Hvammstanga- Atvinnulífssýning verður haldin helgina 24.og 25. júní í og við Félagsheimilið Hvammstanga. Sýningin er liður í sumarhátíð Vestur Húnvetninga - Björtum nóttum - sem nú er haldin í sjöunda sinn.
Hvammstanga- Atvinnulífssýning verður haldin helgina 24.og 25. júní í og við Félagsheimilið Hvammstanga. Sýningin er liður í sumarhátíð Vestur Húnvetninga - Björtum nóttum - sem nú er haldin í sjöunda sinn. Á liðnu ári var sett á stofn samstarfsverkefni fjölmargra fyrirtækja, félaga og einstaklinga í héraðinu undir heitinu MARK-HÚN. Framkvæmdastjórinn, Björn Hannesson, var tekinn tali í tilefni sýningarinnar sem hlotið hefur heitið Atvinna 2000.

"Það eru um 55 aðilar sem munu kynna sína þjónustu á sýningunni Atvinna 2000. Sambærileg sýning var hér árið 1997 og þótti takast afar vel en hátt á þriðja þúsund manns komu á þá sýningu og var þá mál manna að mjög fjölbreytt atvinnulíf væri hér í héraðinu.

Nú á að gera annað átak í að kynna atvinnulíf héraðsins fyrir íbúum norðurlands vestra og gestum sem leið eiga um en við eigum von á að hér verði nokkuð mannmargt yfir sýningarhelgina. Sýningin að þessu sinni er töluvert meiri að umfangi en við héldum síðast og þar af leiðandi fjölbreyttari. Ný fyrirtæki hafa verið stofnuð hér á Hvammstanga á síðustu misserum og uppbygging atvinnuhúsnæðis verið stórfelld. Ísprjón ehf. flutti í vetur í 1300 m{+2} húsnæði sem byggt hefur verið yfir starfsemina og þessa dagana er verið að taka í notkun iðngarða, þar sem gert er ráð fyrir nokkrum fjölda fyrirtækja. Má því segja að hér sé mikill hugur í fólki.

MARK-HÚN hefur opnað kynningarvef í tengslum við Atvinnu 2000 en slóðin er http//www.markhun.is. Þar er að finna þau fyrirtæki sem taka þátt í sýningunni. Þar má einnig finna dagskrá sumarhátíðarinnar Bjartar nætur en sú dagskrá hefur verið kynnt með kynningarriti sem sent hefur verið víða og liggur einnig frammi á ferðamiðstöðvum víða um land. Margt verður til gamans gert og standa atburðir frameftir sumri segir Björn.

Þess má geta að fyrri sýningardaginn, laugardaginn 24. júní, verður hið vinsæla matarhlaðborð húsfreyjanna á Vatnsnesinu haldið. Það hefst kl. 19 og stendur til miðnættis. Að vanda verður margt girnilegt á borðum en einnig óvenjulegir réttir, enda margir frá fyrri tíð þegar húsmæður við sjávarsíðuna urðu að nýta allt matarkyns sem náttúran ( og bændurnir) lagði þeim í hendur.