ÞAÐ VAR vegsemd og virðing í lofti þegar forsýningargestir mættu í Stjörnubíó til sýningar á nýju stórmyndinni með Mel Gibson, The Patriot, á föstudagskvöldið. Gestum var tekið opnum örmum með veglegum veigum svo þorsti eða hungur amaði ekki að gestum meðan á sýningu myndarinnar stæði. "Það var fádæma góð stemmning í salnum," sagði Christof Whemeier, markaðs- og kynningarstjóri Skífunnar. "Þetta er líka Stórmynd með stóru S-i sem hefur að geyma eitthvað fyrir alla; húmor, spennu, hasar, drama og já, smá rómantík. Svo spillir ekki að Mel Gibson er í myndinni en hann trekkir ávallt að."
Að sýningu lokinni héldu forsýningargestir áleiðis niður á Skuggabar til frekari gleðileiks - fullir af ættjarðarást.