Það var mikið fjör á tjaldstæðunum á Akureyri um helgina.
Það var mikið fjör á tjaldstæðunum á Akureyri um helgina.
ÍSLENDINGAR virðast í auknum mæli ferðast um eigið land, þá oft með tjald, tjaldvagn eða fellihýsi meðferðis og gista svo á tjaldsvæðum hringinn í kringum landið.

ÍSLENDINGAR virðast í auknum mæli ferðast um eigið land, þá oft með tjald, tjaldvagn eða fellihýsi meðferðis og gista svo á tjaldsvæðum hringinn í kringum landið. Um síðastliðna helgi var mikill straumur ferðamanna um Akureyri og nágrenni og fjöldi fólks var í Vaglaskógi. Morgunblaðið kannaði hljóðið í umsjónarmönnum tjaldsvæða eftir helgina.

Á tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti fengust þær upplýsingar að þetta væri með bestu helgum sumarsins. Tjaldsvæðið hefði verið troðfullt frá fimmtudegi og í raun mikil umferð um það alla vikuna. Að sögn eins starfsmannsins var það aðeins helgina sem Pollamót Þórs og Esso-mót KA í knattspyrnu fór fram sem fleiri gestir voru á tjaldsvæðinu í sumar. "Þessa helgi var hins vegar ekkert sérstakt um að vera í bænum en samt var allt fullt." Að sögn starfsmannsins voru aðallega Íslendingar á tjaldsvæðinu og var umgengni þeirra góð um helgina þrátt fyrir fjölmennið.

Það eru skátarnir á Akureyri sem sjá um tjaldsvæðið við Þórunnarstrætið og hið nýlega tjaldsvæði að Hömrum. Að sögn Tryggva Marinóssonar hjá skátafélaginu Klakki var einnig þéttsetinn bekkurinn á tjaldsvæðinu á Hömrum. "Þetta er næstbesta helgin í sumar, það er alveg ljóst," sagði Tryggvi. Hann sagði að nú þegar væru komnar um 2000 gistinætur á Hömrum, sem er meira en reiknað var með. "Við bjuggust ekkert við því að aðsóknin þar yrði mikil í sumar því að aðstaðan þar er ekkert orðin fullbúin enn þá. Þannig að þetta er hrein viðbót við okkar vonir," sagði Tryggvi. Hann sagði að Skátarnir hefðu haldið því fram að Akureyringar væru að missa fólk fram hjá bænum vegna þess að þar hefði vantað stærri tjaldsvæði.

Hann sagði að þrátt fyrir að Sleipnisverkfallið hefði haft sín áhrif hjá þeim eins og öðrum í ferðamannaþjónustunni væru þeir bjartsýnir á gott sumar á tjaldsvæðunum á Akureyri.

Í Húsabrekku gegnt Akureyri var sömu sögu að segja. Helgin þar var að sögn umsjónarmanns ein sú besta í sumar. "Það var alveg troðfullt hér um helgina og þótt einhverjir séu farnir að tínast í burtu þá eru margir sem ætla að vera hér lengur."

Á tjaldsvæðinu á Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit var einnig mikil umferð um helgina. Þar fengust þær upplýsingar að tjaldsvæðið hefði verið að heita fullsetið og jöfn og þétt umferð alla helgina.

Besta helgin í sumar

"Hér var fullt og þetta var besta helgin hjá okkur í sumar," sagði Ketill Tryggvason í Vaglaskógi þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans. Að hans sögn voru reyndar mjög margir helgina á undan en aðsóknin um liðna helgi hefði verið enn betri. "Það má eiginlega segja að helgin þar á undan hafi haldið áfram út vikuna og náð svo hæstu hæðum í aðsókninni núna um helgina," sagði Ketill.