OPINBER skjöl úr stjórnartíð Helmuts Kohls, fyrrverandi kanzlara Þýzkalands, sem um helgina voru sögð hafa komið í ljós í geymslum Konrad Adenauer-stofnunarinnar, pólitískrar rannsóknastofnunar með náin tengsl við flokk Kohls, Kristilega demókrata (CDU),...

OPINBER skjöl úr stjórnartíð Helmuts Kohls, fyrrverandi kanzlara Þýzkalands, sem um helgina voru sögð hafa komið í ljós í geymslum Konrad Adenauer-stofnunarinnar, pólitískrar rannsóknastofnunar með náin tengsl við flokk Kohls, Kristilega demókrata (CDU), eru að sögn Burkhards Hirsch, formanns stjórnskipaðrar nefndar sem falið var að kanna hvað orðið hefði um gögn úr ráðuneyti kanzlarans sem virðast hafa verið fjarlægð eftir kosningaósigur Kohls haustið 1998, ekki vera þau skjöl sem hann er að leita að.

Sagðist Hirsch hinsvegar í útvarpsviðtali ánægður með að "einhver gögn skuli skila sér aftur til kanzlaraembættisins".

Svo virðist sem enn sé á huldu hvað orðið hafi um gögn sem tengjast málum sem snerta rannsókn þýzka þingsins á því hvort tengsl hafi verið milli leynilegra greiðslna í sjóði CDU og vissra ákvarðana ríkisstjórnar Kohls.

Eftir því sem Hans-Otto Kleinmann, aðstoðarforstöðumaður Konrad Adenauer-stofnunarinnar, greindi Bild am Sonntag frá um helgina er hluta þeirra gagna úr skjalasafni kanzlaraembættisins sem talin voru horfin eða glötuð að finna í fórum stofnunarinnar. Sagði hann Friedrich Bohl, þáverandi yfirmann ráðuneytis Kohls, hafa útvegað stofnuninni skjölin. Hirsch sagðist í gær hissa á því að stofnunin skyldi ekki fyrr hafa greint frá því að hún hefði undir höndum gögn sem Bohl á að hafa séð til að féllu henni í té. Bohl, sem hefur lýst yfir pólitískri ábyrgð á hvarfi gagnanna, hefur neitað því að hafa fyrirskipað að þau skyldu fjarlægð eða að þeim skyldi eytt.

Saksóknarar hætta rannsókn

Samkvæmt upplýsingum dagblaðsins Die Welt hafa saksóknarar í Berlín ákveðið að hætta - "í bili" - rannsókn á meintu meinsæri Wolfgangs Schäubles, fyrrverandi flokksleiðtoga CDU, og Brigitte Baumeister, fyrrverandi gjaldkera flokksins, en sú rannsókn var hafin í maí sl. eftir að þau höfðu bæði eiðsvarin borið vitni um það hvernig það bar að, að vopnakaupmaðurinn Karlheinz Schreiber kom til skila 100.000 marka reiðufjárgreiðslu í kosningasjóð CDU.

Hins vegar greinir Die Welt frá því, að saksóknari í Bonn, sem haft hefur meint lögbrot Kohls í sambandi við fjármálahneyksli CDU til rannsóknar, hyggist brátt láta málið niður falla gegn því að Kohl greiði 200.000 mörk, andvirði um 75 milljóna króna, í dómsátt án málaferla.

Falli allar þessar saksóknarrannsóknir niður kann það að breyta miklu fyrir þingrannsóknina. Þá geta þau Schäuble, Baumeister og Kohl ekki lengur vísað til þess réttar síns að mega neita að svara spurningum rannsóknarnefndar þingsins sem tengjast sakarannsókn gegn þeim. Þetta þýðir meðal annars, að Kohl gæti ekki neitað að verða við kröfunni um að nefna gefendur ólöglegra greiðslna sem hann hefur viðurkennt að hafa tekið við, nema að eiga yfir höfði sér að vera stefnt fyrir rétt.

Schäuble og Baumeister eiga að koma aftur fyrir rannsóknarnefnd þingsins í lok ágúst.

Berlín. AFP.