ÞÚSUNDIR breskra sjómanna, sem misstu atvinnuna eftir "þorskastríðin" við Íslendinga á áttunda áratugnum, eiga nú loksins að fá bætur. Hefur Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands, samþykkt að leggja fram hátt í tvo milljarða ísl. kr.
ÞÚSUNDIR breskra sjómanna, sem misstu atvinnuna eftir "þorskastríðin" við Íslendinga á áttunda áratugnum, eiga nú loksins að fá bætur. Hefur Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands, samþykkt að leggja fram hátt í tvo milljarða ísl. kr. í þessu skyni og þykir líklegt að bæturnar fyrir hvern mann verði um 600.000 ísl. kr. Munu þær renna til um þrjú þúsund sjómanna sem krafist hafa bótagreiðslna.
Forsetakjör í Ísrael 31. júlí
NÝR forseti verður kjörinn í Ísrael næstkomandi mánudag, 31. júlí. Eru tveir menn í kjöri, þeir Shimon Peres fyrir Verkamannaflokkinn og kosningabandalag hans og Moshe Katsav fyrir Likudflokkinn. Atkvæðisrétt hafa aðeins þingmennirnir 120 að tölu. Skoðanakannanir sýna, að væri um þjóðkjör að ræða, myndi Peres, sem sæmdur hefur verið friðarverðlaunum Nóbels og hefur látið mikið til sín taka í 52 ára langri sögu Ísraelsríkis, bera auðveldan sigur úr býtum en staðan á þingi er öllu flóknari. Ríkisstjórnin hefur ekki lengur meirihluta og þar er mikil andstaða við friðarferlið við Palestínumenn, Óslóarsamkomulagið svonefnda, sem Peres átti stóran þátt í. Þrátt fyrir það er Peres talinn sigurstranglegur og á það er bent, að Katsav sé reynslulítill og hann þekki enginn utan landsteinanna.
Asminn sagður á undanhaldi
BRESKIR læknar segja að asmatilfellum í Bretlandi hafi fækkað mikið og stöðugt síðast liðin sjö ár en fram til 1993 fjölgaði þeim árlega. Segjast læknarnir ekki vita hvernig á þessu stendur en almennt var talið að sjúkdómstilfellunum færi fjölgandi. Ekki er talið, að mikil breyting hafi orðið í umhverfi manna en þó helst staðnæmst við þá skýringu, að minna sé nú um óbeinar reykingar en áður.