Netis, íslenska fyrirtækið sem sett hefur á laggirnar rafrænan viðskiptavettvang fyrir fyrirtæki (B2B), stendur nú fyrir þýðingu á alþjóðlegu flokkunarkerfi Sameinuðu þjóðanna fyrir vörur og þjónustu. Kerfið kallast UN/SPSC (www.unspsc.

Netis, íslenska fyrirtækið sem sett hefur á laggirnar rafrænan viðskiptavettvang fyrir fyrirtæki (B2B), stendur nú fyrir þýðingu á alþjóðlegu flokkunarkerfi Sameinuðu þjóðanna fyrir vörur og þjónustu. Kerfið kallast UN/SPSC (www.unspsc.org) og er þróað í samvinnu einnar af stofnunum SÞ (UN Development Programme) og alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins Dun & Bradstreet. Nú þegar eru fjölmörg alþjóðleg stórfyrirtæki orðin virkir þátttakendur í þessu starfi, þar á meðal AOL, Apple Computer, FedEx og General Electric, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Netis hefur þegar fengið það staðfest að íslenska verði eitt af þeim tungumálum sem flokkunarkerfið býður upp á.

"UN/SPSC flokkunarkerfið hefur ótvíræða kosti fyrir innkaupadeildir fyrirtækja og innleiðing kerfisins á alþjóðavettvangi mun auðvelda öll innkaup verulega," segir Rúnar Már Sverrisson, framkvæmdastjóri Netis í fréttatilkynningu.

Auðveldar allt eftirlit með innkaupum

"Nákvæm flokkun á vörum og vörutegundum auðveldar alla leit að því sem þörf er á, auk þess sem mun léttara er að fylgjast með og greina þau innkaup sem gerð eru í fyrirtækjum. Nútíma viðskipti eru orðin hálfgerður frumskógur og til dæmis eru nokkur ámóta kerfi í notkun í heiminum í dag. Eitt alþjóðlegt kerfi skilar markvissari innkaupum, betra yfirliti yfir viðskipti og lægri kostnaði, sem aftur skilar sér án efa í hagstæðara vöruverði." Netis mun aðstoða þau fyrirtæki sem ákveða að koma inn á viðskiptavettvang okkar með að flokka sínar vörur eftir UN/SPCS kerfinu.

Nú þegar hafa til dæmis Flugleiðir hafið notkun á kerfinu í rafrænum viðskiptum sínum, þótt þýðingu á kerfinu sé ekki að fullu lokið.

Rúnar segir að Netis muni leita eftir samstarfi við aðila á borð við Verslunarráð og Staðlaráð, meðal annars með það í huga að óska eftir flokkum sem henta íslensku atvinnulífi. "Við erum þá sérstaklega að horfa á atvinnugreinar eins og sjávarútveg, sem er stór hluti af atvinnulífinu hér." Rafrænn viðskiptavettvangur Netis fyrir fyrirtæki var formlega opnaður í byrjun júlí, en að fyrirtækinu standa Flugleiðir, Opin kerfi, Olís og hugbúnaðarfyrirtækið Teymi.