Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, og Dorrit Moussaieff heilsa upp á gesti í skrúðgarðinum á Húsavík.
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, og Dorrit Moussaieff heilsa upp á gesti í skrúðgarðinum á Húsavík.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FORSETI Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sagði í ávarpi sínu á 50 ára afmæli Húsavíkurkaupstaðar sl. laugardag að hann skynjaði sóknarhug og bjartsýni í bæjarbúum þrátt fyrir að Húsavík hafi orðið fyrir miklum áföllum.

FORSETI Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sagði í ávarpi sínu á 50 ára afmæli Húsavíkurkaupstaðar sl. laugardag að hann skynjaði sóknarhug og bjartsýni í bæjarbúum þrátt fyrir að Húsavík hafi orðið fyrir miklum áföllum. Nýjar hugmyndir í atvinnulífi og menningu séu að búa bæinn og nýja kynslóð vel og dyggilega undir framtíðina. Það væri byggðastefna sem ekki byggðist fyrst og fremst á opinberum fjármunum eða framkvæmdum heldur byggðastefna sem byggðist á þeim auði sem fólginn er í fólkinu sjálfu, hugmyndum þess, sóknarhug og krafti.

Fóru í hvalaskoðunarferð

"Húsavík hefur nú þegar skipað sér í framvarðasveit íslenskrar ferðaþjónustu, þeirrar atvinnugreinar sem sérfræðingar víða um veröld telja verða vaxtarbrodd efnahagslífs heimsins á nýrri öld. Þið hafið með framtaki ykkar sýnt öðrum landsmönnum hvert á að halda."

Forseti Íslands og heitkona hans, Dorrit Moussaieff, luku heimsókn sinni til Húsavíkur í hvalaskoðunarferð um Skjálfandaflóa. Siglt var á Knerrinum, fyrsta hvalaskoðunarbát Norðursiglingar, en með í för voru m.a. Halldór Blöndal, forseti Alþingis, Reinhard Reynisson, bæjarstjóri á Húsavík, Halldór Kristinsson sýslumaður, nokkrir bæjarfulltrúar og makar. Siglt var norður að Lundey, þar sem fuglalífið var skoðað og skammt þar frá sýndu nokkrar hrefnur sig, gestum til mikillar ánægju.

Forsetinn og fylgdarlið dvöldu heilan dag á Húsavík en dagskráin hófst í nýrri orkustöð Orkuveitu Húsavíkur, þar sem Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ræsti búnaðinn í hinni nýju stöð.

Frá orkustöðinni var haldið í Húsavíkurkirkju, þar sem séra Sighvatur Karlsson sóknarprestur tók á móti gestum. Þar afhenti forseti Íslands Láru Sóleyju Jóhannsdóttur styrk úr Friðrikssjóði, sem ætlað er að styðja við bakið á ungu og hæfileikaríku tónlistarfólki. Ólafur Ragnar afhenti einmitt Láru Sóleyju hvatningarverðlaun forseta Íslands í opinberri heimsókn sinni til Húsavíkur árið 1997.

Eftir að hafa skoðað Hvalasafnið á Húsavík fóru forseti og fylgdarlið í skrúðgarðinn, þar sem 50 ára Húsvíkingar afhjúpuðu listaverk í garðinum í tilefni dagsins. Í Safnahúsinu skoðuðu gestir ljósmyndasýningu sem sett var upp í tilefni afmælisins og nutu þar leiðsagnar Guðna Halldórssonar, forstöðumanns safnsins. Áður en haldið var til hátíðardagskrár í Íþróttahöllinni, heilsuðu forseti og fylgdarlið upp á vistmenn á Hvammi, dvalarheimili aldraðra.

Í Íþróttahöllinni var fjölbreytt dagskrá fyrir fullu húsi gesta. Reinhard Reynisson bæjarstjóri setti hátíðina en síðan fluttu ávörp, forseti Íslands, Halldór Blöndal, forseti Alþingis og fyrsti þingmaður Norðurlandskjördæmis eystra, og Friðfinnur Hermannsson, formaður afmælisnefndar.

Á laugardagskvöldið fjölmenntu Húsvíkingar og gestir þeirra, ungir sem aldnir, niður að höfn, þar sem húsvískar hljómsveitir, með Greifana í broddi fylkingar, skemmtu fram á nótt.