REAL Madrid keypti í gær portúgalska knattspyrnumanninn Luis Figo frá Barcelona fyrir tæpa 4,5 milljarða íslenskra króna. Figo er þar með orðinn dýrasti leikmaður allra tíma.

REAL Madrid keypti í gær portúgalska knattspyrnumanninn Luis Figo frá Barcelona fyrir tæpa 4,5 milljarða íslenskra króna. Figo er þar með orðinn dýrasti leikmaður allra tíma. Lazio keypti á dögunum Hernan Crespo fyrir 54,1 milljón dollara en Figo var seldur á 56,1 milljón dala.

Figo skrifaði undir sex ára samning hjá Florentino Perez, nýkjörnum forseta Madrídinga, og hann ætti ekki að vera á flæðiskeri staddur næstu árin því samningurinn tryggir honum rúmlega 350 milljónir í árslaun, eftir skatta, eða tæplega helmingi meira en hann hafði hjá Börsungum. Þetta er tæplega ein milljón króna á hverjum einasta degi ársins.

"Þetta var erfið og flókin ákvörðun," sagði Figo þegar hann var kynntur fyrir stuðningsmönnum félagsins og hélt á lofti hvítri keppnistreyju með 10 á bakinu. "Vonandi verð ég eins ánægður hér og ég var hjá Barcelona og einu get ég lofað og það er að ég legg mig allan fram því ég vil vinna eins mikið og hægt er með Real Madrid," sagði Figo.