Heldur hafði sjatnað í Krossá á sunnudaginn. Áin var engu að síður mjög vatnsmikil.
Heldur hafði sjatnað í Krossá á sunnudaginn. Áin var engu að síður mjög vatnsmikil.
HLÝINDI og mikil úrkoma hafa valdið því að ár og lækir hafa víða vaxið að undanförnu. Heldur hefur sjatnað í ám í Þórsmörk eftir mikla vatnavexti um helgina. Hlýindi hafa valdið vexti í ám víða á hálendinu.

HLÝINDI og mikil úrkoma hafa valdið því að ár og lækir hafa víða vaxið að undanförnu. Heldur hefur sjatnað í ám í Þórsmörk eftir mikla vatnavexti um helgina. Hlýindi hafa valdið vexti í ám víða á hálendinu.

Úrkoma í Þórsmörk var með því allra mesta sem gerist eða 46 mm á einum sólarhring. Vikuna á undan rigndi einnig mikið og um helgina hljóp mikill vöxtur í ár og læki.

Engin óhöpp í Þórsmörk

Helgin var þó óhappalaus þó svo að áætlanir ferðafólks hafi eflaust farið eitthvað úr skorðum. Hætt var við brúðkaupsveislu í Þórsmörk og í stað þess að fjallamaraþoninu lyki í Þórsmörk lauk því í Fljótshlíð. Kjartan Kjartansson skálavörður í Húsadal segir að árnar á leiðinni inn í Þórsmörk séu talsvert skornar og mikið um stórgrýti í þeim eftir vatnavextina undanfarið. Vegir grófust í sundur og víða eru árbakkar brattir. Vöð hafa ennfremur breyst. Kjartan segir að vart sé fært fyrir litla jeppa en færðin skáni um leið og viðgerðum lýkur. Kjartan hvetur ferðafólk til að hafa samband við skálaverði áður en lagt er í árnar, eitt símtal geti sparað mikil vandræði. Hjá skálavörðum er hægt að fá aðstoð og leiðbeiningar um vöð og ástand vega. Jarðýta Vegagerðarinnar vann að því í gær að lagfæra veginn inn í Þórsmörk. Árbakkar voru ruddir til að auðvelda bifreiðum að komast yfir árnar.

Vatnavextir víða á hálendinu

Gylfi Júlíusson, rekstrarstjóri Vegagerðarinnar í Vík í Mýrdal, segir vegakerfið hafa þolað vatnavextina að mestu. Vegagerðin var við öllu búin vegna vatnsveðursins en skemmdir urðu ekki miklar. Vegurinn að Skógum fór í sundur á tímabili en svo heppilega vildi til að Vegagerðin var við það að ljúka við bráðabirgðaleið vegna viðgerða á brúnni yfir Kvernu. Umferðinni var því beint um hann. Vegurinn að Sólheimajökli fór því sem næst í sundur vegna vatnavaxtanna en hann var lagfærður í gær.

Vegagerðarmenn höfðu í nógu að snúast um helgina. Ár eru víða vatnsmiklar vegna hlýinda og rigninga. Sérstaklega er mikið í ám seinni part dags. Jökulsá á Fjöllum er mjög vatnsmikil og eins og stendur er ekki fært í Herðubreiðarlindir að austan nema fyrir stóra jeppa. Kjalvegur er aðeins fær bílum með drifi á öllum hjólum. Vegurinn í Hrafntinnusker er ófær og Kjalvegur er aðeins fær bílum með drifi á öllum hjólum á Bláfellshálsi. Ekki er talið fært einsdrifsbílum um Krepputungu en þar hamlar þurr foksandur för.