29. júní 2000 | Akureyri og nágrenni | 463 orð | 2 myndir

Flugsafnið á Akureyri opnað um síðastliðna helgi

Mikið til af flugminjum á Akureyri

Fjöldi manns var við opnun Flugsafnsins.
Fjöldi manns var við opnun Flugsafnsins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FLUGSAFNIÐ á Akureyri var opnað við hátíðlega athöfn um helgina. Það var forseti Alþingis, Halldór Blöndal, sem opnaði safnið, sem er staðsett í flugskýli á Akureyrarflugvelli til bráðabirgða.
FLUGSAFNIÐ á Akureyri var opnað við hátíðlega athöfn um helgina. Það var forseti Alþingis, Halldór Blöndal, sem opnaði safnið, sem er staðsett í flugskýli á Akureyrarflugvelli til bráðabirgða. Að sögn Kristjáns Víkingssonar, eins af meðlimum Flugklúbbs Akureyrar, þá er stefnan að finna í framtíðinni varanlegt húsnæði undir safnið. Flugminjar á Íslandi hafa verið á hrakhólum lengi, að sögn Kristjáns, og því mikilvægt að halda þeim til haga, en á Akureyri er til stór hluti hinna gömlu og upprunalegu flugvéla.

Minjar á hrakhólum

"Safnið hefur mikla þýðingu fyrir flugsögu á Íslandi, því að flugminjar hafa verið á hrakhólum í gegnum tíðina og mikið af þeim skemmst. Reyndar er flugsafn á Hnjóti sem hefur einbeitt sér að munum tengdum flugi, en við erum aftur á móti með mikið af flugvélum til sýningar, sagði Kristján. Hann sagði að slík söfn væru vanalega sett upp þar sem húsnæði væri fyrir hendi, því að það væri afar dýrt að geyma flugvélar. Flugsafninu hefði áskotnast flugskýli á Akureyrarflugvelli og því hefði sú ákvörðun verið tekin að fara út í stofnun safnsins. Það eru flugklúbbarnir á Akureyri sem standa að safninu en einnig hafa komið að því Flugsögufélagið í Reykjavík og fulltrúar flugfélaganna á landinu.

Stefnt að varanlegu safni

Kristján sagði að á Akureyri hefði verið samfellt flug síðan á tímum seinna stríðs. Áhugamannaflug hefði líka staðið hér föstum fótum og nefndi Kristján meðal annars Svifflugufélagið en margir af þeim sem væru framarlegu í flugheiminum í dag hefðu fengið sína fyrstu flugreynslu hjá Svifflugufélaginu. "Það er einnig gaman að geta þess að gamla svifflugan sem við erum með á sýningunni er eitt elsta flugtæki hér á landinu sem er til í sýningarhæfu ástandi," sagði Kristján.

Kristján sagði mikinn áhuga á því að koma upp stærra og varanlegra safni undir þá muni sem til eru. "Í dag er verið að gera upp nokkrar gamlar flugvélar hér á Akureyri sem hægt verður að sýna seinna. Einnig er til mikið af gömlum ljósmyndum sem Eðvarð Sigurgeirsson tók hér á árum áður. Við erum með nokkrar á sýningunni núna en gaman væri að geta gert þeim betri skil því að þær eru með bestu myndum flugsögunnar hér á landi," sagði Kristján.

Færanlegt safn

Ætlunin er að hafa safnið opið á laugardögum og sunnudögum en ekki hefur verið tekin ákvörðun hver opnunartíminn verður. Að sögn Kristjáns verður það auglýst betur síður. Einnig nefndi hann að hugmyndir væru uppi um að Flugklúbbur Akureyrar byði gestum safnsins upp á útsýnisflug; að safnið yrði lifandi. Aðspurður hvort að til greina kæmi að fá muni annars staðar af landinu, sagði Kristján að allt kæmi til greina í þeim efnum. "Þess má geta að allar vélarnar á sýningunni eru í flughæfu ástandi, þannig að hægt væri að hafa þetta færanlegt safn. Það mætti þá fljúga þeim til annarra staða og skiptast á munum," sagði Kristján.

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.