Í þessum pistli segir Einar Örn Gunnarsson frá því er bókmenntahraðlestin nam staðar í rússnesku borginni Kalíníngrad.

FJÖLMENNI var á brautarpallinum í Kalíníngrad. Lúðrasveit lék, ótal blöðrum var sleppt og púðurkerlingar sprengdar. Nokkrir enskustúdentar við háskóla borgarinnar fylgdu okkur í rútur sem biðu framan við brautarstöðina. Búið var að skreyta breiðgötu borgarinnar með gulum fánum bókmenntahraðlestarinnar og víða blöstu við veggspjöld sem auglýstu komu hennar.

Fyrsti viðkomustaður var minningareitur um rússneska skáldið Aleksandr Sergejevítsj Púhskín. Þar beið hópur hljóðfæraleikara sem spilaði á meðan staldrað var við. Næst var farið að minnisvarða um þýska skáldið Fredrich von Schiller og lagði eitt ljóðskáld lestarinnar blóm að stalli höggmyndarinnar.

Leiðsögumaður okkar var miðaldra kona sem talaði látlaust í hátalarakerfi bifreiðarinnar. Hún þuldi upp sögu Kalíníngrad sem áður hét Köningsberg og var á þýsku yfirráðasvæði fram til ársins 1945. Borgin var nánast lögð í rúst í seinna heimsstríði og féll í hendur Sovétmönnum sem fluttu þá Þjóðverja er fyrir voru á brott.

Leiðsögumaðurinn lýsti erfiðum félagslegum og efnahagslegum aðstæðum íbúa fyrir okkur. Meðal mánaðarlaun eru um 30 dollarar. Allt er í niðurníðslu og fátæktin blasir hvarvetna við.

"En þótt við séum ekki rík gleðjumst við, dönsum og syngjum," sagði hún með uppgerðarkæti í rómnum. Hlátur hennar var gleðilaus og ef vel var hlustað mátti heyra sem einhver væri að gráta.

Útlendingar höfðu litla möguleika á að koma til borgarinnar á tímum sovétsins eða fram til ársins 1990 og ef þeir sáust á götu var íbúum bannað að tala við þá. Líklega var það ástæða þess hversu erfitt var að nálgast íbúana. Það var múr á milli okkar og almennra borgara. Ef við ætluðum að spyrja til vegar gengu þeir áfram svipbrigðalausir eins og þeir hefðu ekki orðið okkar varir. Flestir höfundarnir undruðust þann svipdauða sem einkenndi mannlífið.

Húsaskrímsli frá tímum Brezhnev

Í miðborginni stendur gríðarlega stór og auð bygging sem íbúar kalla "skrímslið". Hún er ómáluð, opin fyrir veðri og vindum; ískyggilega drungalegt ferlíki.

Háskólastúdent sagði mér að byggingin væri eitt af mörgum dæmum um mislukkaðar framkvæmdir sovétsins. Stjórnarherrarnir í Moskvu fengu stundum brjálæðislegar hugmyndir og réðust út í að reisa stórhýsi sem enginn möguleiki var á að ljúka. Byggingar sem þessi áttu að sýna styrk ríkisins og þá hvers sovéska stórveldið var megnugt. Þegar öllu er á botninn hvolft endurspegla þær ef til vill raunverulegt magnleysi Moskvuveldisins gagnvart viðfangsefnum sínum. Ákvörðun um byggingu skrímslisins var tekin í stjórnartíð Leoníd Brezhnev.

Hótelið var tuttugu hæða kumbaldi sem stendur í nokkurri fjarlægð frá borginni. Þegar ég hafði skráð mig inn og ætlaði að taka aðra af tveimur lyftum hússins var mér skipað af starfsmanni að bíða. Lyfturnar taka ekki nema þrjár persónur hvor. Hávaðinn í lyftubúnaðinum var slíkur að ég ákvað að notast við stigana á meðan ég dveldi þarna.

Þó að koma lestarinnar væri auglýst víða um borgina voru dagskráratriði henni tengd ekki kynnt almenningi. Aðeins þröngur hópur hafði aðgang að upplestrum og öðrum uppákomum. Í Kalíníngrad eru bækistöðvar hersins. Minnismerki um fallnar stríðshetjur og saklaus fórnarlömb setja mark sitt á borgina.

Eftirlit með fólki og ferðum þess er mikið. Í hvert sinn sem við fórum til borgarinnar eða frá henni varð að gera grein fyrir ferðum okkar í borgarhliðinu þar sem vel vopnaðir hermenn stóðu vörð.

Eitt sinn var hópnum boðið að hlýða á tónleika. Rútan staðnæmdist rétt við minnismerki fallinna hermanna. Er ég steig út úr bifreiðinni var mér ekki boðið heldur skipað að taka við blómi úr hönd ungrar stúlku. Stuttu síðar var mér skipað öðru sinni af gestgjöfunum að leggja blómið að minnismerkinu. Lúðrasveit lék sorgarmarsa og hermenn stóðu heiðursvörð. Ég gekk í fylkingu í átt að minnismerkinu en skyndilega varð mér ofboðið. Ég tók mig því út úr röðinni, gekk aftur fyrir minnismerkið og lét blómið falla þar. Nokkrir höfundar gerðu slíkt hið sama.

Tónleikar í tvöfeldni og hræsni

Tónleikarnir fóru fram á minningareiti í hundrað metra fjarlægð. Um var að ræða uppfærslu á söngleik, stríðsádeilu þar sem við vorum minnt á miskunnar- og tilgangsleysi styrjalda. Tónlistarflutningurinn var væminn og leikrænir tilburðir flytjenda minntu á frammistöðu skólabarna á litlu jólunum. Angurværir fiðlutónar í bland við bjartar barnsraddir áttu sjálfsagt að bræða hjörtu okkar. Kjarnorkuváin birtist í tugum svartra slæðna sem konur sveipuðu sig með. Lítil börn gengu þögul og niðurlút í humátt á eftir þeim.

Mér varð óglatt af tvöfeldninni og hræsninni. Þarna stóðu að verki fulltrúar þess hers sem er í blóðugri styrjöld í Tsjetsjníu. Ég yfirgaf staðinn og beið í nokkurri fjarlægð eftir að tónleikunum lyki.

Eftir tónleikana var plantað tré til minningar um heimsókn bókmenntahraðlestarinnar en til hliðar við það var settur lítill minnisvarði sem minnti á legstein.

Íbúar Kalíníngrad eru iðnir við að reisa minnisvarða. Er hópurinn var á göngu í miðborginni benti einn fylgdarmanna okkur á nýlegan minnisvarða um heimsstyrjöldina síðari.

"Hann var afhjúpaður í maí," sagði hann stoltur.

Ég gaf mig á tal við hann, spurði hvað nemendur lærðu í mannkynssögu og þá hvort þeir læsu eitthvað um glæpi Stalíns.

"Glæpi Stalíns?" hafði hann eftir mér undrandi. "Stalín var enginn glæpamaður, hann var bara venjulegur einræðisherra."

Eitt helsta djásn íbúanna er að sjálfsögðu legstaður heimspekingsins Immanuel Kant en hann hvílir í steinkistu upp við vegg niðurníddrar kirkju.

Í Kalíníngrad fær maður á tilfinninguna að jafnvel dauðinn sjálfur gangi aftur. Þetta er borg hinna lifandi dauðu þar sem hvorki ber fyrir brosi né dreymandi auga.

Himinglaður steig ég um borð og fagnaði í hjarta mínu er lestin brunaði af stað frá Kalíníngrad, þessari borg minnisvarðanna, þar sem framtíðin er ekkert annað en geymsluloft dapurlegrar fortíðar.