Nýja kirkjan og Snorrastofa setja sterkan svip á Reykholt.
Nýja kirkjan og Snorrastofa setja sterkan svip á Reykholt.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Formleg afhending á Snorrastofu fer fram á Reykholtshátíð um næstu helgi. Norðmenn hafa stutt verkefnið af heilum hug allt frá því Ólafur Hákonarson Noregskonungur færði Íslendingum þjóðargjöf Norðmanna til Snorrastofu 6. september 1988.

FORMLEG afhending á húsnæði Snorrastofu verður í Reykholtskirkju næstkomandi laugardag að viðstöddum forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, Haraldi V. Noregskonungi og Sonju, drottningu Noregs. Afhendingin fer fram á öðrum degi Reykholtshátíðar sem stendur dagana 28.-30. júlí. Efnt var til blaðamannafundar í Reykholtskirkju í gær þar sem hátíðardagskrá í tilefni af þessum viðburði var kynnt. Reykholtshátíð hefst að þessu sinni með opnunartónleikum nk. föstudagskvöld kl. 21 og þar leikur Vertavo strengjakvartettinn kvintett eftir Schubert ásamt Bryndísi Höllu Gylfadóttur. Vertavo kvartettinn er einn þekktasti strengjakvartett í Evrópu og hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir leik sinn. Önnur tónlistaratriði á Reykholtshátíð verða tónleikar að kvöldi laugardags þar sem Hanna Dóra Sturludóttir sópran og Steinunn Birna Ragnarsdóttir píanóleikari flytja nýjar útsetningar á íslenskum sönglögum eftir Árna Harðarson. Lokatónleikar verða á sunnudag kl. 16 þegar Hanna Dóra ásamt strengjakvartett, sem skipaður er Grétu Guðnadóttur og Sigurlaugu Eðvaldsdóttur fiðluleikurum, Guðmundi Kristmundssyni lágfiðluleikara og Bryndísi Björgvinsdóttur sellóleikara, flytur meðal annars ljóðaflokk eftir Mendelsohn. Listrænn stjórnandi tónlistarhátíðarinnar er Steinunn Birna Ragnarsdóttir.

Vísir að bókasafni frá 1930

Formleg afhending á húsnæði Snorrastofu fer fram í Reykholtskirkju kl. 14 á laugardag. Kirkjukórinn syngur Heyr himna smiður. Geir Waage, sóknarprestur í Reykholti, segir að flutningur þess sálms hafi fylgt þessu verkefni frá fyrstu tíð. Hann hafi verið sunginn þegar fyrsta skóflustungan var tekin, þegar hornsteinn var lagður að kirkjunni og þegar hún var vígð. Fulltrúi Norðmanna, konsúllinn í Björgvin, mun afhenda bók með nöfnum Norðmanna sem lagt hafa lið söfnun fyrir byggingu Snorrastofu og Björn Bjarnason menntamálaráðherra tekur á móti bókinni. Að því loknu flytja Hanna Dóra Sturludóttir, Bryndís Halla Gylfadóttir, Steinunn Birna Ragnarsdóttir og fleiri nýtt frumsamið verk eftir Þorkel Sigurbjörnsson við texta eftir Snorra Sturluson. Verkið pantaði Reykholtssöfnuður sérstaklega í tilefni af opnun Snorrastofu.

Að lokinni athöfn í Reykholtskirkju verður gengið að Snorrastofu þar sem forseti Íslands og Noregskonungur afhjúpa áletrun yfir dyrum að Snorrastofu. Þessum þætti dagskrárinnar á að vera lokið um kl. 15.30 og kl. 16 hefst flutningur leikgerðar á Kristkonungunum eftir Johannes Heggland, sem fjallar um kristnitökuna í Noregi. Það er ríflega eitt hundrað manna leikflokkur frá eyjunni Mostri sem leikur verkið í Snorragarði í boði Kristnihátíðarnefndar og Norðmanna. Leikið er undir berum himni og enginn aðgangseyrir er. Leikararnir eru allir íbúar eyjarinnar Mostru. Söguleikurinn hefur verið fluttur þar á hverju ári síðastliðin ár. Júlíus Hafstein, framkvæmdastjóri Kristnihátíðarnefndar, sagði að þetta væri þekktur söguleikur frá Noregi. Hann sagði að á þriðja hundrað Norðmenn yrðu á staðnum, jafnt flytjendur og sveitarstjórnarmenn í Noregi sem hefðu lagt lið við byggingu Snorrastofu. Rauði þráðurinn í Reykholtshátíð að þessu sinni væri hið mikla samstarf milli Reykholts og Norðmanna og hvernig Reykholt styrkir þá þræði sem tengja Íslendinga frændum sínum í Noregi.

Geir gerði grein fyrir byggingarsögu kirkjunnar og Snorrastofu. Hann sagði að söfnuður Reykholtskirkju hefði ráðist í það á árinu 1988 að reisa nýja kirkju á staðnum. Garðar Halldórsson, húsameistari ríkisins, teiknaði húsin. Jafnframt hafi verið safnað saman öllum þeim hugmyndum sem komið hafa fram í áranna rás um þá aðstöðu sem þyrfti að vera í Reykholti, þar á meðal bókasafns.

Árið 1930 kom vísir að bókasafni í Reykholti. Upphafsmaður þess var Einar Hilsen, Bandaríkjamaður af norskum ættum, sem var fulltrúi Norður-Dakotafylkis á Alþingishátíðinni 1930. Hann var mikill áhugamaður um Snorra Sturluson og gaf hingað safn af ýmsum útgáfum af verkum Snorra. Einnig skrifaði hann forleggjurum sem fengust við útgáfu á verkum Snorra og hafði forgöngu um að þeir sendu bækur með verkum Snorra til Reykholts. Rétt fyrir 1940 var bókasafn Tryggva Þórhallssonar forsætisráðherra keypt og er þetta vísirinn að því bókasafni sem hefur verið til í Reykholti. Ákveðið var að reisa bókhlöðu í Reykholti í tengslum við kirkjuna til þess að halda uppi nafni Snorra Sturlusonar með því að hafa til sýnis helstu útgáfur af verkum hans frá 1930. Önnur bókasöfn sem Snorrastofu hefur borist að gjöf eru bókasafn dr. Jakobs Benediktssonar, bókasafn Guðmundar G. Hagalíns rithöfundar, bókasafn gamla Héraðsskólans í Reykholti, hluti af safni Þórarins Sveinssonar læknis og hluti af safni Guðjóns Ásgrímssonar. Auk þess hefur Snorrastofu verið gefinn fjöldi bóka. Jafnframt var ákveðið að hrinda í framkvæmd hugmyndum sem fæddust við komu handritanna frá Kaupmannahöfn til Íslands um að nauðsynlegt væri að hafa aðstöðu fyrir innlenda og erlenda fræði- og vísindamenn til að dvelja við vinnu og rannsóknir í Reykholti. Í Snorrastofu hefur verið innréttuð íbúð fyrir gestkomandi fræði-, vísinda- og listamenn sem er inn af bókhlöðunni og innangengt er á milli.

Á jarðhæð kirkjunnar er safnaðarsalur þar sem eru sýningar á sumrin á vegum Snorrastofu. Sýningin sem nú er opin fjallar um sögu Snorra Sturlusonar og samtíðarmanna hans.

Nýja kirkjan vígð 23. september 1995

Geir segir að mikið hafi verið lagt upp úr því að Reykholtskirkja nýttist vel sem tónlistarhús og er salurinn sérstaklega hannaður með tilliti til hljómburðar.

Á hvítasunnudag 1988 tók þáverandi biskup yfir Íslandi, herra Pétur Sigurgeirsson, fyrstu skóflustunguna að byggingu Reykholtskirkju og Snorrastofu og 6. september sama ár lagði þáverandi forseti Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir, hornstein að kirkjunni og stofnuninni að viðstöddum Ólafi Hákonarsyni Noregskonungi sem þá var í sinni síðustu utanlandsferð. Við það tækifæri afhenti hann þjóðargjöf Norðmanna til Snorrastofu, eina milljón norskra króna. Snorrastofu var formlega komið á fót með undirritun stofnskrár 23. september 1995 og hóf stofnunin störf með undirritun starfssamnings ríkis og aðila í héraði um rekstur hennar. Nýja kirkjan var vígð sama dag. Þennan dag var einnig ferðaþjónustunni Heimskringlu komið á fót í nýju byggingunni.

Geir sagði að ljóst hefði verið frá upphafi að 300 manna söfnuður réði ekki við að kosta byggingu húsanna, sem kostuðu fullbúin rúmlega 200 milljónir kr. Leitað var til einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og ríkisins bæði hér á Íslandi og í Noregi um hjálp við framkvæmdirnar. Í september 1998 var skrifstofa Snorrastofu opnuð í kjölfar ráðningar Bergs Þorgeirssonar forstöðumanns. Til bráðabirgða var henni komið fyrir í norðurenda gamla Héraðsskólans. Í febrúar 1999 var Snorrastofa efld sem rannsóknarstofnun þegar Björn Bjarnason menntamálaráðherra kynnti skýrslu nefndar sem gerði það að tillögu sinni að komið yrði á fót rannsóknastarfsemi í íslenskum og evrópskum miðaldafræðum í Reykholti.

Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu, minntist þess að skólahaldi hafi verið slitið í Reykholti vorið 1998 og þá hafi verið vakið máls á því á ný að koma á fót rannsóknastofnun í miðaldafræðum í Snorrastofu. Björn Bjarnason menntamálaráðherra hafði fyrst hreyft þeirri hugmynd á ráðstefnu í Þjóðminjasafni Íslands 20. september 1996 að gera Reykholt að evrópsku menningarsetri þar sem stunduð yrðu miðaldafræði og rannsóknir á fornleifum. Bergur sagði að nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins hefði farið ofan í þetta mál og var niðurstaða hennar að koma á fót slíkri rannsóknastofnun. Stjórn Snorrastofu hefði unnið síðastliðin tvö ár út frá niðurstöðum nefndarinnar. Bergur sagði að Snorrastofa væri sjálfseignarstofnun sem hefði gert samninga við ríkið og aðila í héraði um rekstur stofnunarinnar. Þarna væri að verða til ráðstefnumiðstöð sem væri vel nýtt. Til marks um það nefndi Bergur að forsendur hefðu skapast fyrir rekstri hótels á staðnum árið um kring vegna ásóknar í ráðstefnuhald í Reykholti.