Jón Aðalsteinn Jónsson
Jón Aðalsteinn Jónsson
Vek ég athygli hér í Morgunblaðinu á þeim misskilningi fasteignasala, segir Jón Aðalsteinn Jónsson, um staðsetningu Þingholtanna, sem virðist ríkja meðal þeirra.

FYRIR stuttu hafði skólasystir mín, sem lengi átti heima við Bergstaðastræti, suður undir Barónsstíg, samband við mig. Sagðist hún nýlega hafa séð frá þekktri fasteignasölu auglýsingu um hús til sölu í Þingholtunum. Hús þetta stendur við Bergstaðastræti, nærri því húsi, sem hún ólst upp í. Sagðist hún aldrei hafa heyrt, að það svæði væri talið til Þingholtanna. Mun hún hafa talað við starfsmenn á fasteignasölunni, en ábending hennar lítinn hljómgrunn fengið, að hennar sögn. Bað hún mig þess vegna að vekja athygli hér í Morgunblaðinu á þeim miskilningi fasteignasala um staðsetningu Þingholtanna, sem virðist ríkja meðal þeirra.

Ég hef sjálfur orðið var við svipaðar auglýsingar frá fasteignasölum á undanförnum árum og jafnvel á síðustu vikum. Man ég eftir auglýsingu um hús til sölu sunnarlega við Freyjugötu og nú nýlega um annað við Þórsgötu, og þau talin til Þingholtanna. Slíkt er fráleitt í augum gamalla Reykvíkinga. Þau hús heyra nánast til Skólavörðuholtsins, eins og Listasafn Einars Jónssonar og öll byggðin, sem þar reis í kring á þriðja og fjórða áratug þessarar aldar. Hér er um verulegan misskilning að ræða, annaðhvort kominn upp fyrir ókunnugleika sakir eða þess, að það þyki hafa hafa meira aðdráttarafl og auglýsingagildi að nefna Þingholtin í þessu sambandi.

Fyrir mér og fleirum eru Þingholtin á mikla þrengra svæði. Skal játað, að ég, sem Reykvíkingur og íbúi í Austurbænum um hálfa öld, heyrði aldrei talað um Þingholtin annars staðar en á svæði, sem náði u. þ. b. frá Hellusundi og norður að Bankastræti og svo ofan frá Laufásvegi og e.t.v. upp undir nyrzta hluta BergstaðaHstrætis. Jafnvel er mér mjög til efs, að það hafi talizt til Þingholtanna. Hér er þá fyrst og fremst átt við göturnar Miðstræti, Skólastræti, Þingholtsstræti, Ingólfsstræti (að Bankastræti), Grundarstíg og Spítalastíg og húsin við þær götur. Sjálfur er ég fæddur syðst við Óðinsgötuna, suður undir Baldursgötu, og ólst þar upp til 1930. Óðinsgatan, Baldursgatan og svæðið þar í kring og fyrir ofan, sunnan og norðan, ef svo má orða það, var aldrei talið til Þingholtanna. Engum hefði heldur dottið í hug að segja, að landið og túnin í kringum húsið Laufás, sem Þórhallur biskup Bjarnarson reisti 1896 og enn stendur, heyrði Þingholtunum til. Það svæði var sunnan við þau. En hvar eru þá Þingholtin? Við skulum líta á ýmsar heimildir um það. Þeim, sem hafa annars áhuga á legu umrædds svæðis, skal bent á bækur Páls Líndals: Reykjavík. Sögustaðir við Sund. Þar má fá mikinn fróðleik um hverfi þetta. Hér skal stiklað á nokkrum atriðum úr bókum hans, sem koma til viðbótar því, sem ég sagði hér framar.

Páll segir: "Þingholtin er nú nefnt svæðið ofan Skólastrætis, sunnan Bankastrætis og Skólavörðustígs að mótum Klapparstígs, en að öðru leyti eru mörk þess nokkurn veginn frá þeim gatnamótum að suðurenda Þingholtsstrætis og þaðan að Skólastræti. Hverfið er þó ekki formlega afmarkað enda mörk þess nokkuð á reiki í hugum manna." Svo mörg eru orð Páls. Kemur þetta nokkurn veginn heim við þá tilfinningu, sem ég ólst upp við á þriðja og fjórða tug aldarinnar.

Páll heldur svo áfram um uppruna Þingholts-nafnsins og segir m.a. þetta: "Þingholtin eru nefnd eftir tómthúsbýlinu Þingholti." "Árið 1765 var reist tómthúsbýli skammt frá þinghúsinu [þ.e. "á þeim slóðum þar sem nú eru Skólastræti 5 og 5b] og nefnt Þingholt sem var nýnefni. Sá bær mun aðeins hafa staðið sex ár og var á þeim slóðum sem nú er Þingholtsstræti 3. ...

Þyrping torfbæja reis í námunda við Þingholt og smám saman færðist nafnið Þingholt(in) yfir á þann hluta Arnarhólstúns (síðar Skólavörðuholts) sem var ofan túngarða Stöðlakots og Skálholtskots." Stöðlakot var ein af hjáleigum Víkur. Bæjarhúsin stóðu á svæðinu sunnan við Bókhlöðustíg, nokkurn veginn þar sem nú er Bókhlöðustígur 6a - c. Þar stendur enn hús, reist um 1870, sem ber nafnið Stöðlakot og nú er notað sem listsýningarhús. Skálholtskot var einnig ein af hjáleigum Víkur, en er alveg horfið. Stóðu bæjarhúsin norðanvert á mótum Laufásvegar og Skálholtsstígs, nokkurn veginn þar sem félagsheimili Fríkirkjunnar stendur nú. Af þessum ummælum er ljóst, hvar hin raunverulegu Þingholt hafa verið í landi Reykjavíkur. Páll heldur áfram og segir: "Tómthúsbýlum tók að fjölga í Þingholtunum á öðrum fjórðungi 19. aldar, en seinasti hluti hverfisins reis um 1920. Sá bæjarhluti hlaut mikla gagnrýni á sínum tíma fyrir skipulagsleysi. Er þá einkum átt við svæðið við Óðinsgötu og næsta nágrenni hennar." Ástæðulaust er að rekja hér meira úr bók Páls Líndals. En athuganir hans og ummæli skera skýrt úr um það, hversu fráleitt er að tala um Þingholtin í kringum Skólavörðuholt frá Eiríksgötu, Freyjugötu, Sjafnargötu, Fjölnisvegi, Bergastaðstræti og Laufásvegi allt suður að Barónsstíg. Ef fasteignasalar og aðrir þurfa að staðsetja húseignir á þessum slóðum, verða þeir að velja einhverja aðra viðmiðun en tala um Þingholtin í um allt þetta svæði. Sem gamall Reykvíkingur mælist ég til, að þeir og aðrir taki það, sem hér hefur verið sagt, til gaumgæfilegrar athugunar og eftirbreytni.

Höfundur er fyrrv. orðabókarstjóri.