis Steinssonar.

Björn Bjarnason.

Kveðja frá Hólum í Hjaltadal

Vinur minn, séra Heimir Steinsson, var ljóssins og andans prestur. Hann var viðkvæmur maður og fljóthuga, því tilfinningar hans voru næmar. Það voru ógleymanlegar samverustundir, sem við áttum á háskólaárunum, þegar okkur bárust í hendur ljóðabækur. Við lásum hvor fyrir annan, örir af hrifningu yfir því sem vel var gjört. Meðal annars voru ljóð Hannesar Péturssonar lesin og lærð. Við sáum fyrir okkur myndina, sem skáldið dregur upp af Hallgrími Péturssyni, er hann lýkur Passíusálmum:

Ó loksins; og hann leggur seint til hliðar

hinn létta fjöðurstaf og blaðar þögull

í verki sínu, veit að nú er allt

sem vildi hann öðrum segja fólgið þar,

fullskapað, heilt og hreinna en jarðarvatn.

Rís svo á fætur; finnur svíða á ný

hinn fúlu kaun sem aldrei batna en dýpka

og breiðast út; sem hefði andlit hans

og hendurnar til yztu fingurgóma

ei annað hlutverk átt að rækja á jörð

en innibyrgja; geyma þetta verk

og mætti nú opnast eins og bresti skurn

utan að hinum fullþroskaða blóma.

Þetta ljóð kemur upp í hugann nú, vegna þess að mér er minnisstæð hrifni Heimis vinar míns, þegar hann las það. Þau viðbrögð hans lýstu betur en mörg orð lífsviðhorfi skapmikils manns, sem háði harða trúarbaráttu, og náði sáttum við Guð og menn. Þannig kveður Heimir.

Við Matthildur biðjum Guð að gefa Dóru, börnum þeirra, barnabörnum og öðrum ástvinum styrk á kveðjustund.

Bolli Gústavsson, Hólum.

Saumaklúbbssystur kallaði Heimir okkur vinkonurnar. Það var aðdáandahreimur í röddinni. Við vinkonurnar höfðum kynnst í Húsmæðraskóla Reykjavíkur veturinn 1958-1959. Heimi fannst mikið til okkar koma og þar kom að hann og makar okkar komu nær og deildu með okkur vináttunni. Síðan höfum við auðsýnt hvert öðru systkinaþel án orða. Á hálfu ári hafa þrír úr þessum hópi kvatt og þar áður tveir. Harmur okkar er sár en við erum þess fullviss að ekkert okkar hverfur hinum því við erum í minningunni ekki bara ung heldur líka þeir fullorðnu vinir sem við urðum. Húsmóðurhlutverkið var að mati Heimis merkilegt starf. Hann átti alltaf rós í barmi, eiginkonuna Dóru. Hún var alvöld drottning í þeirra húsi. Þegar við héldum myndakvöld eftir sumarferðir okkar stóð Heimir ávallt upp og hélt ógleymanlegar ræður. Orðfærni hans var slík að á stundum fylgdum við ekki eftir, enda var hann hugsuður. Heimir vandaði alltaf fræðslu sína hvort um var að ræða tiginborinn gest eða eina manneskju sem þyrsti í fróðleik. Svipmynd bregður fyrir núna þar sem Heimir segir stórum hópi ungra barna "Þið eigið Þingvelli." Augu barnanna stækka og þau horfa á þennan merka mann. Síðar stækka þessi börn og koma aftur á Þingvöll og þá ávaxtast orðin hans Heimis. Ísland var land hans, Þingvellir helgidómur þjóðarinnar og tungan lífæðin.

Blessuð sé minning Heimis Steinssonar.

Saumaklúbbssystur og makar.

Þegar systir séra Heimis hringdi í mig og tilkynnti mér andlát bróður síns varð mér að orði: Þetta er mér sorgarfregn og þetta er mannskaði. Það eru orð að sönnu, því að fallinn er í valinn einn með mætustu samtíðarmönnum okkar og einn af merkustu þjónum kirkjunnar okkar á meðal.

Ég sakna og góðs vinar og góðs drengs sem verið hefur vinur minn frá því hann var barn að aldri og sótti reglulega og af áhuga sunnudagaskólann minn á Seyðisfirði.

Síðar kenndi ég honum kristin fræði og fleiri fög í barna- og unglingaskóla. Þá var hann fermingarsonur minn og ég leiddi hann fyrstu sporin í latínu áður en hann hóf menntaskólagöngu sína. Hann lærði að beygja agricola og hina dýrlegu sögn amo og var fljótur að læra beygingar þessar eins og önnur námsefni og ekki hef ég kennt áhugasamari og skarpari nemanda en þessum dreng. Mér er minnisstætt að þegar Heimir gekk til spurninga þá var það ekki aðeins presturinn sem spurði heldur einnig fermingardrengurinn sem hafði einurð og þörf til að spyrja prestinn spurninga um námsefnið því að hann var leitandi ungur maður sem tók fermingarundirbúning og ferminguna alvarlega og vildi vita hvar hann stóð og ganga án efa og hiks upp að altari Drottins.

Þannig var séra Heimir alla tíð. Hann vildi í hverju máli vita hvar hann stóð. Námsferill hans sýnir það vel. Hann lagði stund á fornleifafræði og norrænu áður en hann lauk þeirri baráttu við sjálfan sig og Guð að nema guðfræði og gerast prestur. Sú ákvörðun hans var mér sérstakt gleðiefni. Mér er það og eftirminnileg ánægja að herra Sigurbjörn biskup fól mér að lýsa vígslu þegar séra Heimir var vígður til prestsþjónustu í mínu gamla, góða prestakalli, Seyðisfirði. Við þá athöfn lagði ég út frá orðunum "Mátturinn fullkomnast í veikleika" (2. Kor. 12,9) því að það er aðeins þá er við stöndum nógu vanmáttug gagnvart viðfangsefnum okkar, takmarki og gildum lífsins að Guð kemst að okkur og fyllir tómleika hugar og handa styrkleika trúar og trausts til athafna í hans nafni.

Séra Heimir lét einhvern tíma í ljós þakkir fyrir þessi orð, því að þannig var viðhorf hans sjálfs og þannig fann hann Guð og starfaði fyrir ríki hans, ekki í eigin mætti heldur mætti Guðs.

Séra Heimir var djúpgreindur maður og einnig skáld og talaði fagurt og kjarnmikið mál, enda vel lærður í íslensku og ól í brjósti aðdáun og ást á þessu ástkæra, ylhýra máli Jónasar Hallgrímssonar.

Athyglisverðar þóttu mér hugleiðingar hans á gamlárskvöld er hann var útvarpsstjóri og minnti um margt á gamlársræður Andrésar Björnssonar fyrirrennara hans, hins frábæra ræðumanns. Ræður sem báru vitni fágætum lífsskilningi og mannskilningi vermdum trúaryl og bjartri eilífðarsýn.

Í slíkum anda talaði séra Heimir eftirminnilega.

Margt gæti ég skrifað um samskipti okkar á þeim árum sem hann var rektor lýðskóla kirkjunnar í Skálholti en ég ritari biskups. Áttum við þá margt saman að sælda og allt gott, en ég læt hér staðar numið.

Margir munu sakna séra Heimis og margir minnast hans. Kirkjan á á bak að sjá góðum og traustum þjóni. Mestur harmur er kveðinn að fjölskyldu hans og frændliði. Kæra frú Dóra, ég votta þér og börnum ykkar dýpstu samúð mína. Systkinum hans, sem einnig eru kærir vinir mínir, votta ég einlæga hluttekning.

Blessuð sé minning séra Heimis Steinssonar.

Erlendur Sigmundsson.

Heimi Steinssyni kynntist ég fyrst í Menntaskólanum á Akureyri, þar sem leiðir lágu saman. Hann var glaðvær og söngelskur sem hann átti kyn til, óvenju víðlesinn, tilfinningaríkur og hrifnæmur. Á samkomum á Héraði naut hann sín vel í hópi jafnaldra þar sem lagið var tekið við gítarundirleik.

Síðan liðu áratugir. Þá atvikaðist það svo að ég sat í Þingvallanefnd og öðlingurinn Eiríkur J. Eiríksson hætti starfi sem prestur og þjóðgarðsvörður á Þingvöllum árið 1981 sökum aldurs. Verkefnið var auglýst og sammæli varð í Þingvallanefnd að mæla með ráðningu Heimis Steinssonar. Um leið var sitthvað endurskipulagt það er að þjóðgarðinum sneri, húsnæði endurbyggt og nefndin afsalaði sér aðstöðu sem hún lengi hafði haft í Þingvallabæ. Nýir húsráðendur, Heimir og Dóra, fluttu inn 1982 við skaplegri aðstæður en forverar þeirra og stóðu þar fyrir búi í heilan áratug af miklum myndarskap og gestrisni.

Þingvallanefnd hafði mikið undir á þessum árum, einkum að því er varðaði skipulag þjóðgarðsins, bættar aðstæður fyrir almenning og frágang á ýmsum lausum endum. Heimir reyndist afar starfsamur og dugandi þjóðgarðsvörður, bæði að því er sneri að framkvæmdum og verkstjórn og við móttöku ferðamanna og leiðsögn. Það skiptir alla sem Þingvelli sækja heim miklu að fá þar fræðslu um þennan helgistað okkar Íslendinga. Á dögum Heimis og áratugina á undan hafði þjóðgarðsvörður á Þingvöllum fá tæki önnur en sjálfan sig, rödd sína og andagift, til að miðla gestum og gangandi fróðleik. Heimir sparaði ekki röddina og af andagift átti hann nóg fyrir háa sem lága, innlenda og erlenda. Ég hygg margir sem leiðsagnar hans nutu, hvort sem var í blíðviðri á Lögbergi eða í skjóli Þingvallakirkju er regnið buldi, rifji þær stundir upp þessa dagana. Eftir að langþráð gestastofa rís við Hakið með safni og söguskýringum verður það flestum ráðgáta hvernig hægt var að vera án hennar í 70 ár í þessum þjóðgarði. Verst er að staðarhaldarinn góði skuli allur í þann mund að sá draumur rætist.

Heimi hitti ég á Kjarvalsstöðum á liðnum vetri og enn bar Þingvelli á góma.

Heimboð var endurnýjað og heitstrengingar um að láta nú verða af að líta við. Það er um seinan og enn erum við minnt á dauðans óvissan tíma.

Austfirðingurinn glaðværi er fallinn fyrr en varði. Eftir lifa með okkur góðar minningar og þakklæti fyrir ágæt störf hans í þágu lands og lýðs.

Dóru, börnunum og öllum frændgarði sendum við Kristín samúðarkveðjur.

Hjörleifur Guttormsson.

Eftir erfiða sjúkdómsraun hefur eftirminnilegur sonur kvatt sína þjóð.

Heimir Steinsson fæddist og ólst upp á Seyðisfirði, sonur skólastjórahjónanna þar, einn fimm systkina.

Foreldrar þeirra voru atorkusamir og naut hið litla bæjarfélag þess á margan hátt. Steinn Stefánsson, skólastjóri, sat lengi í bæjarstjórn Seyðisfjarðar og voru þau hjónin, hann og kona hans, Arnþrúður Ingólfsdóttir, burðarásar í menningar- og félagslífi bæjarins, ekki síst á tónlistarsviðinu.

Fljótt kom í ljós að Heimir var vel af guði gerður, myndarlegur á velli og óvenjugóðum gáfum gæddur.

Hann sagði mér frá því að hann ætti sérstakar bernskuminningar tengdar móðurforeldrum sínum og sagði að Ingólfur Hrólfsson, afi hans, hefði haft mikil áhrif á mótun sína og fyrstu lífsviðhorf. Ingólfur, sem var verkalýðsforingi á Seyðisfirði, átti löngum nokkrar kindur og tók Heimir þátt í umhirðu þeirra af miklum áhuga.

Einnig sagði Heimir að líklega hefðu fáir gerst opinberir starfsmenn jafn ungir og hann. Níu og tíu ára var hann ráðinn sendisveinn (opinber starfsmaður) hjá pósti og síma á Seyðisfirði og bar símskeyti og pósttilkynningar vítt um bæinn. Sérstaklega nefndi hann Helgu Sigurðardóttur á pósthúsinu sem eftirminnilegan yfirmann.

Ungur að árum kynntist Heimir ýmsum störfum til sjávar og sveita, eins og tíðkaðist um miðja öldina. Hann vann á unglingsaldri við byggingu Grímsárvirkjunar eða brúargerð á Héraði og naut þess að vera þar í námunda við alkunnar söguslóðir Fljótsdæla. Þá tók hann ótrauður á móti silfri hafsins á Seyðisfirði og vann hörðum höndum á síldarplani eins og ungir sem aldnir gerðu þar á þeim árum.

Leiðir okkar Heimis lágu síðar saman, er við urðum nágrannar á Hofteignum í Reykjavík. Hann var þá við nám í Háskólanum og þau Dóra leigðu íbúð á Hofteignum gegnt Laugarneskirkju. Þarna rak Heimir forskóla fyrir börn um nokkurra ára skeið, framan af sjöunda áratugnum.

Tvær elstu dætur okkar hjóna gengu í skóla hans enda stutt að fara. Við tókum eftir því að börnin fengu frábæra handleiðslu og flest munu þau hafa útskrifast vel læs. Börnin höfðu miklar mætur á læriföður sínum og foreldrarnir voru honum þakklátir.

Heimir varð gagnmenntaður maður og fjölmenntaður. Hann lauk til dæmis embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands með einstökum glæsibrag. Heimir gegndi ýmsum ábyrgðarstöðum, nær öllum á vegum þjóðkirkjunnar, meginhluta starfsævinnar.

Nánust urðu kynni okkar Heimis í útvarpsstjóratíð hans en hann var skipaður til þess embættis á haustmánuðum 1991 og gegndi því um fimm ára skeið. Segja má að starf innan Ríkisútvarpsins hafi löngum verið unnið á berangri. Að sjálfsögðu hefur þetta bæði kosti og galla í för með sér, stormurinn er þó betri en lognmollan. Ábyrgð útvarpsstjóra er því þung að stýra þessari grónu menningarstofnun farsællega í misjöfnu sjólagi. Kröfur til Ríkisútvarpsins eru miklar frá eigendum þess, sem eru landsmenn allir. Metnaður innan stofnunar er einnig mikill og þar hefur jafnan verið reynt að sinna margþættum skyldum eftir því sem efni hafa leyft ár frá ári. Allt var þetta Heimi ljóst, sem alla tíð hafði verið traustur stuðningsmaður Ríkisútvarpsins.

Ytri aðstæður voru um margt ákaflega erfiðar í útvarpsstjóratíð hans og við ýmis snúin úrlausnarefni að fást. Frá upphafi var þó ljóst að hinn nýi útvarpsstjóri lagði þunga áherslu á menningarhlutverk Ríkisútvarpsins og því markmiði fylgdi hann eftir af fullri sannfæringu og öllum mætti. Hann hrinti í framkvæmd ritun sögu Ríkisútvarpsins frá upphafi fram til komu sjónvarpsins um miðjan sjöunda áratuginn. Réð hann Gunnar Stefánsson, íslensku- og bókmenntafræðing, til þess starfa.

Heimir ávann sér vináttu samstarfsmanna sinna hjá Ríkisútvarpinu. Þar kom til rótgróin góðvild hans og hreinskiptni. Hann trúði á sama hátt á hið besta í hverjum manni.

Augljóst var okkur samstarfsfólkinu að eiginkona Heimis, Dóra Þórhallsdóttir, var honum mikil stoð í erfiðu starfi og átti hún sinn þátt í vinsældum þeirra hjóna innan stofnunar með sínu ljúfa skaplyndi.

Við hjónin munum lengi minnast leiðsagnar séra Heimis um Þingvelli, hið helga vé þjóðarinnar. Sögu Þingvalla sér maður í allt öðru ljósi eftir kynningu hans, sem byggðist á mikilli þekkingu og ást til staðarins. Heimsóknir til þeirra hjóna í Þingvallabæinn eru og minnisstæðar en þar var alltaf rausn og gleði ríkjandi. Fyrir þetta er þakkað.

Kallið er komið, og það kom alltof fljótt. Huggun er þó í því, hve mikið dagsverk liggur að baki.

Dóru, Arnbjörgu og Þórhalli, mökum þeirra, börnum og öðrum ástvinum vottum við hjónin innilega samúð.

Blessuð sé minning séra Heimis Steinssonar.

Hörður Vilhjálmsson.

Séra Heimir Steinsson var stórgáfaður maður. Fundum okkar bar fyrst saman fyrir löngu síðan í Menntaskólanum á Akureyri. Þar vorum við bekkjarbræður fjóra góða og skemmtilega vetur. Heimir var sjónæmur, fróður og skemmtilegur, söngmaður og skáldmæltur.

Að loknu stúdentsprófi kenndi Heimir einn vetur við unglingaskólann í heimabyggð sinni Seyðisfirði en þar var faðir hans Steinn Stefánsson skólastjóri. Heimir lagði stund á fornleifafræði við Kaupmannahafnarháskóla einn vetur og íslensk fræði við Háskóla Íslands þrjá vetur.

1961 urðu mikil þáttaskil í lífi Heimis en það ár giftist hann eftirlifandi konu sinni Dóru Þórhallsdóttur og hóf nám í guðfræði. Að loknu guðfræðinámi á Háskólanum gerðist hann prestur á Seyðisfirði en aflaði sér síðar aukinnar menntunar í kirkjulegum fræðum í Edinborg. Þá kynnti hann sér lýðskólamál á Norðurlöndum. 1972 tók hann að sér stjórn skólans í Skálholti við stofnun hans og gegndi því starfi til 1982 að hann gerðist þjóðgarðsvörður og sóknarprestur á Þingvöllum.

Sr. Heimir var kennimaður mikill sem vænta mátti. Hann var tilfinninganæmur og stórhuga. Honum lét vel að fræða, hafði eftirminnilegt tungutak og var ritsnjall. Á hinum helga stað Þingvöllum naut hann sín vel sem húsbóndi og fræðimaður. Ritaði hann mikið um kirkjuleg svo og veraldleg efni og naut mikils trúnaðar og virðingar.

Þegar biskupskjör fór fram 1989 var sr. Heimir næstefstur fjögurra frambjóðenda.

1991 gerðist sr. Heimir útvarpsstjóri og gegndi því starfi til 1996. Ég hygg að þau ár hafi verið Heimi að sínu leyti nokkuð örðug enda átti hann þá stundum við grálynda að etja.

Hann sagði útvarpsstjórastarfi sínu lausu og hvarf aftur að sínu fyrra starfi á Þingvöllum sem hann gegndi með miklum sóma meðan heilsa entist.

Sr. Heimir unni mjög Dóru konu sinni og var stoltur af henni. Þeim varð tveggja barna auðið, annað er Þórhallur prestur í Hafnarfirði, hitt er Arnþrúður bóndi og hestamaður í Langhúsum í Fljótum.

Nú er sr. Heimir horfinn af heimi alltof snemma. Eftir hann liggja margvísleg ritverk og ágætur skáldskapur. Í hugum okkar sem eignuðumst vináttu hans lifir minning um gáfaðan og góðan mann sem við virtum umfram flesta aðra.

Frú Dóru Þórhallsdóttur eru færðar innilegustu samúðarkveðjur.

Páll Pétursson.

Í maí 1983 tók Heimir Steinsson á móti mér og konu minni á Þingvöllum. Hann bauð okkur velkomin á sinn hlýja og einlæga máta. Við áttum góða og eftirminnilega stund með Heimi og Dóru Þórhallsdóttur konu hans á heimili þjóðgarðsvarðar. Á þeirri stundu hófust okkar góðu kynni og vinátta, sem styrktust með hverju ári og aldrei féll á skuggi þau sjö ár, sem við vorum næstu nágrannar á Þingvöllum, eða þau árin, sem ég sat síðan í Þingvallanefnd.

Oft leitaði ég til Heimis og kom aldrei að tómum kofunum. Enda var hann óvenju fjölfróður maður og vel að sér. Hann var einn af þessum fáu mönnum sem ánægjulegt var við að ræða. Sérstaklega var Heimir vel að sér um sögu og náttúru Þingvalla og sögu fornaldar og kirkjunnar og reyndar einnig um menn og málefni almennt. Hann var vel hagmæltur og átti létt með að kasta fram stöku. Frá Heimi fór ég ætíð fróðari.

Ekki veit ég fjölda þeirra erlendu gesta, sem ég fylgdi til Þingvalla á fund Heimis. Fyrir þeim lýsti hann sögu staðarins og öllu því, sem Þingvöllum tengist, á þann máta að seint gleymist og á ýmsum tungumálum eftir þörfum, hvort sem var á Lögbergi, í kirkjunni eða yfir fundarmönnum í Valhöll. Ég hef síðan hitt að nýju slíka gesti, sem minnast sérstaklega prestsins og staðarhaldarans á Þingvöllum. Ég þekki þess jafnvel dæmi, að Þingvellir skipa sérstakan sess eftir myndræna lýsingu Heimis.

Heimir brást aldrei.

Því miður verðum við hjónin ekki á landinu til að fylgja Heimi síðasta spölinn. Þessi fátæklegu orð verða því að nægja til að þakka Heimi vináttuna og votta Dóru Þórhallsdóttur og afkomendum þeirra Heimis einlæga samúð.

Steingrímur Hermannsson.

Þannig hófust kynni okkar séra Heimis Steinssonar, að þegar ég hóf nám í guðfræðideild Háskóla Íslands var hann að hefja sitt síðasta námsár þar.

Hann vakti fljótt athygli okkar nýnemanna. Skörulegur og vandaður málflutningur hans fannst okkur glæsilegur. Okkur boðaði hann virðingu fyrir því sem hann kallaði sístæðan arf kirkjunnar í helgihaldi og boðun.

Síðan höfum við, eins og margir fleiri, ávallt lagt við hlustir er séra Heimir talaði.

Aðrir munu rekja ævi og störf þessa gengna bróður. Sjálfur vil ég aðeins staðnæmast við þátt séra Heimis í uppbyggingunni hér í Skálholti. Eins og alþjóð veit varð hann fyrstur rektor Lýðháskólans í Skálholti. Í því starfi vakti hann aðdáun ungs fólks og eignaðist í gegnum það starf góða vini, bæði úr hópi nemenda og kennaraliðs. Skálholtsstaður varð honum kær og hugleikinn, og eftir að ég kom hingað reyndi ég það ítrekað, að gott var til hans að leita staðarins vegna. Síðustu ár hefur séra Heimir stofnað til pílagrímsferða fólks úr Reykjavík um sögustaði Árnesþings, og hefur Skálholt verið endastöð þeirra ferða. Von var á honum í sumar á slíkri ferð. Ljóst er að ekki verður af því, og munum við sakna þess.

Margvíslega verður þessa manns þannig saknað og þess svipmóts sem hann setti á það umhverfi sitt sem hann lét sig varða.

Hér í Skálholti felum við hann í bænum okkar góðum Guði um leið og við sendum frú Dóru og fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.

Sigurður Sigurðarson,

Skálholti.

Kveðja frá Prestafélagi Íslands

Í þriðja kafla annarrar Mósebókar standa þessi orð: "Móse sagði við Guð: "En þegar ég kem til Ísraelsmanna og segi við þá: "Guð feðra yðar sendi mig til yðar," og þeir segja við mig: "Hvert er nafn hans?" hverju skal ég þá svara þeim?" Þá sagði Guð við Móse: "Ég er sá sem ég er." Og hann sagði: "Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: "Drottinn, Guð feðra yðar, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs sendi mig til yðar.""

Á skírdagskvöld árið 1992 hélt sr. Heimir Steinsson, sóknarprestur á Þingvöllum, ræðu í Keflavíkurkirkju. Í umfjöllun sinni um hið heilaga altarissakramenti lagði hann út af þessum forna texta úr annarri Mósebók, með þeim hætti að ég hef munað alla tíð síðan og tel það ekki aðeins hafa upplýst mig á ógleymanlegan hátt um guðfræðilegt vandamál eða úrlausnarefni heldur einnig lýst fyrir mér á nokkurn hátt hver fyrirlesarinn var.

Í prédikun sr. Heimis, áður fyrr sem endranær, komu tvö atriði glögglega fram: Annars vegar sá skilningur að kristin trú er söguleg trú, hún á sér upphaf, framvindu og lokamark, - Guð er upphafið og endirinn, Alfa og Omega og hann leiðir manninn og mannkynið áfram á vegferðinni, skapar hann og frelsar. Sagan af samskiptum manns og Guðs er hjálpræðissaga. Hins vegar er sá skilningur að núið, andráin sé hið þýðingarmikla andartak - þegar maður og Guð mætast, þegar Guð mætir manninum, gengur í veg fyrir manninn. Hver er sá Guð? Það er sá Guð sem hefur elskað manninn og skapað, gefið honum ástvini hans og allt sem honum er kært í þessu lífi. Það er sá Guð sem hefur gefið manninum allar fagrar kenndir og skynsemi og hvetur manninn til að láta þá eiginleika ríkja í samskiptum sínum við aðra menn. Það er Guð allra kynslóða, Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs, Guð föður míns og móður. Þessi Guð gengur í veg fyrir mig núna, í dag. Þess vegna er dagurinn dýr, dýrmætur og þess virði að lifað sé á honum. Hinn heilagi, hátt upphafni, eilífi Guð gengur í veg fyrir mig, það gerist áþreifanlegast og raunverulegast í hinu heilaga altarissakramenti. Guð segir: "Ég er sá sem ég er." Maðurinn er sá sem hann er af því að - og þegar - hann þiggur meðvitund sína af vitund og veru Guðs.

Þetta skynjaði sr. Heimir í lífi sínu, guðfræði og prédikun. Hann las lífið í dag í ljósi sögunnar. Til þess að sérhver maður geti skilið sjálfan sig í samtímanum þarf hann að skoða sjálfan sig í stærra samhengi, nefnilega í samhengi fjölskyldu, þjóðar, kirkju og siðar.

Á prestskaparferli sínum þjónaði sr. Heimir lengst af sem rektor Lýðháskólans í Skálholti og sem sóknarprestur og þjóðgarðsvörður á Þingvöllum. Það má með sanni segja að hann hafi unnað þessum tveimur kirkjustöðum mest allra á Íslandi. Hann hafði sterka tilfinningu fyrir því sem heilagt var - og er - og þann sess skipa þessir tveir staðir í vitund flestra Íslendinga, þeir eru heilagir. Hann unni trúararfinum, menningunni, náttúrunni, veðrum og óveðrum, mannþrönginni og fámenninu, þögninni, kyrrðinni. Hann unni íslenskri tungu og lætur eftir sig margar perlur í ræðu og riti því til staðfestingar en þó fyrst og fremst til staðfestingar á þeim vitnisburði sem hann vildi gefa öðrum um hin heilögu sannindi af manninum andspænis Guði.

Árið 1995 skipaði stjórn Prestafélags Íslands ritnefnd er skyldi undirbúa útgáfu nýs Guðfræðingatals. Rit þetta er nú í prentun og kemur væntanlega út í júní nk. Sr. Heimir var fenginn til að rita sögu Prestafélagsins sem mun birtast í Guðfræðingatalinu. Í inngangsorðum hans að þeirri sögu skrifar sr. Heimir um stofnun félagsins: "Prestafélag Íslands varð nýjasta greinin á lífstré þessa vonglaða tímaskeiðs ... Ekki var að undra, þótt íslenskir prestar efldust að þrótti í þennan mund. Þjóðin var öll í framfarahug. Prestastéttin hefur jafnan verið samslungin þjóðinni í þeim mæli, að þar voru engin skil. Presturinn hefur í hjartnær þúsund ár verið handgenginn almenningi í stóru og smáu, velgengni alþýðunnar prestinum til árs, en mótlæti beggja af einni rót ævinlega... Samtímis var presturinn ekki aðeins predikari og umsýslumaður sakramentanna, heldur einnig fulltrúi kristinnar menningar meðal sóknarbarna sinna."

Ritnefnd Guðfræðingatalsins og stjórn Prestafélags Íslands þakka fyrir framlag Sr. Heimis til ritsins og gott samstarf við gerð þess. Ennfremur þökkum við prestar fyrir samvistir við góðan félaga og vottum fjölskyldu hans samúð og virðingu. Guð blessi minningu góðs félaga.

Helga Soffía Konráðsdóttir.

Arnþrúður Heimisdóttir.