Það getur ekki verið satt að allt sé æðislegt, að við búum í besta heimi allra heima. Gagnrýnin athugun er nauðsynleg því hún kennir að enginn er fullkominn.

Vinur minn, bandarískur, sem búsettur hefur verið hér á landi um skeið, brá sér út á lífið um daginn. Hann klæddi sig til fararinnar eins og aðstæður gáfu tilefni til, í regnbuxur og jakka, en sagði um leið: "Alveg skal ég veðja að það verður enginn annar í regngalla, hvað þá með húfu. Það er sama hvernig viðrar hér, alltaf skulu strákarnir vera í fráhnepptum jökkum og stelpurnar í stuttum pilsum. Hvernig stendur á þessu?"

Ég svaraði því til að við værum sennilega í afneitun - vildum einfaldlega ekki gangast við því að búa á mörkum hins byggilega heims. "Einmitt, þið látið sem þið búið í Flórens eða Madríd," sagði hann. "Frumleg leið til þess að taka þátt í evrópsku samlífi."

Því tilfæri ég hér þessa sögu að mér kom hún í hug þegar ég las í Mbl. 23. júlí ræðu sem forseti Íslands hélt í hófi kaupsýslumanna í Los Angeles í vor. Það rann upp fyrir mér að ævinlega er hægt að túlka á tvo vegu hegðun og athafnir hópa, jafnvel heilla þjóða. Sá sem logar af jákvæði og bjartsýni eins og þeirri sem birtist í ræðu forseta liti til dæmis ekki á fyrrnefnda sögu sem vitnisburð um minnimáttarkennd eða afneitun heldur teldi hann glæfralegan klæðaburðinn einfaldlega færa sönnur á dugandi víkingaeðli og óbilandi þor.

Sennilega er gott að hægt sé að túlka hegðunarmynstur þjóðarinnar á besta veg, þegar svo ber undir. En þess verður þá að gæta að jákvæði lesturinn úthýsi ekki hinum. Það getur nefnilega ekki verið satt að allt sé æðislegt, að við búum í besta heimi allra heima. Gagnrýnin athugun er nauðsynleg því hún kennir að enginn er fullkominn, auk þess sem hún minnir á að ekki er til einfalt svar við spurningunni "hvað er Íslendingur?" Ekki að það sé neitt flóknara að vera Íslendingur en annarrar þjóðar - það er hugtakið þjóðarvitund sem er flókið í sjálfu sér. Hvers kyns hópvitund, þar með talin þjóðarvitund, er aldrei sjálfgefin stærð.

Á þetta benti Vaclav Havel, forseti Tékklands, í grein sem birt var hér í blaðinu sl. fimmtudag. Þar spyr hann hvort þjóðir Evrópu líti í raun og veru á sig sem Evrópumenn eða hvort það sé aðeins tilbúningur, "tilraun til að breyta landafræði í "hugarástand"". Hann bendir á að "Evrópuvitund" hafi kannski lengi svifið yfir vötnum en enginn hafi gert tilraun til að færa hana í orð fyrr en á allra síðustu árum. "Að baki meðvitaðs "evrópisma" liggur engin hefð, svo ég fagna því að Evrópuvitundin er að rísa upp úr óljósum massa hins sjálfsagða. Með því að spyrja eftir henni; hugsa um hana; með því að reyna að átta sig á eðli hennar, erum við að bæta okkar eigin sjálfsvitund. Þetta er gríðarlega mikilvægt - sérstaklega vegna þess að við búum í heimi fjölmenningar, þar sem það að þekkja sjálfsmynd sína er skilyrði þess að lifa í sátt við fólk sem hefur annars konar sjálfsmynd." Hvort sem menn aðhyllast hugmyndina um sambandsríki Evrópu eða ekki hljómar inntakið í þessum orðum skynsamlega og hlýtur að eiga við að breyttu breytanda í umræðunni um vitund einstakra þjóða. "Með því að velta fyrir okkur "evrópisma" erum við að grafast fyrir um gildismat, hugsjónir og lífsreglur sem einkenna Evrópu. Það felur sjálfkrafa í sér að við skoðum þessi gildi á gagnrýninn hátt, sem leiðir til þess skilnings að margar evrópskar hefðir, lífsreglur eða gildi kunna að vera tvíeggjaðar," segir Havel ennfremur og bendir á að Evrópubúar hafi í senn fært heiminum hugmyndina um mannréttindi og staðið fyrir helförinni, í senn leitt tæknibyltinguna og farið ránshendi um náttúruna.

Andstæðurnar eru heldur mildari í meintri afrekaskrá Íslendinga. Á henni hlýtur þó að vera önnur hlið en sú gullslegna sem kynnt var í fyrrnefndri ræðu forsetans í Los Angeles og snerist um nútímahátækniiðnað "sem hefur náð glæsilegum árangri á heimsmarkaði", leiksýningar "á heimsmælikvarða" að ógleymdu einstöku uppeldi sem innrætir okkur "að skara fram úr eins og forfeður okkar", svo aðeins fátt sé nefnt.

Fróðlegt er að vita hvort þessi mynd komi heim og saman við almenna sjálfsmynd Íslendinga. Vonandi ekki, því ef við erum sannfærð um að allt sé svona óviðjafnanlegt þá höfum við ekki að neinu að keppa og færumst aldrei fram á veginn. Við eigum sannarlega að leita að sjálfsmynd okkar og grafast fyrir um gildi okkar en "það felur sjálfkrafa í sér að við skoðum þessi gildi á gagnrýninn hátt" svo vitnað sé aftur í Havel.

Nefnda ræðu forseta Íslands má annars lesa á tvo vegu, eins og annað. Að oflofinu frátöldu er áhersla lögð á að landsmenn skuli neyta krafta til þess "að kanna heiminn" og þar munu margir sammála. Því ef Íslendingum hefur einhvern tíma tekist sæmilega upp á sviði lista, vísinda eða viðskipta er það einmitt í kjölfar samræðna við önnur samfélög. Þýðingar auðga íslenska bókmenntasköpun, meirihluti vísindamanna hefur hlotið menntun sína erlendis og flestum íslenskum fyrirtækjum er stjórnað eftir aðferðum sem þróast hafa í öðrum löndum.

"Þótt maður sé Evrópumaður þarf maður ekki endilega að vera "Evrópusjálfhverfur"," sagði ítalska skáldið og þýðandinn Roberto Mussapi fyrir skömmu í ræðu á ljóðlistarþingi í Bologna og útskýrði: "Evrópumaður er í mínum huga sá sem leggur upp frá Feneyjum og endar við hirð hins mikla Khans eða sá sem heldur af stað frá Spáni og tekur land í nýrri heimsálfu. Að vera Evrópumaður felst í því að víkka út landamæri hugans," sagði hann með tilvísun í Marco Polo og Kólumbus. Í þessu hlýtur að gilda það sama um litlar þjóðir og stórar álfur; vitur er sá er víða ratar. Þátttakandi í hóp þarf þannig ekki aðeins að leita að sjálfsmynd sinni og hópsins, hann þarf líka að horfa út til þess að sjá hópinn í stærra samhengi. Slíkt ferli þarf að vera reglulegt og gagnrýnið svo hópurinn staðni ekki eða tapi sér í sjálfumgleði.

Sigurbjörgu Þrastardóttur