Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað.
Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar gengið er um húsakynni Hússtjórnarskólans á Hallormsstað andar sagan á móti manni úr hverju horni og af hverri tröppu.

Þegar gengið er um húsakynni Hússtjórnarskólans á Hallormsstað andar sagan á móti manni úr hverju horni og af hverri tröppu. Herbergin eru öll merkt með fornum klausturheitum og upp um veggi eru myndaspjöld með myndum gamalla nemenda í bland við ýmiss konar handavinnu sem unnin hefur verið í skólanum í áranna rás.

Það tók sinn tíma að koma þessum skóla á laggirnar. Í kvennablaðinu Framsókn sem gefið var út á Seyðisfirði 1895 til 1898 segir frá áætlunum um stofnun kvennaskóla á Austurlandi. Þetta var fyrsta kvennablað á landinu og studdi það dyggilega skólastofnunina. Árið 1895 var haldinn kvennafundur á Egilsstöðum sem ritstjórar fyrrnefnds blaðs boðuðu, þær Sigríður Þorsteinsdóttir og dóttir hennar Ingibjörg Skaptadóttir. Fundinn sóttu tuttugu konur og voru þær allar hjartanlega sammála um að nauðsynlegt væri að skóli kæmist á sem fyrst. Það var svo haustið 1899 sem Guðlaug Eiríksdóttir Wiium stofnaði kvennaskóla á Seyðisfirði með tíu námsmeyjum. Sá skóli var við lýði í tvo vetur. Hún sótti um styrk til starfsins til Alþingis en fékk synjun.

Ýmsar tilraunir til námskeiðs- og skólahalds komu upp á næstu áratugum, m.a. hélt Sigrún Pálsdóttir á Hallormsstað þrjú námskeið í hagnýtum vefnaði og útvefnaði árið 1917 á Egilsstöðum, Ketilsstöðum og Eiðum. Síðar hélt hún fleiri námskeið. Þau Sigrún og maður hennar Benedikt Blöndal fluttust í Mjóanes og stofnuðu þar lýðháskóla sem breyttist síðan í húsmæðraskóla sem tók átta nemendur. Kenndar voru þar bæði verklegar og bóklegar greinar. Sigrún Blöndal hélt erindi á aðalfundi Búnaðarsambands Austurlands 1926 og ræddi um gildi húsmóðurstarfsins, í framhaldi af því skoraði fundurinn á Alþingi að veita fé til þess að stofna og starfrækja húsmæðraskóla á Hallormsstað eða öðrum hentugum stað á Fljótsdalshéraði.

Sama sumar var Samband austfirskra kvenna stofnað með það að markmið að koma á húsmæðraskóla á Austurlandi.

Árið 1927 flutti Ingvar Pálmason, einn af þingmönnum Austurlands, frumvarp til laga um stofnun húsmæðraskóla á Hallormsstað. Frumvarpinu var vísað til menntamálanefndar sem skilaði tveimur álitum með röksemdum með og móti skólastofnun á Hallormsstað. Eftir miklar umræður var málinu vísað frá að viðhöfðu nafnakalli með átta atkvæðum gegn sex.

Í janúar 1929 ítrekaði stjórn Sambands austfirskra kvenna enn beiðni um stuðning við þetta mál meðal alþingismanna Múlasýslna. Hinn 27. mars var málið svo vel á veg komið að sambandið leitað eftir fjárstuðningi hjá kvenfélögum á svæðinu, 300 krónur og "gæti það skifst á árin 1929 og 1930" segir í afmælisriti um Húsmæðraskólann á Hallormsstað frá 1980.

Það er skemmst frá að segja að kvenfélögin tóku þessu vel og fjársöfnunin gekk vonum framar. Leitað var til Sigrúnar Pálsdóttur Blöndal að taka að sér forstöðu skólans frá 1. september 1930.

Sigrún var fædd 4. apríl 1883 og varð hún fyrsta skólastýran á Hallormsstað. Hún hafði kynnt sér skólamál á Norðurlöndum árið 1918, þá nýgift Benedikt G.M. Blöndal sem hafði verið kennari við búnaðarskólann á Eiðum til vors þetta ár. Benedikt var kennari á Hallormsstað, fjárhaldsmaður, bryti og ráðsmaður skólans þar til hann varð úti á leið heim til sín 9. janúar 1939. Sigrún lést 28. nóvember 1944. Gunnar Gunnarsson rithöfundur flutti útfararræðu og erfiljóð eftir Sigrúnu í Höllinni áður en hún var jarðsett við hlið manns síns í grafreitnum á Hallormsstað. Síðasta erindið í erfiljóði Gunnars er á þessa leið:

Mjöll mjallskrýðir

moldir þínar,

dregur drifblæju

örðuggrónar.

Sigrún, sofðu vel.

Eftir lát Sigrúnar Blöndal

Eftir lát Sigrúnar varð Þórný Friðriksdóttir skólastýra og stjórnaði skólanum til 1953. Síðan hafa stýrt skólanum Ásdís Sveinsdóttir, Ingveldur Pálsdóttir, Guðrún Ásgeirsdóttir, Jenný Sigurðardóttir, Guðbjörg Kolka, Anna Heiður Guðmundsdóttir, Margrét Sigurbjörnsdóttir, Signý Ármannsdóttir, Birna Kristjánsdóttir og Sigríður Sigmundsdóttir.

Allt hafa þetta verið hinar mætustu konur sem hafa haldið í heiðri ýmsum gömlum hefðum jafnframt því að þróa skólahaldið sem næst breytingum samtímans hverju sinni.

Í Höllinni hafa á þessum sjötíu árum verið lesnar ótal framhaldssögur og sungin alls konar lög á kvöldvökum og skemmtunum skólans. Þar hefur ungar íslenskar stúlkur í 70 ár dreymt framtíðardrauma - ekki síðri að fegurð en mynstrin sem þær saumuðu út í dúka og veggteppi meðan þær hlustuðu á það sem fram fór hverju sinni - og nú hafa ungir menn bæst í nemendahópinn í takt við jafnréttiskröfur samtímans.