Heimir Hallgrímsson þjálfari ÍBV var ekki upplitsdjarfur í leikslok. "Við ætluðum okkur að fara í bikarúrslitaleikinn. Við vorum búin að undirbúa okkur vel fyrir leikinn og ætluðum að selja okkur dýrt en það bara gekk ekki í dag, svo einfalt er það.

Heimir Hallgrímsson þjálfari ÍBV var ekki upplitsdjarfur í leikslok. "Við ætluðum okkur að fara í bikarúrslitaleikinn. Við vorum búin að undirbúa okkur vel fyrir leikinn og ætluðum að selja okkur dýrt en það bara gekk ekki í dag, svo einfalt er það. Dómarinn gerir alveg fáránleg mistök í leiknum og viðurkennir þau sjálfur og upp úr því komast þær upp völlinn og skora. Þannig að það er alveg sárgrætilegt þegar leikurinn fer 1:0 að dómarinn skuli eiga þátt í markinu. Þetta er bara enn ein himnasendingin sem KSÍ sendir okkur í kvennaknattspyrnunni.

Ekkert þeirra sæta sem í boði er á Íslandsmótinu sæmir getu liðsins. Þó allir séu sammála um að ÍBV sé að spila skemmtilega knattspyrnu þá er það ekki nóg. Það hlýtur að vera lélegt fyrir þjálfara að vera með besta liðið, vera betri aðilinn í öllu leikjum og skapa sér helmingi fleiri færi en andstæðingarnir og ná aldrei að nýta sér alla þessa yfirburði. Hvað er hægt að segja annað við stuðningsmenn ÍBV en afsakið ef það er einhver huggun í því," sagði Heimir Hallgrímsson þjálfari ÍBV eftir leikinn á sunnudaginn.

Þjálfari Blikastúlkna, Jörundur Áki Sveinsson, var kátur í leikslok: "Þetta var mjög erfitt í dag. Við vorum að hamast við vindinn líkt og Eyjastelpur og boltinn datt í markið í eitt skiptið og það dugði okkur til sigurs. Það er virkilega erfitt að koma til Eyja og sækja hér sigur því þær eru með hörkulið. Við komum hér í júní í deildinni og vorum heppin með að ná hér jafntefli þannig að við vissum að leikurinn í dag yrði erfiður. Mikið var í húfi fyrir bæði lið en sigurinn datt okkar megin í dag og ég get ekki annað en verið sáttur," sagði Jörundur Áki þjálfari Blikastúlkna.

Sigrún Óttarsdóttir fyrirliði Blikastúlkna hafði þetta að segja í leikslok: "Aðstæðurnar voru mjög erfiðar í dag, mikill vindur og erfitt að halda boltanum niðri. Fyrri hálfleikurinn hjá okkur fór nánast í það að verjast en í síðari hálfleik ætluðum við að nýta okkur vindinn vel. Þannig að ég er virkilega ánægð með að vera komin í úrslitaleikinn í bikarnum, en við þurftum svo sannarlega að hafa fyrir hlutunum. Eyjastúlkur eru með virkilega sterkt lið og þær hafa verið að stríða efstu liðum með því að hirða af þeim stig þannig að ég get ekki verið annað en ánægð í dag," sagði Sigrún.

Skapti Örn Ólafsson skrifar