23. júní 2000 | Tónlist | 541 orð

TÓNLIST - Geislaplötur

Gömul vísa um vorið

SÖNGLÖG GUNNSTEINS ÓLAFSSONAR

Gunnsteinn Ólafsson: kór- og einsöngslög: Gömul vísa um vorið, Söknuður, Tálsýn, Tíminn og vatnið (18.kvæði), Á ári barnsins 1979, Blástjarnan, Kóngurinn ræddi við riddarann Stíg, Veiðikló, Vertu, Í vor, Hver fögur dyggð í fari manns, Vikivakar.
Gunnsteinn Ólafsson: kór- og einsöngslög: Gömul vísa um vorið, Söknuður, Tálsýn, Tíminn og vatnið (18.kvæði), Á ári barnsins 1979, Blástjarnan, Kóngurinn ræddi við riddarann Stíg, Veiðikló, Vertu, Í vor, Hver fögur dyggð í fari manns, Vikivakar. Kórar: Kammerkór Kópavogs, Kór Menntaskólans að Laugarvatni, Kammerkór Biskupstungna. Einsöngur: Ágústa Sigrún Ágústsdóttir. Meðleikur á píanó: Kristinn Örn Kristinsson. Kórstjóri: Gunnsteinn Ólafsson. Útgáfa: Skref Classics: Skref 017. Heildarlengd: 44:26. Verð: kr. 1.999. Dreifing: 12 tónar.

EINHVERJIR minnisstæðustu tónleikar sem undirritaður hefur sótt voru haldnir í Salnum í Kópavogi í fyrravor. Þar flutti einvalalið einsöngvara og hljóðfæraleikara ásamt Kammerkór Kópavogs óperuna King Arthur eftir Henry Purcell. Stjórnandi flutningsins var Gunnsteinn Ólafsson og blandaðist engum tónleikagestum hugur um að þar væri réttur maður á réttum stað, ótvíræðir kostir hans sem stjórnanda skiluðu sér í framúrskarandi lifandi flutningi. Þetta voru fyrstu sjálfstæðu tónleikar Kammerkórs Kópavogs.

Nýlegur geisladiskur kynnir tónskáldið Gunnstein Ólafsson, hann er höfundur allra laganna á plötunni að undanskildum þremur þjóðlögum sem hér eru sungin í raddsetningu hans, en þau eru Blástjarnan (nr. 6) og Kóngurinn ræddi við riddarann Stíg (nr. 7). Í því síðarnefnda notast Gunnsteinn við tvö þjóðlög úr safni Sr. Bjarna Þorsteinssonar og eru þau glæsilega flutt af Kór Menntaskólans á Laugarvatni og einsöngvurum úr hópi kórmanna, þeim Magneu Gunnarsdóttur og Nínu Rúnu Kvaran. Þetta er söngur í hæsta gæðaflokki.

Gunnsteinn ritar örstuttan inngang í bæklingi sem fylgir, þar sem hann segir frá því að flest laganna hafi verið samin fyrir ýmis tækifæri eins og brúðkaup, afmæli eða þá bara næstu æfingu Kórs Menntaskólans í Kópavogi sem hann stjórnaði um árabil. Með þessu gerir hann ekki mikið úr tónsmíðastarfi sínu og sýnir aldeilis óþarft lítillæti, því lögin eru öll laglega samin og áheyrileg. Fróm ósk Gunnsteins um að þau muni vonandi "lífga upp á flóru íslenskra kór- og einsöngslagaá vafalaust eftir að rætast.

Titillag plötunnar, Gömul vísa um vorið (nr. 1), og fjórða lagið í Vikivakasyrpunni, Sit ég bláa vatnið við (nr. 12, 8:44 -12:18), eru farin að heyrast á efnisskrám ýmissa kóra og er það vel, því bæði lögin eru ákaflega grípandi og hafa alla tilburði til að verða klassíkerar í íslenskum kórbókmenntum. Fleiri ágæt lög eins og einsöngslögin Tálsýn og Vertu eru þess eðlis að eiga sér langa lífdaga. Ágústa Sigrún Ágústsdóttir syngur bæði lögin og Kristinn Örn Kristinsson leikur með. Ungleg rödd Ágústu Sigrúnar er ómþýð og hendingar vel mótaðar. Vandaður píanóleikur Kristins Arnar er hógvær en þó afgerandi.

Kammerkór Kópavogs á marga góða spretti en hæst finnst mér söngur kórsins rísa í Vikivaka-syrpunni (nr. 12) og í Veiðikló (nr. 8) sem eru sérstaklega fallega sungin og síðast en ekki síst í upphafslaginu, Gamalli vísu um vorið. Kammerkór Kópavogs hefur náð undraverðum árangri á þeim stutta tíma sem hann hefur starfað og enginn vafi er á því að von er á góðu ef svo heldur áfram sem horfir.

Kammerkór Biskupstungna er barna- og unglingakór og virðist skipaður þrautþjálfuðum söngvurum. Þau syngja eitt fallegasta lagið á diskinum, Hver fögur dyggð í fari manns (nr. 11), af ómótstæðilegu sakleysi og innileika. Þessi börn skilja hvað þau eru að syngja um.

Þessi nýja plata ber vott um vönduð vinnubrögð. Kórstjórinn, Gunnsteinn Ólafsson, hefur auðheyrilega gælt við smáatriðin, áhersla er lögð á skýrleika í mótun hendinga og heildaráhrifin bera vott um gleði allra hlutaðeigandi í tónlistinni.

Valdemar Pálsson

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.