Steingrímur Pálsson
Steingrímur Pálsson
Ef íslenzk þjóð er þannig kynnt í útlöndum, segir Steingrímur Pálsson um ræðu, sem forseti Íslands flutti, er við því að búast, að útlendingum muni finnast, að þar sé um að ræða samfélag á gelgjuskeiði, sem af gagnrýnislausu sjálfsáliti telji sig orðið fullþroska, öllum fremri, kallað og útvalið til fyrirmyndar öðrum.

MILLI manna ganga ljósrit af ræðu sem sagt er að forseti Íslands hafi flutt á samkomu íslensk-ameríska viðskiptaráðsins í Los Angeles 5. maí nú í vor. Ræðan er á ensku.

Ræðan er og á Netinu: strik.is: Silfur Egils: Ræða um Íslendinga. Ræðutextinn er þar einnig á ensku.

Það sem veldur því að ræða þessi hefur vakið athygli og umræðu er að hún er með þeim endemum að kvíða vekur um orðstír íslenskrar þjóðar í útlöndum.

Yfirlætið og miklun Íslendinga er þvílík í ræðunni að okkur heimamönnum sem lesum hana hlýtur að finnast að verið sé að hæðast að okkur eftir þeirri fyrirsögn Snorra Sturlusonar að lof sem sé skrök og hégómi sé háð en ekki lof.

Um hina erlendu áheyrendur má ætla að þeir hafi bak við kurteisisbros sín hugsað með meðaumkun til þessarar fámennu þjóðar sem gerir sig að viðundri með því, í einfeldni sinni og barnaskap, að trúa skjalli einhverra útlendinga um að sköpunarsnilli og framtaksmáttur Íslendinga sé þvílík veraldarafurða að þeir séu jafnokar 5 milljóna þjóðum í viðskiptum, menningarefnum og vísindum.

Meðaumkun er varla til mikils framdráttar í viðskiptum.

Nauðsynlegt er að það komi fyrir augu og eyru Íslendinga hvernig fulltrúar þeirra kynna þá fyrir umheiminum.

Þar sem það getur ekki verið neitt launungarmál heldur eðlilegt umræðuefni þjóðfélagsins hvernig embættismenn ríkisins kynna land og þjóð í útlöndum þá er ræðan birt hér í íslenskri þýðingu:

Ræðan

Ræða forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, á hádegisverðarfundi íslensk-ameríska viðskiptaráðsins í Los Angeles 5. maí 2000:

Virðulegu gestir.

Þegar ég neyti þessara ljúffengu íslensku rétta, er frábærir matreiðslumenn hafa tilreitt úr hráefni sem hið hrjóstuga land okkar og ískalt Atlantshafið hafa gefið af sér, og breytt því í einstætt lostæti, og upplifi um leið þann árangur að koma með íslenska menningu, kvikmyndir, tónlist og leiklist til Los Angeles, miðstöðvar kvikmyndagerðar í heiminum - þá undrast ég, eins og svo oft áður, þá miklu velgengni sem hin litla þjóð mín hefur notið í nútímanum og spyr sjálfan mig hvað sé framundan hjá okkur í hinu nýja hagkerfi alþjóðavæðingar 21. aldarinnar.

Ísland er þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa yfir að ráða gnægð þeirra lykilauðlinda sem munu ákvarða velgengni og framfarir á komandi tímum. Ég veit að það kann að hljóma einfeldningslega, en ég spái því að nýja hnattræna hagkerfið geri okkur Íslendingum kleift að blómstra sem aldrei fyrr, um leið og það gefur alþjóðlegum samstarfsaðilum okkar aðgang að mjög ábatasamri samvinnu.

Sköpunarkraftur er meginuppistaða íslenskrar arfleifðar. Þessi sköpunarkraftur sem gat af sér Íslendingasögurnar og Eddukvæðin, bókmenntaafrek sem eiga engan sinn líka í Evrópu miðaldanna. Það er sköpunarmáttur sem gefur þjóðinni forskot í samkeppni hins nýja hnattræna hagkerfis nútímans og jafnvel enn frekar í þekkingariðnaði og þjónustu 21. aldarinnar.

Fólki sem kemur frá stærri samfélögum finnst það nánast óskiljanlegt að hægt sé að finna jafn fjölbreyttan vitnisburð um sköpunarmátt og raun ber vitni hjá 280 þúsund manna þjóð:

Á Stór-Reykjavíkursvæðinu er hægt að velja á milli 20 og 30 mismunandi leiksýninga í viku hverri frá septembermánuði til júnímánaðar, sem margar hverjar eru á heimsmælikvarða. Sinfóníuhljómsveit Íslands mun fara í tónleikaferð um Bandaríkin í haust, og bera vitni um þá tónlistarhæfileika Íslendinga sem leiða til fjölda tónleika í landinu í hverjum mánuði. Um hverja helgi opna listmálarar og aðrir listamenn sýningar á verkum sínum í hinum fjölmörgu listasöfnum og galleríum á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Í smærri bæjarfélögum og þorpum úti um allt land halda kórar tónleika og leikfélög setja upp sýningar allt árið um kring.

Fleiri bækur eru gefnar út á Íslandi miðað við höfðatölu en í nokkru öðru landi í heiminum. Meistaraverk eftir íslenska nútímarithöfunda hafa gefið íslenskum kvikmyndagerðarmönnum efnivið í nýja bylgju íslensks kvikmyndaiðnaðar; á þessu ári verða fleiri frumsýningar á nýjum íslenskum kvikmyndum en nokkru sinni fyrr.

En vitnisburð um íslenska sköpunargleði er ekki einungis að finna í bókmenntum og listum. Þúsundir fyrirtækja úti um allt land færa sönnur á hið heillandi sambland af framkvæmdagleði og sköpunargleði sem er svo einstakt fyrir Íslendinga: Fyrirtæki sem fást við fiskveiðar og fiskverkun, vöruflutninga, loftflutninga, viðskipti og verslun, upplýsingatækni og tölvuhugbúnað, erfðafræðirannsóknir og heilbrigðisvísindi, ferðaþjónustu og markaðssetningu fjölmiðla. Íslendingar nota orðið mest allra þjóða Netið og heimatölvur; tæplega 90% þjóðarinnar hafa aðgang að upplýsingum hvaðanæva úr heiminum með netvæðingu.

Ég hef tekið á móti gestum á Bessastöðum sem hafa haldið því fram að opinberar tölur um mannfjölda á Íslandi hljóti að vera með stórkostlegri almannatengslabrögðum sem fyrirfinnast, vegna þess að það ætti að þurfa a.m.k. 5 milljónir manna til þess að koma öllu því í verk sem gert er þar í viðskiptum, menningarmálum og vísindum. Einn af háttsettari embættismönnum Sameinuðu þjóðanna, sem heimsótti Ísland nýlega í fyrsta skipti, hafði orð á því að hann hefði aldrei áður komið til evrópsks lands sem byggi í grundvallaratriðum yfir þeim sama frumherjaanda og hefði ríkt við stofnun Bandaríkja Norður-Ameríku. Hann sagði að Íslendingar væru "amerískir" þegar horft væri til frumkvæðis í atvinnurekstri og áræðis en "evrópskir" í menningarlegu tilliti og sjálfsmynd þeirra væri evrópsk - greinilegt væri að þeir sameinuðu hið besta úr báðum heimum.

Íslendingar hafa vissulega orðið fyrir miklum áhrifum frá fordæmi landnámsmannanna sem, fyrir meira en þúsund árum, leituðu nýrra landa til þess að geta verið sínir eigin herrar. Þeir ákváðu síðan af fúsum og frjálsum vilja að stofna fyrsta lýðræðislega þjóðveldið í heiminum sem laut lagalegri stjórn með hið forna þing, Alþingi, sem miðstöð.

Þetta hugarfar landsfeðranna og -mæðranna, hugarfar landkönnuða og uppfinningamanna, hefur mótað uppeldi þeirrar nýju kynslóðar sem nú skapar eitt af athyglisverðustu nútímasamfélögum í heiminum, samfélag sem notar tækni til þess að ná einu hæsta mögulega lífsgæðastigi sem hægt er.

Leyfið mér að geta nokkurra helstu áfanganna í sögu hins góða árangurs Íslendinga:

Nýting Íslendinga á auðlindum sjávar í hagnaðarskyni, án þess þó að gengið sé of nærri þeim, er með því besta sem gerist að áliti Sameinuðu þjóðanna - og þá bæði Matvæla- og landbúnaðarstofnunarinnar (FAO) og aðalstöðva Sameinuðu þjóðanna í New York. Helstu sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi eiga dótturfyrirtæki eða aðild að fyrirtækjum í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Spáni, Mexíkó, Chile, Japan og mörgum fleiri löndum. Íslenskur fiskiðnaður framleiðir sannarlega fyrir alþjóðlegan markað. Með því að hagnýta sér nálægðina við fiskiðnaðinn hafa mörg íslensk tækni- og hugbúnaðarfyrirtæki tryggt sér góða samkeppnisstöðu fyrir afurðir sínar á alþjóðlegum markaði, og hafa nú yfir að ráða yfirgripsmiklum sölunetum í Evrópu, Norður-Ameríku, Suður-Ameríku, Asíu, Afríku og Ástralíu. Samvinna á milli þeirra mjög svo hæfu vísindamanna, verkfræðinga og tæknimanna sem Íslendingar eiga og fiskiðnaðargeirans hefur getið af sér nýja tækni og gnægð hugbúnaðarafurða. Þannig hefur hið gamla lífsviðurværi okkar Íslendinga ýtt undir nútímahátækniiðnað sem hefur náð glæsilegum árangri á heimsmarkaði.

Annað svið þar sem Íslendingar hafa skarað fram úr er flugsamgöngur, aðalsamgöngumáti 20. aldarinnar. Mun fleiri flugferðir eru á degi hverjum frá Íslandi til Bandaríkjanna heldur en t.d. frá Noregi, Svíþjóð eða Finnlandi. Flugleiðir fljúga daglega til New York, Baltimore, Boston, Minneapolis og einnig til annarra ákvörðunarstaða í Norður-Ameríku. Annað íslenskt flugfélag, Flugfélagið Atlanta, sem var stofnað fyrir áratug, er nú stærsta flugfélag í heiminum á sínu sviði í alþjóðlegum viðskiptum, og Íslendingar léku lykilhlutverk í stofnun Cargolux, stærsta evrópska fyrirtækisins í vöruflutningum í lofti.

Á síðustu árum hefur nýrri kynslóð vísindamanna, viðskiptafrömuða og tæknimanna tekist að gera Ísland að mikilvægum þátttakanda í mörgum nýsköpunarverkefnum í hinu nýja hnattræna hagkerfi.

Tvö eftirtektarverð fyrirtæki, Íslensk erfðagreining og Urður, Verðandi, Skuld, hafa gert Ísland að einstöku svæði fyrir erfðafræðirannsóknir og vísindalegar tilraunir til að finna lækningu á sumum af algengustu sjúkdómum nútímans: krabbameini, hjartasjúkdómum, alzheimer-sjúkdómnum, MS-sjúkdómnum og öðrum sjúkdómum. Íslensk erfðagreining er fyrsta íslenska fyrirtækið til að sækja um skráningu á NASDAQ, og Urði, Verðandi, Skuld hefur tekist að fá mikilsmetna bandaríska kaupsýslumenn og vísindamenn til starfa í ráðgefandi nefnd á vegum fyrirtækisins.

Enn einu sinni hefur fortíðin lagt grunninn að framtíðinni: Þeir þættir sem gera Ísland að ákjósanlegu svæði fyrir árangursríkar erfðafræðirannsóknir eru m.a. aldagamall áhugi á ættfræði og tilvist fullkominna heilbrigðisskýrslna fyrir hvern einasta Íslending síðan á fyrstu áratugum 20. aldar, ásamt vilja þjóðarinnar til að taka þátt í læknisfræðilegum rannsóknum.

Íslensk hugbúnaðarfyrirtæki, netfyrirtæki og fyrirtæki á sviði upplýsingatækni hafa tekið upp skipulegt samband við fyrirtæki í fremstu röð í Bandaríkjunum og Evrópu, t.d. INTEL, CISCO og Ericsson. Íslensk fyrirtæki á sviði heilbrigðistækni hafa sýnt framúrskarandi árangur á síðustu árum. Fyrir aðeins tveimur mánuðum keypti eitt þeirra, Össur, bandaríska fyrirtækið Flex-Foot, sem gerði hið sameinaða fyrirtæki að næststærsta fyrirtæki á þessu sviði í heiminum.

Íslensk upplýsingatæknifyrirtæki á sviði upplýsingakerfa, samskiptalausna, kerfa í þráðlausum samskiptum, lófatölvum og tölvuleikjum hafa orðið alþjóðleg og vel samkeppnisfær á alþjóðamælikvarða og hafa, annaðhvort upp á eigin spýtur eða í samvinnu við bandarísk og evrópsk fyrirtæki, náð umtalsverðum hluta af heimsmarkaðnum fyrir afurðir sínar.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að með því að setja velgengni Íslendinga fram á þennan hátt er ég að búa til bjartsýna, jafnvel upphafna mynd af þjóðinni, en staðreyndin er sú að þau tækifæri sem hið nýja hnattræna hagkerfi hefur opnað fellur afar vel að íslenskum skilningi á sköpunarmætti og framkvæmdagleði.

Ennfremur erum við núna, í fyrsta skipti í meira en þúsund ára sögu okkar, að athafna okkur í heimshagkerfi sem leggur engar hömlur á okkur, heldur býður okkur ótakmörkuð tækifæri og ögrandi viðfangsefni. Gamla hagkerfið, hagkerfi fiskveiða á Íslandi og landbúnaðar og verksmiðjuiðnaðar í Bandaríkjunum, takmarkaðist af alls kyns hindrunum og ófullkomleika, það var háð því að auðlindir á landi og sjó væru fyrir hendi, getu framleiðsluvéla, takmörkunum viðskipta og þörfum verkafólks.

Nútíma-hagkerfi, með nýtísku upplýsingatækni, hátækniiðnaði, hugbúnaðarframleiðslu, heilbrigðis- og erfðafræðiiðnaði, samgöngufyrirtækjum og fjölmiðlum, hefur að stórum hluta losað sig undan þessum hefðbundnu hömlum.

Nú opnast þeim sem búa yfir sköpunarmætti og framkvæmdagleði leiðir til að leggja allan heiminn að fótum sér. Lítil fyrirtæki sem unglingar stofna í bílskúrum foreldra sinna, hvort sem er í Seattle eða Reykjavík, og fyrirtæki sem stofnuð eru af fólki með frumkvöðulshæfileika, hvort sem við tökum sem dæmi America Online í Bandaríkjunum eða Íslenska erfðagreiningu á Íslandi, sýna að vaxtarmöguleikar eru ekki lengur takmarkaðir með hefðbundnum hætti. Þannig eiga fyrirtæki sem voru stofnuð á síðasta áratug á Íslandi möguleika á að sitja við sama borð og stærstu fyrirtæki heimsins á nýrri öld. Í fyrsta skipti í sögu sinni hefur sköpunarkraftur Íslendinga, með hjálp fítonskrafts hins alþjóðlega hagkerfis, fært íslensk fyrirtæki í fremstu víglínu, þar sem hinir fremstu í heiminum starfa.

Þetta eru sannarlega spennandi tímar, og það er einstök blessun að þau sérkenni sem gerðu Íslendingum kleift að lifa af öldum saman í einangrun í Norður-Atlantshafi gera nú nýrri kynslóð frumkvöðla, vísindamanna og tæknimanna kleift að skara fram úr í hinu nýja hagkerfi 21. aldarinnar.

Sumir hafa haldið því fram að Ísland sé nú þegar orðið smækkuð mynd af hinu nýja upplýsingasamfélagi, þar sem hægt er að reyna að þróa afurðir sem ætlaðar eru alþjóðlegum markaði framtíðarinnar. Mörg alþjóðleg fyrirtæki hafa gengið til samstarfs við íslensk fyrirtæki í þessu skyni.

Margir af þeim sem sækja land okkar heim hafa lýst undrun sinni á þeirri blöndu af heimsborgaralegu samfélagi og umhverfisvænni draumaveröld sem einkennir landið. Hér eru fallegir dalir og firðir, hraunbreiður og kristaltærar ár, hreint og ferskt loft og friður og öryggi einkennir borgir og bæi - Ísland er tilvalinn staður til að upplifa hið besta í nútímasiðvæðingu og njóta gómsætra máltíða á frábærum veitingahúsum sem fjölgar með hverju árinu sem líður.

Sumir af gestum okkar hafa haldið því fram að Ísland sé best varðveitta leyndarmál í heiminum, og þeir vona, eins og John Kennedy yngri heitinn, sem heimsótti landið fyrir nokkrum árum, að þeir geti átt vitneskjuna um þessa einstöku reynslu út af fyrir sig þegar heim er komið.

Við Íslendingar vorum aldir upp á sögnum úr Íslendingasögunum, sögnum af landkönnuðum sem þorðu að sigla yfir óþekkt höf til að uppgötva nýjan heim. Á einhvern hátt hafa ömmur okkar innrætt okkur að við skyldum skara fram úr eins og forfeður okkar, skáld og frumkvöðlar, draumóramenn og landkönnuðir, og nota frumkvöðulsandann til að kanna heiminn.

Það er með þessu hugarfari sem við komum til Los Angeles til að gera ykkur að þátttakendum í eftirvæntingu okkar eftir framtíðinni.

Gelgjuskeið

Það hvað ræðan hefur spurst víða milli manna og vakið eftirtekt og umræðu er til vitnis um það hve mörgum sárnaði hvernig Íslendingum er þar lýst með barnalegum auglýsingastofubrag.

Ef íslensk þjóð er þannig kynnt í útlöndum er við því að búast að útlendingum muni finnast að þar sé um að ræða samfélag á gelgjuskeiði sem af gagnrýnislausu sjálfsáliti telji sig orðið fullþroska, öllum fremri, kallað og útvalið til fyrirmyndar öðrum. Samfélag sem ímyndi sér að það hafi mikið forskot í samkeppni hins hnattræna hagkerfis nútímans í krafti sköpunarkrafts sem blundað hafi í erfðavísum þjóðarinnar í 700-1000 ár en sé nú uppvakinn, reiðubúinn til stórræða.

Varla verður þetta traustvekjandi mynd í hugum útlendinga.

Væri nú ekki æskilegt að nokkur umræða yrði í þjóðfélaginu og fjölmiðlum þess um málflutning af því tagi sem í ræðunni birtist, embættismönnum til leiðbeiningar um hversu langt megi ganga í skruminu, þannig að Íslendingar geti hlustað á það kinnroðalaust eða að minnsta kosti án þess að þeim finnist að verið sé að hæðast að þeim?

Höfundur er fyrrverandi starfsmaður fjármálaráðuneytisins.