BÆJARYFIRVÖLD í Hafnarfirði og Kópavogi hafa ákveðið að nýta að fullu forkaupsrétt sinn til aukningar hlutafjár í fyrirtækinu Jarðlind ehf., sem hefur það að markmiði að rannsaka og nýta jarðhita í Trölladyngju.

BÆJARYFIRVÖLD í Hafnarfirði og Kópavogi hafa ákveðið að nýta að fullu forkaupsrétt sinn til aukningar hlutafjár í fyrirtækinu Jarðlind ehf., sem hefur það að markmiði að rannsaka og nýta jarðhita í Trölladyngju. Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, sem einnig á hlut í Jarðlind, sagði að vonir stæðu til þess að Trölladyngjusvæðið væri ekki síðra jarðhitasvæði en Svartsengi.

Júlíus sagði að verið væri að auka hlutafé í Jarðlind um 150 milljónir króna og að hlutaféð yrði nýtt til að fjármagna boranir og rannsóknir á Trölladyngjusvæðinu.

Miklar vonir bundnar við fyrirtækið

Hafnarfjarðarbær á um 30% í fyrirtækinu og þarf því að greiða um 45 milljónir króna en Kópavogsbær á aðeins tæplega 7% og greiðir því um 10 milljónir. Garðabær og Bessastaðahreppur, sem báðir eiga tæplega 7% hlut hafa ekki tekið ákvörðun um það hvort þeir hyggist nýta forkaupsréttinn.

Auk bæjarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu sunnan Reykjavíkur á Hitaveita Suðurnesja um 40% hlut í fyrirtækinu og Jarðboranir um 10% hlut.

Júlíus sagði að Hitaveitan hygðist nýta forkaupsrétt sinn og að hún myndi auka hlutafé sitt ef aðrir myndu ekki nýta sinn forkaupsrétt.

Að sögn Júlíusar binda menn miklar vonir við Jarðlind, sem var stofnuð í lok árs 1998, og rannsóknir hennar í Trölladyngju. Umfangsmiklar yfirborðsrannsóknir hafa þegar átt sér stað á svæðinu og sagði Júlíus að nú væru menn að fara að bora og að þá myndi koma í ljós hvort á svæðinu væri að finna vatn að jarðsjó til að flytja varmann í nægjanlegum mæli.

Byrjað að bora seint í haust

Að sögn Júlíusar verður líklega byrjað að bora seint í haust og sagði hann að framhaldið myndi ráðast eftir það. Hann sagði of snemmt að svara því hvort þarna myndi rísa virkjun í náinni framtíð, þar sem eftir ætti að rannsaka svæðið betur. Þá sagði hann að ef reisa ætti virkjun þyrfti að tryggja ýmis leyfi og að slíkt ferli væri ekki farið af stað. Líklega myndi virkjun því ekki rísa á staðnum fyrr en í fyrsta lagi eftir nokkur ár ef allt gengi að óskum.

Aukin orkuframleiðsla

Síðastliðinn vetur tók Hitaveita Suðurnesja í gagnið nýja orkuveitu við Svartsengi. Nýja vélasamstæðan framleiðir 30 Mw. Fyrir voru framleidd 16,5 Mw af raforku á svæðinu en um leið og nýja samstæðan var tekin í notkun var framleiðslu hætt í tveimur 1 Mw vélum. Raforkuframleiðslan á Svartsengi er því um 45 Mw.