SKÓGRÆKTARFÉLAG Reykjavíkur hefur átt í viðræðum við Reykjavíkurborg um að borgin flytji ræktunarstöð sína úr Laugardal í Fossvogsdalinn og stækki jafnframt aðstöðu fyrir almenning í Laugardalnum.

SKÓGRÆKTARFÉLAG Reykjavíkur hefur átt í viðræðum við Reykjavíkurborg um að borgin flytji ræktunarstöð sína úr Laugardal í Fossvogsdalinn og stækki jafnframt aðstöðu fyrir almenning í Laugardalnum. "Ég held að allir Reykvíkingar hljóti að fagna þessari þróun. Reykjavíkurborg stækkar þarna almennan fólkvang í Laugardalnum og má segja að borgaryfirvöld séu að svara kalli tímans um opin svæði," segir Þórður Þórðarson formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Rekstur Fossvogsstöðvarinnar var sameinaður gróðrarstöðinni Barra fyrir 2 árum og á Skógræktarfélagið nú 25% hlut í Barra. Barri hefur verið með ræktunaraðstöðu í stöðinni í rúmt ár en sagði upp leigusamningi sínum í byrjun júlí, eins og fram kom í Morgunblaðinu á laugardag, þar sem reksturinn hafði ekki gengið vel.

Græn miðstöð í Fossvogsdalnum

Að sögn Þórðar er gríðarlegur plöntulager í stöðinni og ekki er ljóst hvort Reykjavíkurborg muni leysa hann til sín. "Ef ekki verður af því munum við fá einhvern rekstraraðila til þess að sjá um að selja lagerinn fyrir okkur," segir Þórður en Blómaval hefur verið með plöntusölu í stöðinni síðastliðið ár og mun halda því áfram að minnsta kosti út þetta ár.

Þórður sér fyrir sér að í framtíðinni verði ræktunarstöð Reykjavíkurborgar í Fossvogsdalnum, auk þess sem vefjaræktun Skógræktarfélagsins muni verða þar áfram. "Við höfum einnig hugmyndir um að byggja skrifstofuhúsnæði á svæðinu sem yrði nokkurs konar græn miðstöð fyrir þá aðila sem koma að skógrækt og uppgræðslu í landinu," segir Þórður.