Pútín, forseti Rússlands, er enn nokkur ráðgáta í augum Vesturlandabúa. Er markmið Pútíns að koma á eðlilegri reglu og viðunandi stjórnsemi í Rússlandi eftir að þetta volduga ríki hefur tekið fyrstu skrefin í átt til lýðræðislegra stjórnarhátta?

Pútín, forseti Rússlands, er enn nokkur ráðgáta í augum Vesturlandabúa. Er markmið Pútíns að koma á eðlilegri reglu og viðunandi stjórnsemi í Rússlandi eftir að þetta volduga ríki hefur tekið fyrstu skrefin í átt til lýðræðislegra stjórnarhátta? Eða er fyrrverandi foringi í KGB að vinna skipulega að því að koma á einræðiskenndum stjórnarháttum á nýjan leik? Svarið við þessum spurningum liggur ekki í augum uppi.

Viðskiptajöfrarnir, sem sölsuðu undir sig gríðarleg auðæfi á fyrstu árum hins rússneska lýðræðis telja nú að aðgerðir Pútíns gegn þeim séu til marks um að hann vilji innleiða einræði og kúgun á nýjan leik. En er nokkuð óeðlilegt að lýðræðislega kjörinn forseti Rússlands geri tilraun til að tryggja að lög nái til viðskiptajöfranna ekki síður en almennra borgara? Almenningur í Rússlandi hlýtur að fyllast reiði yfir því að fámennur hópur manna hafi náð til sín með pólitískum samböndum, lögbrotum og spillingu gífurlegum eignum. Og hvað er eðlilegra en að lýðræðislega kjörinn fulltrúi fólksins fylgi umboði sínu frá þjóðinni eftir með því að gera tilraun til að koma böndum á viðskiptajöfrana?

Rússneski forsetinn er líka að reyna að ná tökum á héraðshöfðingjunum, sem í mörgum tilvikum stjórna á sínum svæðum eins og einræðisherrar og hafa stefnu og óskir stjórnvalda í Moskvu að engu. Er eitthvað óeðlilegt við það, að lýðræðislega kjörinn forseti og lýðræðislega kjörið þing vilji hafa stjórn landsins í sínum höndum?

Aðgerðir Pútíns gagnvart viðskiptajöfrunum og héraðshöfðingjunum eru frá almanna sjónarmiði eðlilegar - a.m.k. á yfirborðinu.

Það er hins vegar bakgrunnur Pútíns í KGB, sem veldur því, að margir gruna hann um græzku og eiga erfitt með að trúa því, að á bak við herferð hans gegn spilltum viðskiptajöfrum og einræðissinnuðum héraðshöfðingjum liggi ekki önnur áform, sem miði að því að draga úr lýðræðisþróuninni í Rússlandi.

Vesturlönd almennt og Evrópuríkin sérstaklega eiga mikið undir því, að lýðræðið í Rússlandi verði treyst í sessi. Það verður ekki friður í Evrópu nema Rússum vegni vel og að samskipti þeirra við nágrannaríkin verði jákvæð. Rússar geta líka lagt mikið af mörkum til þess að tryggja frið í Evrópu. Þannig er ljóst, að Rússar geta haft mikil áhrif á Balkanskaganum og hafa sennilega átt mikinn þátt í því, að friður komst á í kjölfar loftárása Atlantshafsbandalagsríkjanna.

Það skiptir líka máli, að Rússum sjálfum finnist þeir búa við öryggi. Mörg NATO-ríkjanna hafa áhyggjur af því að aðild Eystrasaltsríkjanna að Atlantshafsbandalaginu leiði til verri samskipta við Rússland. Aðild þessara ríkja að NATO mun hins vegar ekki valda Rússum áhyggjum, ef þeir eru sjálfir öruggir um sína stöðu.

Ef tortryggni á Vesturlöndum í garð Pútíns fer vaxandi á næstu misserum má búast við að hún endurspeglist m.a. í ákvörðunum á sviði varnar- og öryggismála. Með sama hætti er líklegt að Rússar tækju slíkt óstinnt upp og það mundi enn auka á tortryggni þeirra sjálfra.

Þess vegna er fátt mikilvægara á alþjóðavettvangi um þessar mundir en að samskipti Rússlands og Vesturlanda verði aukin með það að markmiði að tryggja að tortryggni hvors í garð annars gjósi ekki upp á nýjan leik.

AUKIN VIÐSKIPTI LEYFÐ VIÐ KÚBU

Um fjörutíu ára skeið hafa Bandaríkjamenn beitt viðskiptabanni á kommúnistastjórn Fidels Kastrós á Kúbu. Árangur viðskiptabannsins hefur ekki verið sá, sem bandarísk stjórnvöld og þingmenn stefndu að, þ.e. að hrekja einræðisstjórn Kastrós frá völdum. Hún hefur verið þeim mikill þyrnir í augum, ekki sízt vegna öryggis Bandaríkjanna. Á ýmsu hefur gengið í samskiptum landanna eins og þegar Sovétstjórnin kom upp langdrægum kjarnorkuflaugum á eynni í upphafi sjöunda áratugarins. Kúbudeilan, sem fylgdi í kjölfarið, er talin hafa fært stórveldin nær því en á öðrum tíma að grípa til kjarnorkuvopna. Á síðustu stundu tókst þeim John F. Kennedy, Bandaríkjaforseta, og Nikita Krustjov, leiðtoga Sovétríkjanna, að ná samkomulagi, sem kom í veg fyrir styrjöld. Eldflaugarnar voru fluttar á brott.

Ró hefur smátt og smátt komizt á í sambúð Bandaríkjanna og Kúbu, ekki sízt eftir hrun sovétveldisins, sem hélt stjórn Kastrós á floti með mikilli og víðtækri efnahagsaðstoð.

Allt frá valdatöku Kastrós hefur verið gífurlegur fólksflótti frá Kúbu til Bandaríkjanna og mynda flóttamennirnir öflugan þrýstihóp í landinu. Styrkur þeirra kom berlega í ljós nýlega vegna deilunnar um kúbanska flóttadrenginn Elian Gonzales.

Þótt mikil fátækt ríki á Kúbu virðist ekkert ógna stjórn Kastrós.

Deilur hafa verið um það á Bandaríkjaþingi um árabil, hvort afnema eigi viðskiptabannið á Kúbu eða ekki. Á það hefur m.a. verið bent, að bannið hafi ekki náð tilgangi sínum og bitni aðeins á saklausum almenningi. Nokkuð hefur verið slakað á banninu síðustu árin og nú fyrir helgina samþykkti fulltrúadeild Bandaríkjaþings með allmiklum mun (232 atkvæðum gegn 186) að aflétta ferðabanni og með enn meiri mun (301 atkvæðum gegn 116) að aflétta höftum á sölu mavæla og lyfja.

Þessi samþykkt þingsins er tímabær, enda er ekki með neinum rökum hægt að halda því fram lengur, að Kúba ógni öryggi Bandaríkjanna. Miklu líklegra er, að frjáls viðskipti og heimsóknir ferðamanna flýti fyrir þróun í lýðræðisátt.