GEKK ÉG yfir sjó og land, er sagt í gamalli þulu.
Mig langar til að fjalla svolítið um vegaframkvæmdir á Snæfellsnesi í seinni tíð. Það eru eins og vænta mátti sterkir andar sem svífa yfir vötnum á Snæfellsnesi.
Þeir fengu smjörþefinn af því í Búlandshöfða, en þar vill svo lánsamlega til að engin slys hafa þar orðið.
Hvað varðar vegarlagningu yfir Vatnaheiði, sem sumir kalla en við heimamenn köllum Dökkólfsdal, fór heldur í verra. Þar var brotið samkomulag, sem gert var fyrir 60 árum.
Nú plægja menn yfir land og sjó og þyrma engu og á ég þar við veginn yfir Vatnaheiði, sem fólk kallar. Ég tel að við höfum ekki haft neina þörf á þessum framkvæmdum. Þær gera lítið annað en að tefja fyrir þeim framkvæmdum, sem þörf er á á Vesturlandi. Þessar framkvæmdir voru þvingaðar fram af mönnum, sem ekki eru komnir af sandkassaskeiði. Vötnin, sem um er rætt á heiðinni, heita Hraunsfjarðarvatn og Baulárvallavatn. Það var ætlunin að þau yrðu virkjuð til rafmagnsframleiðslu. Þar er hægt að fá rafmagn sem kostar ekki nema eina krónu kílówattið. Við borgum nú 8 krónur fyrir kílówattið hér á Snæfellsnesi, en stóriðjan borgar aðeins 8 aura og þykir mikið. Með vegarlagningunni verða þessir kostir væntanlega úr sögunni en þetta svæði er eitt hið úrkomumesta á landinu.
Það hefur komið í ljós að við Snæfellingar höfum ekki átt neina stólpa í þingliði síðan Sigurður Ágústsson, Halldór E. Sigurðsson, Ingólfur Jónsson og Bjarni í Ásgarði sátu á þingi.
Það þarf engan að undra að órói hafi verið á vegum landsins í sumar. Einn góðan veðurdag hvolfdi þremur bílum á Kerlingarskarði og vegur gekk upp og niður fyrir sunnan land. Allt þetta bitnar á blásaklausu fólki, en það er hægara um að tala en í að komast.
Hjálmar Gunnarsson,
útgerðarmaður og
framkvæmdastjóri í
Grundarfirði
Þakkir til Nýkaups í Kringlunni
VIÐ versluðum hjá Nýkaupi fyrir útilegu í lok júní. Þegar á áfangastað var komið kom í ljós að umbúðir utanum matinn sem nota átti í aðalmáltíðina gáfu rangar upplýsingar og fengum við því afhent helmingi minna magn en við töldum okkur vera að kaupa. Við höfðum strax samband við verslunarstjórann, sem bauð okkur að koma á mánudeginum og hann myndi bæta okkur skaðann, sem hann og gerði.Við viljum þakka fyrir fagleg og heiðarleg viðbrögð hjá verslunarstjóra Nýkaups.
Gígja Árnadóttir,
Skálagerði 11, Rvík
Ljósmyndalestur
Á stundum að gjalda varhug við ljósmyndatöku? Ljósmynd getur tjáð ýmislegt, bæði jákvætt og neikvætt, og bara hvernig ljósmynd er tekin getur haft sitt að segja. Nokkrar ljósmyndir, sem hafa verið í Lesbókum Morgunblaðsins undanfarið af fólki við undirbúning listsýningar, gætu hugsanlega verið dæmi um viðsjárverða ljósmyndun. Á ljósmyndum þessum situr fólkið stundum bara á gólfinu innan um myndverk sín og ef ekki sitjandi á gólfi, þá sitjandi á hækjum sér og þá jafnvel komið einhvers staðar út í horn. Er ekki eitthvað ankannalegt við svona blaðaljósmyndatöku?
Kristján.
Svartur bakpoki með einni axlaról
SVARTUR bakpoki með einni axlaról tapaðist í rútu Teits Jónassonar sem kom frá Úlfljótsvatni föstudaginn 30. júní sl. Í honum var meðal annars Canon-myndavél (merkt "Ester s. 565 7748"), ferðageislaspilari og nýjasti diskurinn með Britney Spears. Ef einhver veit um afdrif bakpokans vinsamlegast hafið samband í síma 565-7748 eða 895-7721.
Glænýtt hjól hvarf frá Sigtúni
GLÆNÝTT silfurlitað Free Style-drengjahjól hvarf frá Sigtúni 21 þriðjudagskvöldið 18. júlí sl. Hjólsins er sárt saknað af níu ára dreng. Ef einhver veit um afdrif hjólsins vinsamlegast hafið samband í síma 568-8165.
Kvenmannsúr fannst í vesturbænum
SILFURLITAÐ kvenmannsúr fannst fyrir utan Aragötu 7 þriðjudaginn 18. júlí sl. Upplýsingar í síma 562-7007.
Hefur einhver séð Mollý?
MOLLÝ týndist frá Þrastanesi í Garðabæ 10. júlí sl. Hún er svört og loðin, með lítinn hvítan blett á bringu, feldurinn er silkimjúkur. Hún er eyrnamerkt. Mollý er stygg og vör um sig. Vinsamlegast látið vita í síma 565-9886 eða 867-8391 eða hringið í Kattholt í síma 567-2909.
Læða í óskilum
LÍTIL svört læða, um það bil fjögurra mánaða, er í óskilum á Laugateigi 27. Hún fannst miðvikudagskvöldið 19. júlí sl., svöng, blaut og köld. Hún er ómerkt. Upplýsingar í síma 553-3312.
Svört dvergkanína hvarf að heiman
SVÖRT dvergkanína hvarf frá Lálandi í Fossvogi fimmtudaginn 20. júlí sl. Finnandi er vinsamlegast beðinn að hafa samband í síma 568-1680 eða 897-2854.