ELÍN Hallgrímsdóttir lenti í sjálfheldu síðastliðinn sunnudag inn á Glerárdal, á leið upp á Tröllafjall.

ELÍN Hallgrímsdóttir lenti í sjálfheldu síðastliðinn sunnudag inn á Glerárdal, á leið upp á Tröllafjall. Þar sem Elín hafði leitað uppgöngu var mikið um skriður og lausa steina og eftir að hafa fikrað sig lengra upp taldi hún það hættulegt að halda áfram, hyggilegra væri að leita aðstoðar. Elín hafði meðferðis farsíma og gat því hringt eftir aðstoð og var því aldrei mikil hætta á ferðum.

Það var um fimmleytið á sunnudeginum sem Súlur, björgunarsveitin á Akureyri, fékk boð um að aðstoða konu í fjallgöngu inn á Glerárdal. Halldór Halldórsson var einn þriggja sem fór til aðstoðar Elínu. "Við lögðum af stað um fimmleytið og vorum rétt um tvo tíma á leiðinni til hennar. Hún var rétt fyrir ofan vatn sem nefnist Tröllaspegill og var á leið upp á Tröllafjall. Hún var að ganga upp fjallið þar sem mikið var um lausar skriður og bratt var niður. Hún var orðin óörugg og mat það sem svo að hyggilegra væri að hringja eftir aðstoð," sagði Halldór.

Síminn mikið öryggistæki

Elín Hallgrímsdóttir sagðist vera þakklát fyrir það að enn væri til fólk sem teldi ekki eftir sér að aðstoða náungann í nauðum. "Nú á tímum peningahyggju á maður ekki von á slíku en þessir yndislegu ungu menn töldu það ekki eftir sér," sagði Elín. Hún var alveg klár á því að síminn sem hún var með hefði bjargað öllu þar sem hún var ein á ferð. "Ef ég hefði ekki getað hringt strax hefði fólk ekki farið að undrast um mig strax. Leit hefði líka verið erfiðari, því að Glerárdalurinn er stór og ekki gott að vita hvar ég hefði þá nákvæmlega verið," sagði Elín.

Hún sagði að hún hefði upphaflega ætlað að ganga með Ferðafélagi Akureyrar á Tröllafjall á laugardeginum. "Ég hins vegar komst ekki þá en ákvað að halda mínu striki og fór einsömul á sunnudeginum. Þetta gekk ágætlega fyrst, ég leitaði uppgöngu á rauðum slóða í fjallinu. Þegar ofar var komið var svæðið mjög þurrt og steinar afar lausir. Síðan var það orðið þannig að mér fannst ég ekki komast áfram upp og það var mjög bratt niður, og skriður þar fyrir neðan. Mér var ekki farið að lítast á blikuna þannig að ég ákvað að hringja í manninn minn og biðja hann að senda einhvern mér til aðstoðar, áður en ég kæmi sjálfri mér í einhverja hættu. Ég náði ekki í manninn minn og hringdi þá í lögregluna," sagði Elín.

Hún vildi taka það fram að hún hefði aldrei verið í neinni lífshættu, hún hefði hins vegar tekið þá ákvörðun að kalla strax eftir aðstoð, áður en eitthvað verra gerðist. "Það var kannski rangt af mér að fara af stað ein, en ég var samt sem áður með símann og það bjargaði því að ekki fór verr," sagði Elín að lokum, en hún vildi ítreka þakklæti sitt til þeirra sem aðstoðuðu hana á sunnudaginn.