Sr. Heimir Steinsson fæddist á Seyðisfirði hinn 1. júlí 1937. Hann lést á Landspítalanum í Fossvog 15. maí síðastliðinn og fór útför hans fram frá Dómkirkjunni 24. maí.

Skelfdur til dauða feta ég einstigi efans. Hengiflug trúar eru mér á aðra hönd afneitunar á hina. Álengdar heyri ég tvísöng hinna hólpnu: "Hér er guð." "Hér er enginn guð." Sælir eru þeir.... Sjálfur bregð ég höndum til skiptis út yfir afgrunnana tvo og held áfram för minni um einstigi mannsins skelfdur til dauða. (Heimir Steinsson.)

Heimir Steinsson var einn þeirra manna sem mér hefur þótt skemmtilegast að tala við. Ég kynntist honum fyrst haustið 1974 þegar ég settist í landspróf við Skálholtsskóla. Þá var Heimir skólastjóri þar og kennari. Okkur krökkunum þótti hann strangur og kröfuharður. Hann var samt vinur okkar og við bárum virðingu fyrir honum bæði vegna þess hvað hann var góður kennari og vegna þess að hann tók okkur alvarlega. Honum þótti ómaksins vert að gefa hugmyndum okkar gaum þótt flestu öðru fullorðnu fólki þættu þær sjálfsagt ósköp ómerkilegar.

Nokkrum árum seinna kynntist ég Heimi betur þegar ég hafði sumarvinnu við að dytta að húsum í Skálholti. Hann var enn svolítið strangur og dálítið kröfuharður, en samt alltaf til í að ræða málin. Stundum sátum við langtímum saman og rökræddum stjórnmál, trúmál, heimspeki og bókmenntir.

Þessar rökræður voru ekkert snakk - Heimir ætlaðist til að viðfangsefnin væru krufin til mergjar. Samræður við hann voru ævintýri, því hann sýndi öllum skoðunum þá virðingu að hann vildi skilja þær og takast á við þær af rökvísi og stillingu, hvort sem hann var þeim sammála eða ekki. Síðan hef ég heimsótt Heimi af og til. Þótt hann hafi sjálfsagt oft átt annríkt mátti hann alltaf vera að því að spjalla og alltaf voru samræður við hann lærdómsríkar og skemmtilegar, því hann var menntamaður í bestu merkingu þess orðs.

Dóru, Þórhalli, Arnþrúði og systkinum Heimis sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Atli Harðarson.

Kveðja frá samverkamanni

Skjótt hefur sól brugðið sumri, sagði listaskáldið góða forðum, er andlát vinar hans og samherja bar að. Fjarlægt fannst mér að hugsa til þess, að séra Heimir yrði á undan mér, eldri manni, yfir landamæri lífs og dauða. En vegir guðs eru órannsakanlegir. Og eitt er víst, að ævilengdin ein sker ekki úr um, hver verði ávöxtur ævistarfsins, þegar upp er staðið.

Heimir Steinsson átti að baki aldarþriðjungs ævistarf. Hann bjó sig undir það hér heima og erlendis, og var gagnmenntaður orðinn, er hann tók við forstöðu Lýðháskólans í Skálholti á haustdögum 1972. Þar var síðan starfsvettvangurinn næsta áratuginn, eða þar til hann tók við starfi þjóðgarðsvarðar og sóknarprests á Þingvöllum, sem hann gegndi í tveimur áföngum. Einsdæmi mun, að sami maður hafi gegnt embættum á tveimur mestu helgistöðum þjóðarinnar. Ungur lauk Heimir glæsilegu prófi í guðfræði, svo að eftir var tekið.

Haustið 1972 urðum við Heimir samverkamenn við Lýðháskólann, sem það heiti hafði í upphafi vega sinna, þótt breytt yrði síðar. Við unnum mikið starf, við frumstæðar aðstæður, og samvinna okkar var snurðulaus.

En sé Heimis getið, verður Dóru konu hans ekki gleymt. Ráðskona mötuneytis skólans þennan fyrsta starfsvetur í Skálholti var Svava Bernharðsdóttir, og henni verður ekki gleymt. Ekki heldur þeim öðrum, sem að skólastarfinu komu. Og einn bjartasti tími lífs míns var Skálholtsdvölin, hinn fyrsta vetur skólastarfs þar í nýjum stíl. Því miður lagðist skólastarf með ungmennum niður þarna nokkrum árum eftir að Heimir sagði starfi sínu lausu. Fannst mér leitt til þess að vita, og lét ég það í ljós í ljóði, sem ég flutti á 20 ára afmæli skólans, haustið 1992.

Heimir Steinsson var fæddur og uppalinn á Seyðisfirði, sonur skólastjórahjónanna þar, og var eflaust ætlað frá ungum aldri að ganga menntaveginn. Honum var það bæði ljúft og auðvelt.

Hinn 4. desember sl. sá ég Heimi í síðasta sinn. Var það í Kennarahúsinu við Laufásveg. Þar flutti hann frásögn af því, er skipinu El Grillo var sökkt í Seyðisfirði, 16. febrúar 1944. Þá var hann aðeins sex ára drengur, en mundi þó vel þennan atburð. Og atvik þetta hefur dregið langan slóða á eftir sér, eins og kunnugt er. Frásögn Heimis var mjög greinagóð, eins og vænta mátti. Hann var íslenskumaður góður, og allt sem frá honum fór, var á vönduðu máli. Mér hefur helst orðið rætt um störf Heimis að skólamálum, en ég held, að þau muni lengst varðveita minningu hans. Ritstörfum hans, preststörfum og árunum í stól útvarpsstjóra gera væntanlega aðrir skil.

Heimir er horfinn af sviði lífsins. Hann brá stórum svip yfir samtíð sína, og sagan mun lengi geyma nafn hans.

Ég minnist liðinna kynna og kveð séra Heimi Steinsson, sem valdi mig sem samverkamann sinn á haustdögum 1972. Blessuð sé minning hans.

Dóru sendi ég innilega samúðarkveðju svo og börnunum og öðrum nánum ættmennum.

Auðunn Bragi Sveinsson.

Kæri Heimir. Þakka þér fyrir veturinn 1974-1975 í Lýðháskólanum í Skálholti. Að fá að kynnast þér, njóta leiðsagnar þinnar, uppfræðslu og vináttu.

Þakka þér fyrir allar stundirnar sem ég átti í Skálholti næstu vetur á eftir og fyrir að fá að vera með í því að stofna Nemendasamband Skálholtsskóla.

Þakka þér fyrir öll skiptin sem þú tókst á móti mér á Þingvöllum þegar ég var á ferð með norræna og evrópska starfsbræður mína. Fyrir að uppfræða þá um söguna, náttúru og jarðfræði á Þingvöllum og veita þeim innsýn í það hvað Þingvellir skipta Íslendinga mikið. Ég veit að margir þeirra minnast þeirra stunda enn þann dag í dag.

Þakka þér fyrir að taka þátt í endurfundum árgangsins míns hvort sem við komum í Skálholt, komum til Þingvalla eða hittumst hér í Reykjavík. Það var svo gaman að sjá hvað það gladdi þig að fá þannig tækifæri til að hitta þína gömlu nemendur og sjá hvað hafði orðið úr þeim. Ekki má gleyma að alltaf var Dóra með og naut þess eins og þú að hitta okkur gömlu Skálhyltingana.

Heimir, þú varst besti kennari sem ég hef haft á minni ævi, þakka þér fyrir það. Orðin þín um mig þegar ég yfirgaf Skálholt vorið 1975 "eflist við hverja raun" höfðu mikla þýðingu fyrir mig og urðu mér mikil hvatning til að standa mig í lífinu.

Við leiðarlok, Heimir, veit ég að Guð er með þér og ég veit að hann mun veita Dóru, Þórhalli og Arnþrúði, ásamt fjölskyldum þeirra, styrk á sorgarstundu.

Elsku Dóra, Þórhallur og Arnþrúður, ég votta ykkur mína dýpstu samúð.

Óskar Bjartmarz.

Heimir Steinsson er fallinn frá um aldur fram. Þegar stórir menn fara er erfitt fyrir þá litlu að segja eitthvað og enn erfiðara að þegja.

Ég var barn þegar þau Heimir, Dóra, Þórhallur og Arnþrúður fluttu í Skálholt árið 1972. Það tókust fljótt kynni með okkur jafnöldrunum, mér og Þórhalli og ég man að heimilið í gamla biskupshúsinu í Skálholti var mér strax opið. Ég var þar velkominn leikfélagi og staðurinn var bæði framandi og spennandi. Fjölskyldan var nýflutt heim frá Danmörku þar sem Heimir hafði kynnt sér lýðháskóla. Þórhallur átti fyrir vikið meira af framandlegu dóti en títt var um okkur sveitadrengina. Tindáta svo hundruðum skipti og Tinnabækur á dönsku. Mestur leyndardómur var þó heimilisfaðirinn sem var í senn fornlegur spekingur og hlýr karl sem í þá tíð minnti mig á einhverskonar afa. Hann var líka af þeirri gerð að jafnvel óþekkustu tappar eins og við Laugarásstrákarnir bárum fyrir honum óttablandna virðingu.

Seinna átti ég eftir að kynnast Heimi sem kennara þegar við fórum í 9. bekk í Skálholti. Það var gæfa fyrir Tungnamenn að fljótlega eftir komuna í Skálholt tók Heimir að sér efsta bekk gagnfræðaskóla sem síðar hét 9. bekkur grunnskóla. Það er efalaust í mínum huga að hann kom fleirum á braut mennta en annars hefði orðið.

Ég tilheyrði alla skólagönguna strákahóp sem var til vandræða hjá nær öllum kennurum. En þegar Heimir var annarsvegar datt okkur óþekkt ekki í hug.

Hann var þvílíkur ofjarl okkar að við létum það aldrei eftir honum að reyna. Hann kenndi okkur dönsku sem tæplega var til vinsælda fallið. En þrátt fyrir það man ég aldrei eftir að neinum í bekknum hafi mislíkað við Heimi. Við vorum lúsiðin í dönskunni og strituðum í tímunum en okkur líkaði vel við þennan herforingja sem hélt uppi aga. Ég hef oft síðan haldið því fram að meiri og betri skólamanni hafi ég ekki kynnst og það hefði verið gott hefði hann kennt okkur annað og fleira en dönskuna.

Um leið og ég þakka góða daga í Skálholti sendi ég Dóru og öllu hennar fólki mínar samúðarkveðjur.

Bjarni Harðarson frá Laugarási.

Hér munu íslensk lög ráða, sagði Heimir með áherslu. Fyrir mörgum árum voru nokkrir landar í Danmörk að erinda fyrir Skálholtsskóla. Heimir og Dóra höfðu útvegað bíl til Árósaskoðunar. Eftir tilhlýðilega heimsókn á háskólabókasafnið settist Heimir undir stýri og ók út af bílastæðinu. Áttu ekki að beygja í hina áttina? spurðum við í kór. Hin íslenska lögverndaða leið varð afar stutt. Á móti okkur brunaði her af ógnvænlegum flutningabílum og nálgaðist óðum. Góð ráð voru engin önnur en að geysast upp á umferðareyju. Ökumaðurinn var fyrstur til að greina þverstæðuna og hló hjartanlega. Þannig var Heimir. Hann fór sína leið, oft gegn straumi, en vissi hvenær bar að víkja. Hann sá alltaf skopbrotin, jafnvel í hinum krepptustu aðstæðum. Stundirnar með honum voru alltaf skemmtilegar, eftirminnilegar og jafnvel kostulegar.

Við leiðarlok þyrlast minningar upp. Fyrsta samræðustundin sækir í huga.

Heimir sat í rektorssætinu "sínu" í matsal Skálholtsskóla. Pípan var í munnviki og glampi í augum. Viðmælendur sátu við borðið. Allt var eins og hann kaus sér helst. Einhver í hópnum hélt fram að gerlegt væri að vera fordómalaus og algerlega opinn. Glampinn varð að glettni og hann sagði einnig með áherslu: "Praejudicium" og bætti við spurningunni: Er fordómleysi mögulegt? Honum var svarað að það væri versti fordómurinn að halda að maður væri fordómlaus. Hláturinn byrjaði í maganum, gusaðist síðan upp og höndin sló á lærið. Honum þótti snörp umræða skemmtileg. Það var gaman að rökræða og jafnvel skylmast svolítið við hann um guðfræði, pólítík, kirkju eða eitthvert mannlífsefni. Hugmyndir flugu og latínan hans gerði okkur fákunnandi óörugg. Heimir var ósínkur á þekkingarmola og yddaðar setningar.

Hljómfall raddar hans var ákveðið og með svo sérstæðu móti að vinir hans hermdu eftir ef vitnað var beint í hann eða haft eftir honum. Orðalagið var janfnan fyrnskuskotið og stundum barrokað. Hann var mikill íslenskumaður og lék sér á engi tungunnar.

Heimir setti svip á skólasögu áttunda áratugarins, ekki aðeins með stofnun og stjórn Skálholtsskóla. Hann skrifaði blaðagreinar og flutti eftirminnilega fyrirlestra í útvarpi um lýðháskóla og arf Grundtvigs. Heimir fór eigin leið í kynningum á helgistað þjóðarinnar þegar hann tók við störfum á Þingvöllum. Um margt var hann Skálhyltingur og Þingvellingur þegar hann varð útvarpsstjóri. Hann sá í RÚV klukku Íslands. En sú klukka varð orðið flókið tæknispilverk með óljósan hljóm og hentaði honum ekki. Í kirkjulífi var Heimir fyrirferðarmikill. Greinar hans um spíritisma 1975 vöktu athygli margra. Upphafið var grein í Kirkjuritinu "Tilvera til dauða - trúin hrein." Þessi stutta en ágenga grein var blanda tilvistarspeki og andófs gegn spíritisma. Þetta var á þeim tíma nýr kokteill og olli uppnámi.

Höfundurinn uppskar drífu af greinum bæði í Kirkjuriti og Morgunblaðinu. Þá kom í ljós hversu snöggur Heimir var að semja og hversu snjall stílisti hann var. Morgunblaðið birti hverja breiðsíðuna á fætur annarri, nánast daglega.

Þær skemmtu þeim sem unnu trúfræðilegum burtreiðum. Síðar studdu allmargir prestar Heimi í kjöri til biskups.

Heimir var afar flókinn maður og margræður. Flestir kynntust honum í einhverju hlutverki og þekktu ekki manninn að baki grímu. Heimir gegndi mörgum störfum: Hann var rektor, þjóðgarðsvörður, rithöfundur, útvarpsstjóri og prestur. Hann tók þessi hlutverk sín alvarlega og gekkst upp í þeim, hafði stundum á orði: "The show must go on." Hann var í þjónustu málefnis eða stofnunar og þá gerði hann eins vel og hann gat. Störf Heimis voru gjarnan í margmenni, en líklega leið honum best í fámenni og samræðu. Hann var maður hinna mörgu orða og lýsinga, en leitaði kyrru og dýptar. Hann lenti í miðri röst nútíma og miðlunar en leitaði sögu. Hann sviptist til í flengingi óstýriláts tíma en leitaði hins stöðuga. Í störfum varð hann að opna sálargáttir móti poppmenningu og tæknivæðingu en mat mest forn gildi.

Hann vildi fá að stjórna en leitaði sjálfur skýrrar leiðsagnar. Hann var mikill Danavinur en ræddi helst ekki um danska sögu á Þingvöllum. Hann var fræðimaður og skáld að áhuga en lengstum embættismaður að starfi. Hann var námshestur og unni háskólalífi en dró umsókn um kennarastöðu í akademíunni til baka. Hann var mikill tilfinningamaður og tók nærri sér lifun sína en bar ekki á torg. Hann mat mikils náttúru og menn en þó mest Guð. Heimir var "bæði-og" maður með tilbrigðum. Hann gerði sér vel grein fyrir sálarþráðum sínum og óf með árunum æ betur úr þeim, sér og öðrum til gagns og gleði.

Þegar Heimir féll frá sýnist mér sem hann hafi þrætt flest það sem laust hafði legið í lífinu fyrr.

Hann hafði snúið til baka, tekið til við fyrri störf. Hann hafði hafið nýtt líf á svo margvíslegan máta. Og það var hin íslenska leið. Enn kom Heimir á óvart. Við sem eftir sitjum erum enn að jafna okkur eftir óvænt dauðsfall.

Við biðjum góðan Guð að geyma hann og líkna Dóru, börnum þeirra og ástvinum.

Ég þakka allar gjafir Heimis fyrr og síðar í minn garð og minna. Dýpst er þakklætið fyrir grímulausar samræður. Við skiljum ekki þessa sóun, að hann skuli deyja svo ungur og með svo margt óunnið. En Heimir hafði lifað mikið, stundum hratt en oftast vel. Hann þekkti þessa leið sem hann fór nú. Það var hvorki íslensk eða dönsk leið eða einhver malbikuð gata. Það var leiðin heim.

Sigurður Árni Þórðarson.

Sr. Heimir Steinsson var móðurbróðir minn en ég varð einnig þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast honum sem guðfræðingi og kirkjunnar manni. "Frændkona" ávarpaði þessi merkismaður mig jafnan þegar ég kom sem unglingur á námskeið í Skálholti og ég lagði mig alla fram í samræðum við hann til þess að verða ekki léttvæg fundin á sviði visku og fræða. Ekki gat ég valdið vonbrigðum þeim sem ávarpaði mig svo formlega en þó svo hlýlega, þeim sem sjálfur var svo fróður og gáfaður. Ég naut stundanna í Skálholti og hlaut þar veganesti á vegi trúariðkunar sem lengi hefur dugað mér.

Heimir var stórbrotinn maður, trúr sinni sannfæringu, baráttumaður. Við áttum stundum samleið í þeirri baráttu í gegnum árin. Þar snart mig einlægni hans og heiðarleiki - hann var ekki tækifærissinni, barátta hans var ekki alltaf auðveld en hún var alltaf sönn. Hann var einlægur trúmaður en sú trú hafði líkað kostað baráttu og skáldið Heimir Steinsson birtir okkur þá baráttu í ljóðabókinni Haustregn:

Skelfdur til dauða

feta ég einstigi

efans.

Hengiflug trúar

eru mér á aðra hönd

afneitunar á hina.

Álengdar

heyri ég tvísöng

hinna hólpnu:

"Hér er guð."

"Hér er enginn guð."

Sælir eru þeir....

Sjálfur

bregð ég höndum til skiptis

út yfir afgrunnana tvo

og held áfram för minni

um einstigi

mannsins

skelfdur til dauða.

(Heimir Steinsson.)

Minningar eru margar, frá söngstund við orgelið hjá afa Steini þar sem systkinin sungu í röddum lögin hans afa; frá bænastund í Þingvallakirkju með Heimi fyrir brúðkaup okkar hjóna; frá gleðistundum og sorgarstundum. En enn og aftur kemur upp í hugann maðurinn sem leiðbeindi mér í Skálholti og ræddi guðfræði við unglinginn á skrifstofu sinni á Þingvöllum. Alþýðufræðarinn sem skýrt gat leyndardóma messunnar fyrir 14 ára unglingi og að sama skapi aðstoðað frændkonu og skýrt fyrir mér og lesendum Víðförla sameiginlega yfirlýsingu lútherskra og kaþólskra um réttlætingarkenninguna á liðnu hausti. Sú yfirlýsing markaði vissulega tímamót í samskiptum þessara kirkjudeilda og Heimir fjallaði um þetta málefni á skýran hátt í ljósi sögu og samtíðar og sagði svo: "Vér nútímamenn höfum séð járntjaldið hrynja og sameiningarferli Evrópuríkja dafna. Yfirlýsingu kirknanna tveggja má m.a. skoða með hliðsjón af þeirri þróun... Nú er sannarlega gaman að lifa og vera kristinn maður! Þótt margir skuggar grúfi yfir mannkyninu höfum vér ástæðu til að samfagna börnum vorum og barnabörnum með batnandi heim - þrátt fyrir allt!" Eitt af því sem við ræddum jafnan er við hittumst síðasta vetur sneri einmitt að samkirkjulegu starfi. Þar vorum við enn á ný samstiga í baráttunni og gaman að lifa.

Það er undarlegt að hugsa til þess að fagna Kristnihátíð á Þingvöllum í sumar án Heimis frænda. En sorgin sem fylgir því að kveðja hann er sefuð með hans eigin orðum, hans eigin trúarstyrk:

Ég vil dvelja í björtu húsi Drottins.

Einn vil ég búa í skínandi salkynnum

Drottins.Í hvítum súlum vil ég hefjast í himininn

í óhreyfðum fingrum marmarans vil ég

benda í upphæðirog lofa Drottin óumbreytanlega.

(Heimir Steinsson.)

Ég þakka samfylgdina við frændann og fræðarann Heimi Steinsson og bið Drottin að styrkja alla þá sem syrgja hann.

Steinunn Arnþrúður

Björnsdóttir.

Það er alkunna að áhrif sumra manna fara víðar og eru meiri en annarra.

Svo er um Heimi Steinsson. Um það geta margir borið vitni. Af ótal minningum leitar ein upp í hugann nú.

Ég var á ferð með kennara frá Hollandi, Spáni, Grikklandi og Ítalíu. Leiðin lá um Gullfoss og Geysi. Þar áttu stórborgarbúarnir erfitt um vik að fóta sig á mölinni, vanir sléttum strætum, auk þess sem íslenska vorhretið var þeim framandi.

Næst lá leið til Þingvalla þar sem Heimir hafði lofað að taka á móti okkur og segja frá landi og þjóð. Það var kalt í litlu kirkjunni á Þingvöllum. Regn barði rúður og rok hristi húsið. En það gleymdist þegar Heimir hóf upp þægilega raust sína, dálítið hátíðlegur eins og hæfði stund og stað, margfróður, öruggur, sló á létta strengi á viðeigandi stöðum og sagði frá af virðingu fyrir viðfangsefninu og áheyrendunum. Hann dró upp skýrar myndir af lífi þjóðarinnar, sögu landsins og einkum Þingvalla. Þær vöktu svo mikinn áhuga hinna erlendu kennara að þeir urðu eins og fyrirmyndarnemendur í bekk, hlustuðu hugfangnir og létu síðan spurningum rigna yfir kennarann.

Okkur var öllum hlýtt þegar við kvöddum Heimi í roki og regni á hlaðinu fyrir framan Þingvallabæinn.

Nokkrum mánuðum seinna hitti ég þessa sömu kennara á Spáni. Þeir höfðu margs að minnast úr Íslandsheimsókninni og ekki síst stundarinnar í kirkjunni í slagviðrinu á Þingvöllum.

Og innihald ræðu Heimis var orðið kennsluefni í litlum barnaskóla í þorpinu Estepona á Spáni. Ekki aðeins um sögu Íslands heldur ekki síður gamansöm lýsing hans á landrekskenningunni. Einmitt á Þingvöllum fær sú kenning sérstaka merkingu. Heimir lýsti því hvernig hluti landsins siglir vestur á bóginn, annar partur í austur.

"En," bætti hann svo við, "landið sem við nú stöndum á verður hér kyrrt. Og þar ætla ég að vera."

Nú eru það orð að sönnu. Það er sama hvað fer í austur og hvað fer vestur. Heimir verður kyrr.

Kveðjan er stutt. Vertu sæll, frændi. Einmitt, frændi. Það orð hefur svo sérstaka merkingu. Ég man þegar Heimir sagði eitt sinn að hann væri svo lánsamur maður, því hann væri ekki einungis sonur föður síns heldur frændi hans líka.

Ég sendi Dóru og öðrum aðstandendum mínar bestu óskir og fjölskyldu minnar.

Eiríkur Brynjólfsson.

Atli Harðarson.