Árni Gautur Arason.
Árni Gautur Arason.
ÁRNI Gautur Arason sá til þess að Rosenborg héldi tíu stiga forskoti sínu á Brann í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar liðin skildu jöfn, 1:1, í toppslag deildarinnar í Bergen á sunnudaginn.

ÁRNI Gautur Arason sá til þess að Rosenborg héldi tíu stiga forskoti sínu á Brann í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar liðin skildu jöfn, 1:1, í toppslag deildarinnar í Bergen á sunnudaginn. Árni Gautur var besti maður vallarins, varði mark Rosenborg af snilld, og 10 mínútum fyrir leikslok kom hann í veg fyrir sigurmark Brann á ótrúlegan hátt. Azer Karadas átti þá hörkuskalla á mark Rosenborg af fimm metra færi, mark virtist óumflýjanlegt en á óskiljanlegan hátt, að sögn norskra fjölmiðla, tókst Árna að slá boltann í horn.

Ég skil ekki hvernig hann varði þennan skalla og ég var byrjaður að fagna marki. Það er ótrúlega súrt að nýta ekki svona færi," sagði Karadas.

"Það er enginn tími til að hugsa í svona stöðu. Þetta er bara spurning um viðbrögð," sagði Árni Gautur við Nettavisen.

Teitur Þórðarson, þjálfari Brann, var að vonum óhress með að ná ekki að sigra en þetta var annað jafntefli liðanna á tímabilinu. Brann á þó tvo leiki til góða og getur minnkað forskotið niður í fjögur stig.

"Við gefumst ekki upp en það verður erfitt að ná meistaratitlinum af Rosenborg eftir þessi úrslit. Við þurfum hjálp frá öðrum liðum sem verða að sigra Rosenborg, og það gerist vonandi. Eini munurinn á okkar liði og þeirra er sá að þeir sýna meiri stöðugleika í leikjum sínum," sagði Teitur við VG.

Tryggvi heldur áfram að skora

Tryggvi Guðmundsson skoraði níunda mark sitt í deildinni í ár þegar Tromsö vann Bryne á útivelli, 3:2. Tromsö komst í 3:0 á sex mínútna kafla í síðari hálfleik og Tryggvi gerði annað markið. Hann er nú næstmarkahæstur í deildinni ásamt John Carew hjá Rosenborg en Thorstein Helstad hefur gert 11 mörk fyrir Brann.

Viking vann Íslendingaslaginn við Lilleström á útivelli, 1:0. Ríkharður Daðason lék ekki með Viking vegna meiðsla en Auðun Helgason spilaði allan leikinn. Rúnar Kristinsson fór af velli korteri fyrir leikslok hjá Lilleström og Grétar Hjartarson kom inn á undir lok leiksins.

Pétur Marteinsson og félagar í Stabæk töpuðu heima fyrir Odd Grenland, 1:2, og lék Pétur í vörninni. Stabæk gengur ótrúlega illa með Odd því liðið hefur tapað öllum fjórum viðureignum félaganna í úrvalsdeildinni.