Sverrir Sverrisson, leikmaður Fylkis, rennir sér í gegnum vörn Leifturs, til varnar eru Júlíus Tryggvason og Albert Arason.
Sverrir Sverrisson, leikmaður Fylkis, rennir sér í gegnum vörn Leifturs, til varnar eru Júlíus Tryggvason og Albert Arason.
FYLKISMENN létu ekki setja sig út af laginu þótt þeir hafi tapað fyrsta leik sínum í deildinni í tíundu umferðinni því í þeirri elleftu kjöldrógu þeir Leiftursmenn í Ólafsfirði með sjö mörkum gegn einu og ætla síður en svo að gefa toppsætið eftir.

Allar aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru hinar ákjósanlegustu í Ólafsfirði á sunnudagskvöldið og áhorfendur talsvert fleiri en á síðustu leikjum þar. Heimamönnum var hins vegar lítt skemmt lengst af en hópur stuðningsmanna Fylkis var aftur á móti léttari í skapi. Þeirra menn hófu leikinn betur og voru meira með boltann. Fyrsta hálftímann áttu gestirnir þrjú skeinuhætt markskot, áður en Sverrir Sverrisson skoraði fyrsta markið gegn sínum gömlu félögum. Aðeins fjórum mínútum síðar komst Hörður Már Magnússon, Leiftursmaður, í dauðafæri eftir góða sendingu Johns Petersens en Kjartan Sturluson bjargaði vel með úthlaupi. Þetta var aðeins annað tveggja markskota Leifturs í fyrri hálfleik og staðan í leikhléi var 1:0 Fylki í vil.

Í seinni hálfleik fóru hlutirnir að gerast og þótt leikurinn spilaðist svipað og í fyrri hálfleik þá fór mörkunum skyndilega að rigna. Sverrir skoraði úr víti eftir átta mínútna leik í seinni hálfleik en rétt á undan náðu Fylkismenn að bjarga á síðustu stundu eftir að Kjartan missti boltann eftir hornspyrnu Leifturs. Tíu mínútum síðar náði Sverrir þrennunni en þurfti síðan að yfirgefa völlinn vegna meiðsla stuttu síðar. Áfram hélt Fylkir að sækja og vörn Leifturs var eins og gatasigti. Stundarfjórðung tók að skora næstu þrjú mörk og á þessum rúma hálftíma skoruðu gestirnir nánast úr hverju skoti. Santos lagaði stöðuna fyrir Leiftur en Fylkir náði að kvitta fyrir það undir lokin. Lokatölur 7:1 Fylki í vil og víst er að bæði heimamenn og gestir áttu erfitt með að trúa markatöflunni, því með eðlilegri nýtingu færa hefði munurinn orðið minni.

Það sem fyrst og fremst skildi á milli liðanna í þessum leik var að Fylkismenn vissu allan tímann hvað þeir ætluðu að gera og hvernig þeir ætluðu að gera það. Þeir vörðust vel og gáfu Leiftursmönnum engan frið á miðjunni og voru snöggir að sækja upp völlinn, oft með 4-5 menn í fremstu víglínu í skyndisóknum. Leikmenn Leifturs voru hins vegar heillum horfnir, þeir voru staðir, áhugalitlir og virtust ekki með á hreinu hvað þeir voru að gera. Vörnin opnaðist oft illa, og var Hlyns Birgissonar sárt saknað þar en hann lék ekki vegna meiðsla, Jens Martin var mjög slakur í markinu og miðjan var varla með, þannig að sóknarmennirnir sáust hreinlega ekki. Eini maðurinn sem reyndi að spila boltanum var Páll V. Gíslason en það var oft erfitt fyrir hann að finna samherja til að gefa á.

Fylkisliðið var eins og vel smurð vél, þar sem hvert tannhjól vann sitt verk. Að öðrum mönnum ólöstuðum var Sverrir Sverrisson þeirra fremstur; fyrir utan mörkin þrjú er hann liðinu gríðarlega mikilvægur á miðjunni. Gylfi Einarsson gerði líka góða hluti þar og vann vel. Sóknarmenn voru sprækir og vörnin traust. Í þessum leik gekk allt upp hjá liðinu og slíkt hefur gjarnan loðað við lið sem stundum eru kölluð meistarakandídatar.

Valur Sæmundsson skrifar