[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"Karl Marx hafði rétt fyrir sér. Það eru verkamennirnir sem stjórna því sem hefur mest áhrif á framleiðsluferlinu; það er heili mannsins." Þetta er meginboðskapur nýrrar bókar, Funky Business, skrifuð af tveimur óhefðbundnum sænskum hagfræðingum. Túlkunin í dag er reyndar aðeins öðruvísi, þó hugvitið hafi líklegast aldrei verið jafn dýrmætt og nú.
Funky Business lýsir með skemmtilegum hætti hvernig skilin á milli samfélaga víðsvegar í heiminum eru að minnka með auðveldari samskiptum. Veraldarvefurinn hefur hraðað þeirri þróun svo um munar. Ríkisstjórnir eiga nú erfiðra en nokkru sinni fyrr að stjórna upplýsingaflæði til þegna sinna. Gömul gildi hverfa og kröfur fólks fara í meiri mæli að snúast um kjör og skemmtanir (höfundar vísa í innkaupakörfu og kynlíf).

Samkvæmt Ridderstrale og Nordström er ekki þar með sagt að fólk hætti að afmarka sig. Þvert á móti fer fólk með betri aðgang að upplýsingum meira að mynda sér skoðanir og sinna áhugamálum með öðru fólki á veraldarvefnum. Hópar sem áður voru skilgreindir út frá þjóðerni verða í framtíðinni meira skilgreindir út frá áhugamálum og sérsviðum. Funky Business er ekki ólík þeirri framtíðarsýn sem Tom Peters kom fram með í bók sinni Crazy Times Call for Crazy Organizations, enda er vitnað í Peters á bakhlið bókarinnar. Báðar bækur vísa í hina frægu tilvitnun Andy Grove, fyrrum framkvæmdastjóra hjá Intel, "Only the paranoid survive" eða aðeins hinir ofsóknarkenndu lifa af, enda lýsir hún vel framtíðarsýn beggja bókanna. Það er mat beggja bóka að meiri sérhæfing í því að þjóna litlum hópum eigi eftir að vera helsta lifibrauð flestra í framtíðinni. Veröldin sem við lifum í er að verða stöðugt aðgreindari samhliða því sem tæknin minnkar allar fjarlægðir. Þeir einstaklingar og þau fyrirtæki sem telja sig í stöðugri hættu á að heltast úr lestinni ná því best að vera fremstir á sínu sviði með því að vera stöðugt á tánum. Takmarkið er að vera ekki aðeins framarlega heldur fremstir í því sem fyrirtækið sérhæfir sig í. Funky Business bendir á með hnyttnum hætti að best sé, þótt aðeins sé hægt að ná því um stundarsakir, að ná ráðandi stöðu (þ.e. einokun!) á markaðinum. Auðvitað mundi ekkert fyrirtæki láta hafa slíkt eftir sér. Microsoft, fyrirtæki sem lagði áherslu á að vera fremst (allsráðandi?) á aðeins einu sviði, stýrikerfi tölva, er gott dæmi um þetta.

Höfundar leggja mikla áherslu á að með meiri sérhæfingu eykst þörfin fyrir einstaklinga sem þora að vera öðruvísi. Stöðnuð fyrirtæki heyra brátt sögunni til enda verða það ferskar hugmyndir og stjórnendur sem hafa þor og hæfileika til að koma því í verk sem standa uppúr. Hugvit og frumleiki verður helsti drifkraftur fyrirtækja.

Það sem að mínu mati skortir helst í bókinni er betri greining á því hvernig sú þróun eigi eftir að eiga sér stað. Höfundar leitast t.d. við að sýna fram á að smá fyrirtæki eiga eftir að ná lengst í framtíðinni, þ.e. þau sem ná að afmarka sér ákveðinn bás, annaðhvort með tilliti til viðskiptavina eða vöruþróunar. Hvernig sú þróun á eftir að vera eru ekki gerð fyllileg skil, látið er nægja að vísa í nýleg dæmi. Auk þess nefna þeir dæmi um það að vörumerki eigi eftir að verða jafnvel enn mikilvægari í framtíðinni vegna þess að þegar verslað er á veraldarvefnum vill fólk kaupa vörur sem það þekkir af traustum söluaðilum. Æskilegt hefði verið að veita betri dæmi um það hvernig fyrirtæki í dag eru að leitast við að nýta sér þessa möguleika. Auðsótt dæmi hefði verið endurskipulagningin sem neysluiðnaðarrisinn Procter & Gamble er að vinna í þessa dagana. Sú mynd sem Funky Business gefur af framtíðinni er sjálfsagt nær veruleikanum en flestir gera ráð fyrir, enda eru möguleikar veraldarvefjarins enn óljósir. Bókin er frumleg og textinn er með skemmtilega hrynjandi. Við lestur bókarinnar fær maður góða tilfinningu fyrir þeim óstöðugleika og hraða sem einkennir líf okkar í dag. Þeir einstaklingar sem hafa áhuga á þróun menningar morgundagsins (jafnvel hvernig hún er í dag), ekki aðeins frá sjónarmiði reksturs fyrirtækja heldur einnig skemmtana og jafnvel heimspeki, ættu að gefa Funky Business gaum.

Már Wolfgang Mixa hjá SPH