HALLDÓR J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, segir bankann ekki greina á um við ríkisskattstjóra að embættinu beri að staðfesta samninga um kauprétt starfsmanna.

HALLDÓR J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, segir bankann ekki greina á um við ríkisskattstjóra að embættinu beri að staðfesta samninga um kauprétt starfsmanna.

"Fyrsti áfanginn í ferlinu í svona stórri samstæðu eins og Landsbankanum, jafnt sem öðrum fyrirtækjum, er að stjórnendur nái samkomulagi við starfsmenn um fyrirkomulag kaupréttar. Staðfestingar er ekki að leita fyrr en þetta samkomulag hefur náðst," segir Halldór.

Í Morgunblaðinu á laugardag lét Indriði H. Þorláksson ríkisskattstjóri hafa eftir sér að mjög miður væri að Landsbankinn skyldi ekki fyrir fram hafa sent embættinu áætlun um kaupréttarsamninga og vísaði í því sambandi til ákvæða þar að lútandi í tekju- og eignaskattslögum.

Samningurinn sem Landsbankinn gerði við starfsmenn sína var algjörlega með fyrirvara um að staðfestingar ríkisskattstjóra ætti eftir að afla, að sögn Halldórs. "Við töldum okkur því fara að fullu eftir ákvæðum laganna og leituðum staðfestingar. En þar til hún liggur fyrir getur auðvitað enginn nýtt sér kaupréttinn."