KOMA mun í ljós í dag hvort sigur Mika Häkkinens í austurríska kappakstrinum verður staðfestur eða hvort hann verður dæmdur úr leik og félagi hans hjá McLaren flyst í fyrsta sætið í staðinn. Dómarar keppninnar í A1-Ring í Austurríki leggjast í dag yfir skýrslur og gögn vegna skoðunar á tölvukassa úr bíl Häkkinens en í ljós kom er hann kom á mark að innsigli vantaði í kassann.

Häkkinen vann mótið í Austurríki með miklum yfirburðum og Coulthard varð annar en skæðasti keppinautur þeirra og sá er forystu hefur í stigakeppni ökuþóra, Michael Schumacher, heltist úr leik í hópárekstri á fyrstu beygju.

Með úrslitunum minnkaði forskot Schumachers í stigakeppni ökuþóra sem orðin er nokkuð spennandi á ný. Miðað við að úrslitin í Austurríki standi hefur Schumacher 56 stig, Coulthard 50 og Häkkinen 48. Verði Häkkinen hins vegar dæmdur úr leik fjölgar stigum Coulthards um fjögur og yrði hann því aðeins tveimur á eftir Schumacher, 56:54.

Í tölvukassanum er stjórnbúnaður mikilvægs tölvuhugbúnaðar er stýrir vinnslukerfum bílsins.

Flogið var með kassann til London til rannsóknar strax á keppnisdegi þar sem ætlunin var að leiða í ljós hvort innsiglið hafi brotnað af vegna titrings í kappakstrinum, eins og McLaren hafði haldið fram, eða hvort átt hafi verið við það.

Alþjóðaakstursíþróttasambandið (FIA) gaf út yfirlýsingu þess efnis á mánudaginn var, að búast mætti við niðurstöðu sl. miðvikudag en hann leið og næsti dagur að miklu leyti líka uns tilkynnt var að bíða yrði þar til í dag. Ýtti það undir grunsemdir um að ekki hefði allt reynst vera með felldu.

Niðurstöðu dómaranna er beðið með mikilli óþreyju en ómögulegt að segja til um hver hún verður. Þó er ljóst að það er brot á reglum ef innsigli vantar. Hefur McLaren-liðið þegar lýst því yfir að því hafi verið tjáð að komið hafi í ljós að ekki hafi verið átt við tölvuforrit í kassanum og liðið er því bjartsýnt á að sleppa án refsingar.

Með skírskotan til þess að stig hafi áður verið dæmd af liði, en ökuþór haldið sínum, þegar um var að ræða frávik frá tæknireglum, eru líkur taldar á að McLaren gæti misst stigin í keppni bílsmiða en Häkkinen haldið sigrinum og sínum 10 stigum sem hann vann í Austurríki. Færi svo kæmist Ferrari aftur í forystu í bílsmiðakeppninni, 94:92, en miðað við að úrslitin stæðu óbreytt yrði staðan í þeirri rimmu 98:92 fyrir McLaren.