VÍKVERJA blöskrar nú alveg sjónarspilið sem svokallaðir hvalaverndunarsinnar geta sett á svið.

VÍKVERJA blöskrar nú alveg sjónarspilið sem svokallaðir hvalaverndunarsinnar geta sett á svið. Hvalavinurinn Paul Watson ætlar samkvæmt nýjustu fréttum að láta kvikmynda ævisögu sína, sem væntanlega á að sýna þátt hans í því að hvalveiðar í hagnaðarskyni eru ekki lengur leyfðar í heiminum. Til þess notar hann herferð gegn grindadrápi Færeyinga og siglir til eyjanna með fullt skip af leikurum og fréttamönnum. Víkverji telur að hvalveiðibannið verði seint þakkað Paul Watson, enda tók Alþjóðahvalveiðiráðið sjálft ákvörðun um bannið.

Sú ákvörðun Watsons að herja á Færeyinga sýnir vel að ekki er ráðist á garðinn þar sem hann er hæstur. Færeyingar drepa á ári hverju 950 dýr að meðaltali síðustu tíu árin, en það er um 0,1% stofnsins. Á hinn bóginn er talið, samkvæmt upplýsingum Norðurslóðarsamtakana High North Alliance, að Bandaríkjamenn drepi árlega meira en 2.000 hvali, bæði með löglegum hætti og ólöglegum. Er ekki Watson á röngum stað? Skyldi fréttamönnum sem fylgja Watson vera þetta ljóst?

ÞAÐ kostar gífurlegar fjárhæðir að halda úti baráttunni gegn hvalveiðum og að mati Víkverja er sjálfsagt að koma í veg fyrir veiðar á þeim hvalategundum sem eru í útrýmingarhættu. Á hinn bóginn telur Víkverji sjálfsagt að stunda veiðar úr þeim hvalastofnum sem veiðar þola án þess að þeim sé stofnað í hættu og það sé gert undir hæfilegu eftirliti. Hvalaverndunarsinnar geta þá snúið sér að þeim tegundum sem eru í hættu og þurfa ekki að eyða fé, tíma og orku í hitt. Víkverji hefur það stundum á tilfinningunni að fjárþörfin ráði meiru en þörfin til að vernda hvali.

Það er mikil þörf fyrir matvæli í heiminum enda líða margar milljónir manna skort. Þótt hvaleiðar skili miklum mat og auki jafnframt afrakstursgetu ýmissa fiskistofna verður sú fæða sem þar verður til aðeins dropi í haf hins hungraða heims, en sá dropi gæti engu að síður haft mikið að segja.

NÚ er stefnt að því að sleppa Keikó í sumar og stendur yfir mikil leit að fjölskyldu hans í kringum Vestmannaeyjar. Víkverji vonar svo sannarlega að fjölskylda Keikós finnist og hann uni í framtíðinni glaður við sitt og með sínum í hafinu umhverfis landið. Hins vegar er Víkverja það fyllilega ljóst að Keikó skiptir engu máli til eða frá fyrir háhyrningastofninn við Ísland.

Það kom nýlega fram í fréttum að kostnaðurinn við þjálfun og umhirðu Keikós sé um 285 milljónir króna á ári, en 18 manns sinna þessum störfum hér á landi. Auk þessa var gífurlegum fjárhæðum varið til þess að flytja hvalinn hingað og koma fyrir í Klettsvíkinni við Heimaey. Víkverja finnst þetta miklir peningar, en þarna mun fyrst og fremst vera um frjáls framlög að ræða og ekkert við því að segja. Víkverja langar þó til að benda þeim sem kjósa að verja fé sínu á þennan hátt á að fjárþörfin er víða brýnni í veröldinni. Hvað skyldi vera hægt að bjarga mörgum indverskum börnum úr ánauð með þessum fjármunum? Hvað skyldi vera hægt að bjarga lífi margra barna í Afríku með þessu fé? Víkverja finnst gæzka mannfólksins stundum beinast í einkennilega farvegi.