Andrzej Bialko flutti verk eftir J.S. Bach, Mendelssohn, C. Franck, Mieczyslaw Surzynski og Reger.

ÁFRAM heldur hin alþjóðlega orgelveisla í Hallgrímskirkju, því enn eru margir orgelleikararnir, sem telja sig eiga erindi við Klais-orgel kirkjunnar og áheyrendur sækja heim þennan höfuðstað, sakir stærðar, sérkenna og mikilleika hans, ekki síst fyrir það orðspor, sem fer af hinu mikilfenglega orgeli kirkjunnar. Það var auðheyrt að Andrzej Bialko, orgelleikari frá Kraká, var í essinu sínu, að þrautreyna hljómstyrk hins mikla Klais-orgels á Sumartónleikunum í Hallgrímskirkju sl. sunnudagskvöld. Hann hóf tónleikana með F-dúr tokkötunni og fúgunni, sem merkt er BVW 540. Það sem er sérkennilegt við tokkötuna er að manual-raddirnar eru leiknar sem kanón í áttundum, yfir liggjandi orgelpunkti í bassa, er líkur með sóló í pedal. Þessi skipan er endurtekin í tvöföldum kontrapunkti, þ.e. röddunum er víxlað og frá "dóminanti". Á eftir þessu kemur sérkennilegur leikur með hljóma, sem bregður af og til fyrir, samofnum við við stefið, sem til enda er gegnunnið í stöðugum eftirlíkingum. Þetta rismikla verk var leikið með helst til of miklum styrk í liggjandi pedalröddinni. Það sem margir fræðimenn telja að skilji milli fúgunnar og tokkötunnar í tíma, er hversu ólíkir þessir þættir eru og einnig, að fúgan, sem er tveggja stefja, er frekar laus í formi og framfylgir ekki "improvisatorískum" mikilleik tokkötunnar. Fúgan var sérlega vel flutt af Bialko, sem sýndi sig vera vel heima í margslungnum rithætti meistarans.

Annað verk tónleikanna var önnur orgelsónatan, sú í c-moll, eftir Mendelssohn.

Það var ekki svo auðvelt fyrir rómantísku tónskáldin að finna sér tónmál fyrir orgelið eins og heyra má í þessu verki, þar sem hin rómantíska hljómskipan ræður ríkjum. Þessu fallega og einfalda verki lýkur á fúgu, sem ekki er sérlega sannfærandi og vel passandi fyrir tónstíl Mendessohns. Verkið var mjög vel flutt og með fallegu en ekki yfirdrifnu raddvali. Leikur Bialko var í heild sérlega skýrt mótaður og kom það mjög vel fram í h-moll kóralnum fallega eftir César Franck, þar sem í raddskipaninni var tekið tillit til tónsmíðarinnar en ekki gerð tilraun umfram það, til að sýna raddmöguleika orgelsins. Þetta klassíska viðhorf til tónsmíðarinnar kom einstaklega vel fram í nokkuð skemmtilegu tilbrigðaverki eftir pólska tónskáldið Surzynski (1866-1924), þar sem heyra mátti margar sniðugar hugmyndir, þó verkið í heild væri nokkuð laust bundið, var allt slíkt bætt upp með frábærum leik Bialko.

Tónleikunum lauk með Fantasíu og fúgu í d-moll, eftir meistara hinnar rómantísku orgeltónlistar, sem reyndi til þrautar að tengja eldri formskipan saman við nýja hljómskipan og gekk svo langt í þessu efni, að nokkrir þurrbrjósta fræðimenn töldu að hann kynni ekki að "módúlera", þ.e. að skipta um tóntegund, aðferð sem hliðstæður snillingur, César Franck, var sakaður um að ofnota, þegar hann var í vandræðum með hugmyndir. Þetta glæsilega verk var afbragðsvel flutt og tónferli þess svo skýrt, bæði hvað varðar leikmáta og raddskipan, að varla verður mikið betur gert og auðheyrt að Andrzej Bialko er frábær orgelleikari.

Jón Ásgeirsson