1. júní 2000 | Fastir þættir | 421 orð | 1 mynd

SKÁK - Reykjavík

Stefán Kristjánsson meistari Skákskólans

Meistaramót Skákskóla Íslands

Stefán Kristjánsson og Guðmundur Kjartansson. Sigur Stefáns í skákinni tryggði honum meistaratitil Skákskólans.
Stefán Kristjánsson og Guðmundur Kjartansson. Sigur Stefáns í skákinni tryggði honum meistaratitil Skákskólans.
26.-28. maí 2000
STEFÁN Kristjánsson, sautján ára Reykvíkingur, sigraði á níunda Meistaramóti Skákskóla Íslands, sem fram fór 26.-28. maí. Fyrir skákáhugamenn er þetta eitt af skemmtilegustu skákmótum sem haldin eru og gaman er að fylgjast með okkar yngstu og efnilegustu skákmönnum berjast um meistaratitilinn.

Stefán er vel að sigrinum kominn, en hann hefur verið í hópi okkar efnilegustu skákmanna undanfarin ár. Sigur hans var nokkuð öruggur, en hann hlaut 6½ vinning í 7 skákum. Eina jafnteflið var gegn Davíð Kjartanssyni í fimmtu umferð, en þeir sömdu um jafntefli eftir einungis fjóra leiki.

Annar af okkar ötulustu og efnilegustu skákmönnum, Guðjón Heiðar Valgarðsson, veitti Stefáni harða keppni og lenti í öðru sæti með 6 vinninga. Guðjón er einungis fimmtán ára og hefur nánast frá upphafi skákferils síns vakið athygli fyrir góða frammistöðu miðað við aldur og bætir stöðugt við styrkleikann.

Röð efstu manna á mótinu varð annars þessi:

1. Stefán Kristjánsson 61/2 v. 2. Guðjón Heiðar Valgarðsson 6 v. 3. Sigurður Páll Steindórsson 5 v. 4.-6. Dagur Arngrímsson, Hjörtur Þór Daðason og Guðni Stefán Pétursson 4½ v. 7.-11. Guðmundur Kjartansson, Davíð Kjartansson, Páll Óskar Kristjánsson, Aldís Rún Lárusdóttir og Ólafur Evert Úlfsson 4 v. 12.-16. Harpa Ingólfsdóttir, Birkir Örn Hreinsson, Víðir Petersen, Víkingur Fjalar Eiríksson, Atli Freyr Kristjánsson 3½ v.

o.s.frv.

Verðlaun fyrir bestan árangur stúlkna hlutu Aldís Rún Lárusdóttir og Harpa Ingólfsdóttir. Fyrir bestan árangur 10 ára og yngri fengu Ólafur Evert Úlfsson og Atli Freyr Kristjánsson fyrstu og önnur verðlaun.

Skákstjórar á mótinu voru stórmeistararnir Helgi Ólafsson og Þröstur Þórhallsson.

Kasparov sigrar í Sarajevo

Gary Kasparov staðfesti enn á ný að hann er sterkasti skákmaður heims þegar hann sigraði á Bosna-skákmótinu í Sarajevo. Að þessu sinni virtist Alexei Shirov þó ætla að stela sigrinum, en tap hans í næstsíðustu umferð kom í veg fyrir það. Lokastaðan á mótinu varð þessi:

1. Gary Kasparov 8½ v. 2.-3. Michael Adams, Alexei Shirov 8 v. 4.-6. Alexander Morozevich, Veselin Topalov, Evgeny Bareev 6 v. 7. Ivan Sokolov 4½ v. 8.-11. Sergei Movsesian, Nigel D. Short, Kiril Georgiev, Mikhail Gurevich 4 v. 12. Etienne Bacrot 3 v.

Útiskákmót í Mjódd

Taflfélagið Hellir heldur Mjóddarmót Hellis laugardaginn 3. júní nk. og hefst mótið kl. 14. Mótið verður haldið í göngugötunni í Mjódd. Keppnin verður með því sniði að keppendur tefla fyrir fyrirtæki. Tefldar verða 7 skákir með 7 mínútna umhugsunartíma. Þar sem fjöldi keppenda takmarkast við fjölda fyrirtækja sem taka þátt í mótinu er mikilvægt að skrá sig sem fyrst. Mótið er öllum opið. Þátttaka er ókeypis. Við skráningu tekur Gunnar Björnsson, hellir@simnet.is, símar 581 2552 og 861 9416.

Skákmót á næstunni

3.6. Hellir. Mjóddarmótið

5.6. Hellir. Atkvöld

9.6. SH. Skákþing Hafnarfj.

Daði Örn Jónsson

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.