23. júní 2000 | Höfuðborgarsvæðið | 1230 orð | 2 myndir

Eigendur Selskarðs segja land sitt ekki standa til boða fyrir Álftanesveg

Hafa skipulagt 400 íbúða byggð á jörðinni

Loftmynd yfir land Selskarðs. Horft er til suðurs. Punktalínan afmarkar land Selskarðs. Neðst fyrir miðri mynd eru Bessastaðir.
Loftmynd yfir land Selskarðs. Horft er til suðurs. Punktalínan afmarkar land Selskarðs. Neðst fyrir miðri mynd eru Bessastaðir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EIGENDUR jarðarinnar Selskarðs á Álftanesi hafa látið skipuleggja byggð með 400 íbúðum á jörðinni og segja að land þeirra standi ekki til boða undir Álftanesveg eins ogVegagerðin hyggst leggja hann.
EIGENDUR jarðarinnar Selskarðs á Álftanesi hafa látið skipuleggja byggð með 400 íbúðum á jörðinni og segja að land þeirra standi ekki til boða undir Álftanesveg eins ogVegagerðin hyggst leggja hann. Öll þau vegarstæði, sem Vegagerðin hefur í huga, stórskaði hagsmuni eigenda Selskarðs, sem á hinn bóginn bjóða fram land í fjöru Lambhúsatjarnar fyrir þjóðveginn. "Það er látið eins og við séum ekki til," segir Björn Erlendsson, talsmaður eigendanna, um undirbúning vegagerðarinnar og samskipti eigenda við bæjaryfirvöld í Garðabæ en eigendurnir hafi löngu gert þessum yfirvöldum ljósa andstöðu sína og framtíðaráform á landinu.

Björn segir að það frummat á umhverfisáhrifum vegna vegagerðarinnar, sem liggi fyrir, sé ekki hlutlaust enda gert á kostnað Vegagerðarinnar. Hvorki hafi farið fram hagrænt né félagslegt mat á áhrifum vegarlagningarinnar en landeigendurnir telji nauðsynlegt að slíkt verði gert.

Land Selskarðs nær frá jaðri Gálgahrauns, milli Lambhúsatjarnar og Skógtjarnar og nánast að heimreiðinni að Bessastöðum. Við undirbúning Vegagerðarinnar og Garðabæjar vegna lagningar Álftanesvegar hafa þrjú vegstæði verið nefnd, sem öll liggja í landi Selskarðs.

Jörðin Selskarð er 50 hektarar að miðað við meðalsjávarhæð stærð en 100 hektarar að meðtöldum fjörum, að sögn Björns. Fjórir aðilar eiga Selskarð og Björn segir að eigendunum séu vel ljósir hagsmunir almennings í sambandi við vegargerðina og vilji ekki standa í vegi fyrir því að bætt vegasamband komist á.

Þeir hafi því nefnt aðra kosti og boðið til vegagerðarinnar land sem ekki spilli möguleikum þeirra á að nýta eign sína eins og leiðirnar þrjár, sem nú eru uppi á borðinu.

Nokkuð hefur verið fjallað um áformaða lagningu Álftanesvegar og þá ráðagerð, sem byggist á aðalskipulagi Garðabæjar, að leggja veginn um Gálgahraun, samkvæmt svonefndri leið A. Framkvæmdir eru áformaðar 2002-2003 og kostnaður áætlaður 400 m.kr. Mælingar sl. ár sýndu 3.400-4.400 bíla umferð um veginn á dag en því er spáð að þegar lokið er við íbúðabyggð í Garðaholti og Bessastaðahreppi verði dagleg meðalumferð um nýjan Álftanesveg allt að 15.000 bílar á sólarhring.

Nokkrir aðilar hafa orðið til að mótmæla því vegna hættu á að hraunið og minjar í því spilltust. Skipulagsstjóri fellst ekki á hina svonefndu leið A án þess að fram fari frekara umhverfismat en fellst á leiðir B eða C með tilteknum skilyrðum. Allar þessar leiðir liggja um land Selskarðs.

2 milljarða verðmæti?

Í einu þeirra skjala, sem landeigendur hafa sent með athugasemdum sínum við skipulagsferlið, kemur fram að þeir telji verðmæti landsins vera allt að tveimur milljörðum króna vegna möguleika á íbúðabyggð þar. Áform landeigendanna um uppbyggingu íbúðarbyggðar eru sýnd á mynd með greininni, þar sem skipulögð hefur verið 400 íbúða byggð, að mestu með einbýlishúsum en nokkur fjölbýlishús eru ráðgerð. Þeir hafi látið gera löglegan skipulagsuppdrátt yfir landið, sem fylgt hafi athugasemdum þeirra við mat á umhverfisáhrifum vegarlagningarinnar. Þá segir Björn Erlendsson að fleiri verðmæti séu í húfi því tilraunaboranir bendi til þess að nýtanlegur jarðhiti sé í landinu, sem nota megi til að hita upp þá byggð sem reist verði í landi Selskarðs. Loks sé æðarvarp á jörðinni í hættu vegna jarðrasks við vegargerðina og umferðaraukningar að henni lokinni. Ennfremur fylgi Selskarði sandnámur í landi Garðaholti, þar sem Garðabær hefur skipulagt íbúðahverfi, sem rísa á á næstu árum. Björn segir Selskarðsmenn ætla sér að sækja þangað efni vegna áformaðrar uppbyggingar íbúðabyggðar á jörðinni.

Hann segir að sú leið að leggja veginn í fjörunni eins og landeigendur vilja hljóti að teljast fjárhagslega hagkvæm þegar tekið er tillit til taps landeigendanna af því að leiðir A, B eða C yrðu farnar og nýtingarmöguleikar landeigenda með því skertir á bótaskyldan hátt.

Björn segir að öll samskipti landeigendanna við Garðabæ hafi verið erfið enda vilji bæjaryfirvöld ekkert við þá tala og hafi látið gera aðalskipulag í landi Selskarðs án þess að óska eftir samþykki þeirra eða að þeir láti eign sína af hendi. Skipulag sem þannig sé staðið að hafi ekkert lagalegt gildi.

Þá hafi bæjaryfirvöld látið frá sér fara að Selskarð sé lítils virði vegna sjávarflóða og væntanlegra breytinga á sjávarhæð vegna gróðurhúsaáhrifa, sem útiloki að byggt verði á landinu.

Björn segir að sjógangs gæti varla nokkuð í Lambhúsatjörn og Skógtjörn og það sé nýjung að ætla að verðfella eignir vegna hugsanlegra gróðurhúsaáhrifa í framtíðinni og það verði varla á löglegan hátt gert með Selskarð eitt allra jarða í landinu.

Björn sagði að strax 1996, þegar vegurinn var settur á aðalskipulag Garðabæjar, hafi landeigendurnir sent mótmæli þar sem greint var frá andstöðu þeirra við fyrirhugaðar leiðir og nauðsyn þess að tekið yrði tillit til áforma þeirra um notkun landsins í framtíðinni.

Bjóða aðra kosti

Þeir skilji hins vegar nauðsyn bætts vegarsambands og Björn segir að þess vegna hafi þeir boðið aðra kosti. Aðallega sé þar um að ræða að vegur verði lagður á uppfyllingu í Lambhúsatjörn en einnig að vegurinn verði lagður í stokk neðanjarðar. Hann bendir á að hvergi í fyrirliggjandi skýrslum sé gert ráð fyrir kostnaði við hljóðmanir í landi Selskarðs til þess að vega gegn hávaðamengun eða undirgöngum til þess að tryggja samgang um landið beggja vegna vegarins verði leiðir A, B eða C fyrir valinu.

En má ekki vænta þess að Garðabær taki land eignarnámi undir vegarstæðið? Björn segist draga í efa að eignarnám sé heimilt vegna þeirra skilyrða sem stjórnarskráin setur fyrir slíkum neyðarúrræðum. "Engir nauðsynlegir almannahagsmunir knýja á um að ganga á eign okkar þegar aðrar ágætar leiðir eru í boði," segir hann.

Björn bendir einnig á að Arnarneslandið í Garðabæ sé í einkaeigu. Bærinn hafi reynt að taka það eignarnámi eftir að samningar við landeigendur náðust ekki en dómstólar hafi ekki veitt eignarnámsheimild. Í framhaldi af því hafi þáverandi eigendur selt landið Jóni Ólafssyni, sem nú vinnur að því að fá skipulagða á því íbúðabyggð. Ennfremur bendir hann á að meðalhófsregla stjórnsýslulaganna geri ráð fyrir því að við íþyngjandi stjórnvaldsaðgerðir sé ávallt farin sú leið sem íþyngir hagsmunum borgaranna minnst. Í því ljósi hljóti það að vega þungt að landeigendurnir hafi þegar bent á aðrar færar leiðir við lagningu vegarins.

Hann segir að samskipti sín og annarra eigenda jarðarinnar við Garðabæ og Vegagerðina séu farin að minna sig á baráttu Jóns Kjartanssonar, á Stóra-Kroppi í Borgarfirði, við vegagerðarmenn vegna vegarlagningar í landi hans. Þar hafi meðalhófsreglan m.a orðið til þess að hnikað var til upphaflega ráðgerðu vegarstæði.

Fuglalíf

Björn segir að landeigendurnir muni áfram vinna að framgangi hugmynda sinna um íbúðabyggð á jörðinni. Þeir stefni að því að ræða við skipulagsstjóra og umhverfisráðherra vegna málsins. Þegar hafi þeir rætt málið við Samtök um betri byggð, sem tekið hafi vel í hugmyndir þeirra, enda sé vakning í þjóðfélaginu fyrir því að þétta byggð á höfuðborgarsvæðinu í stað þess að þenja borgarlandið upp til fjalla.

Í frummatsskýrslu á umhverfisáhrifum vegarlagningarinnar kemur fram að Lambhúsatjörn hafi mikið gildi fyrir fuglalíf og leið A hafi meiri áhrif á náttúrufar en leiðir B og C. Framkvæmdaraðili telji tillögur um að leggja veginn á kafla í stokk óraunhæfar, tæknilega og vegna kostnaðar, auk þess sem vegarstæði í Lambhúsatjörn sé í meiri andstöðu við verndarsjónarmið en sú staðsetning sem nú sé áformuð. Einnig kemur fram að minjar í landi Selskarðs séu á bæjarminjaskrá.

Björn segir að slík skráning hafi engin réttaráhrif enda gerð án samráðs og tilkynningar til landeigenda. Hann telur að verði vegurinn lagður um fjöruna muni myndast betri aðstæður fyrir fuglalíf í fjörunni með auknu rými og skjólgóðri inntjörn en slíkar séu kjöraðstæður fyrir fugla, eins og sjáist af reynslunni af framkvæmdum við Pollinn á Akureyri. Eina sérstæða fuglalífið á Selskarði sé hins vegar æðarvarp, sem eigendur hafi sinnt. Verði vegur lagður eftir línum A, B eða C muni hann fara yfir friðland æðarfugls.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.