STÓRMARKAÐIR á Akureyri fóru ekki varhluta af þeirri miklu umferð ferðamanna sem var í bænum um nýliðna helgi.

STÓRMARKAÐIR á Akureyri fóru ekki varhluta af þeirri miklu umferð ferðamanna sem var í bænum um nýliðna helgi. Morgunblaðið hafði samband við verslunarstjóra Nettó, Strax í Byggðavegi og Hagkaups og allir höfðu sömu sögu að segja; mikið var að gera um helgina og mikið um ferðafólk í búðunum.

Stöðugur straumur

Sigmundur Sigurðsson, verslunarstjóri Nettó, sagði að mikil sala hefði verið um helgina og sérstaklega hefði verið mikið að gera á föstudeginum. "Hann var einn af stærstu dögunum, það var óhemju mikið af fólki í búðinni allan daginn. Reyndar kom fimmtudagurinn einnig á óvart. Við bjuggumst við mikilli verslun á föstudeginum, en það var einnig mjög mikið að gera á fimmtudeginum," sagði Sigmundur. Að hans sögn var stanslaus straumur ferðafólks þessa tvo daga.

Verslunin Strax stendur rétt fyrir ofan tjaldsvæðið við Þórunnarstrætið enda sagði Margrét Guðmundsdóttir að mjög mikið hefði verið að gera um helgina. "Þetta var næstbesta helgin í sumar, ég held að það hafi komið enn fleiri þegar knattspyrnumótin voru um daginn," sagði Margrét, en kvaðst mjög ánægð með nýliðna helgi.

Þórhalla Þórhallsdóttir, verslunarstjóri í Hagkaupi, sagði að mikið hefði verið um ferðafólki í versluninni um helgina og góð sala. "Það var náttúrlega fullt af ferðafólki í bænum um helgina og við fundum vel fyrir því hérna í búðinni. Það er ekkert nema gott um það að segja og gaman að sjá hvað margir vilja koma til bæjarins," sagði Þórhalla.