Krossgötur I.
Krossgötur I.
Opið alla daga frá morgni til kvölds.Til 17. ágúst. Aðgangur ókeypis.

ÞAÐ er prýðileg viðbót við sýningarnar í Stöðlakoti að nýta rýmið framan og bak við húsið til höggmyndasýninga. Verkin mega þó síður vera of fyrirferðarmikil, helst ekki stærri en konumynd Páls Guðmundssonar frá Húsafelli, sem lengi var fyrir framan húsið, líkast kennimarki þess og eftirsjá er að.

Fram til 17. ágúst eru þar verk eftir Guðbjörn Gunnarsson, sem tekið hefur sér listamannsnafnið Bubbi, en hann er öðrum þræði lærður trésmiður og vann sem slíkur áður en hann söðlaði yfir í myndhöggið. Helst eru þetta rekadrumbar, hráir, sagaðir og tálgaðir á ýmsa vegu, en einnig járn og ál. Öll verkin bera samheitið Krossgötur, sem vísar trúlega til vinnsluferlisins og að listamaðurinn eygi nú leiðir til margra átta, myndverkin allt annars eðlis en hann sýndi á svæðinu kringum Listaskálann í Hveragerði fyrir tveimur árum.

Þetta eru fyrirferðarmiklar einingar og hvað tréskúlptúrana áhrærir neglir og/eða skorðar listamaðurinn langa og svera járnnagla í þá, sem að lögun minna á meitla, jafnframt glittir í skrúfubolta í sumum þeirra. Að öllu samanlögðu þykir mér þetta sterkasta framlag Bubba til höggmyndalistar fram til dagsins í dag, vegna þess hve opið og eðlilega hann gengur til verks, en hann hefði þó í flestum tilvikum mátt sleppa nöglunum, því það styrkir naumast sköpunarferlið í þessari mynd. Listamaðurinn er fundvís á myndræna viðardrumba og eins og hann meðhöndlar þá standa þeir alveg fyrir sínu, einir og sér. Menn hafa áður og með góðum árangri blandað þessum og fleiri efnislegum andstæðum saman en hér er ekki laust við að smiðurinn skjóti upp kollinum, en það er sá draugur sem Bubbi hefur lengstum helst orðið að kljást við í formsköpun sinni, svona líkt og maður skynjar iðulega auglýsingahönnuðinn að baki athöfnum hans í frjálsri myndlist. Erfiðasti hjallinn í báðum tilvikum virðist vera að hrista af sér vanavinnubrögð og áskapaða leikni, lakast að viðkomandi koma sjaldnast auga á þetta sjálfir, það sem virðist svo einfalt og sjálfgefið reynist nefnilega oftar en ekki erfiðasti hjallinn í skapandi athöfnum. Listin telst í eðli sínu æðra stig handverks og hefur minna með almenn nýtisjónarmið að gera, jafnvel þótt hún persónugeri grunneiningar framþróunar og menningar, hinn skapandi mannauð.

Bragi Ásgeirsson