Fjölmenni var við setningu hátíðarinnar sem stendur til sunnudags.
Fjölmenni var við setningu hátíðarinnar sem stendur til sunnudags.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
MENNINGAR- og fræðahátíð Háskóla Íslands, Líf í borg, var sett í gærkvöld við hátíðlega athöfn í nýendurgerðum Hátíðarsal Aðalbyggingar Háskólans.

MENNINGAR- og fræðahátíð Háskóla Íslands, Líf í borg, var sett í gærkvöld við hátíðlega athöfn í nýendurgerðum Hátíðarsal Aðalbyggingar Háskólans. Fjöldi gesta var viðstaddur og hlýddi á flutning strengjasveitar Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna undir stjórn Ingvars Jónassonar, ávörp og ljóðadagskrá, þar sem Ástráður Eysteinsson prófessor í almennri bókmenntafræði ræddi við Matthías Johannessen skáld um Reykjavíkurljóð hans.

Tilkynnt var að sönglag Arnþrúðar Lilju Þorbjörnsdóttur við kvæði Jónasar Hallgrímssonar, "Vísindin efla alla dáð", hefði unnið samkeppni um nýtt háskólalag. Að sögn Guðrúnar Guðsteinsdóttur, formanns dómnefndar, var mikil þátttaka í samkeppninni en 35 tillögur bárust. Sagði Guðrún að valið hefði því verið erfitt en lag Arnþrúðar Lilju hefði verið það sem nefndin hefði verið að leita að. Í dómnefndarorðum segir um lagið: "Lagið fellur vel að textanum, er stílhreint og fremur auðlært. Það er ekki of erfitt í flutningi en þó hátíðlegt og býður jafnframt upp á mismunandi útfærslur. En ofar öllu er lagið sérstakt í áheyrn; það hefst með samstiga fimmundum sem minna á íslenska tónlistararfleifð og gefa því þjóðlegt yfirbragð, óm aldanna, en rennur svo áfram á ljóðrænan og rómantískan hátt í anda kvæðisins."

Í samtali við Morgunblaðið sagði Arnþrúður Lilja, sem stundar meistaranám í tónlistartækni við Háskólann í Álaborg, að hún hefði lagt höfuðáherslu á að endurspegla anda kvæðisins í laginu. "Ennfremur lagði ég áherslu á, að það væri auðlært og auðsyngjanlegt. Einnig vildi ég kalla fram ákveðinn hátíðleika til þess að það hæfði tileinkuninni."

Háskólakórinn flutti hið nýja háskólalag við góðar undirtektir.

Hátíðin Líf í borg er framlag Háskólans til Reykjavíkur - menningarborgar Evrópu árið 2000 og mun standa fram á sunnudag. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá en almenningi býðst meðal annars að sitja um eitthundrað fyrirlestra um líf í borg, fara í vettvangsferðir um borgina og hlýða á tónleika.

Páll Skúlason setti hátíðina og sagði í ávarpi sínu, að Háskólinn hefði fyrst og fremst sína eigin menningu fram að færa á menningarborgarári og hátíðin Líf í borg væri viðleitni til þess, "menningu vísinda og fræða, menningu rökræðna og rannsókna, menningu endalausrar þekkingarleitar, skilnings og menntunar, sem stuðlar að sívaxandi grósku hvarvetna í þjóðlífinu".

Rektor sagði að háskólamenningin þróaðist ekki einungis innan veggja háskólastofnana, heldur yxi hún og dafnaði af atorku allra þeirra sem hafa brennandi áhuga á menntun og vísindum og vildu nýta þau í lífi og starfi. "Aukin aðsókn almennings að háskólum og þátttaka í þeim "opna háskóla", sem nú er að störfum, sýnir svo ekki verður um villst, að áhugi fólks á að taka þátt í háskólamenningu fer sívaxandi. Og það er sjálfsögð skylda Háskóla Íslands, að bregðast við þrá og þörf fólks eftir menntun og fræðum með öllum þeim krafti sem hann framast megnar," sagði rektor.

Sprottinn úr málsmenningarhefð borgarinnar

Ástráður og Matthías komu víða við í spjalli sínu um borgarljóð Matthíasar. Matthías las upp ljóð sín, sem Ástráður hafði valið, en svaraði einnig spurningum um eðli borgarskáldskapar og skáldskaparins yfirleitt. Matthías sagðist sprottinn úr málsmenningarhefð borgarinnar en ekki sveitanna. "Sem ungur maður gerði ég mér grein fyrir því, að ég þyrfti ekki að yrkja eins og sveitamenn hefðu ort, ég þyrfti ekki að yrkja eins og þjóðskáldin eða góðskáldin hefðu ort, ég gat ort eins og skáld úr Reykjavík með reykvískt talmál úr kreppunni sem málsmenningarviðmiðun, og gerði það. Og núna hefur tíminn leitt það í ljós, að svona talmál getur orðið að einhvers konar klassískri hefð þegar tíminn líður vegna þess að það er allt annar blær á reykvísku talmáli í dag en var á þessum tíma. En á þessum tíma þótti ekki flott að yrkja á þessu máli."

Miklu betri borg

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri flutti að lokum ávarp og sagði að það hefði runnið upp fyrir sér undir samræðu Matthíasar og Ástráðs hverju menningarborgarárið myndi skila. "Það skilar okkur nefnilega augnablikum eins og þessum, þar sem ekki aðeins hugur þeirra, sem mæla ljóð af vörum fram eða tala skáldlega, er virkjaður heldur og allra sem á hlýða." Sagðist borgarstjóri sannfærður um að borgin yrði aldrei söm eftir menningarborgarárið, hún yrði miklu betri en áður.

Ingibjörg sagði að Háskólinn væri borginni mikilvægur, enda þrifist hvorki borgin né Háskólinn án hins. Hún sagði því mikilvægt að rækta samstarf milli Háskólans og borgarinnar eins og gert hefði verið svikalaust á þessu ári.