Gyðingar halda á palestínska fánanum og mótmælaspjöldum nálægt Camp David. Þeir tilheyra hópi strangtrúaðra gyðinga, sem nefnast hasídar, og eru hlynntir því að A-Jerúsalem verði undir stjórn Palestínumanna.
Gyðingar halda á palestínska fánanum og mótmælaspjöldum nálægt Camp David. Þeir tilheyra hópi strangtrúaðra gyðinga, sem nefnast hasídar, og eru hlynntir því að A-Jerúsalem verði undir stjórn Palestínumanna.
BILL Clinton Bandaríkjaforseti gaf til kynna að hann teldi friðarsamning milli Ísraela og Palestínumanna mögulegan með því að efna til ítarlegra samningaviðræðna í gær eftir næturlangan samningafund í fyrrinótt.

BILL Clinton Bandaríkjaforseti gaf til kynna að hann teldi friðarsamning milli Ísraela og Palestínumanna mögulegan með því að efna til ítarlegra samningaviðræðna í gær eftir næturlangan samningafund í fyrrinótt.

"Hann verður hér á meðan hann telur einhverjar líkur á árangri," sagði talsmaður Clintons, Joe Lockhart. "Hann telur það ómaksins vert að vera hér áfram um sinn."

Aðalsamningamaður Ísraela, Shlomo Ben Ami, sagði að niðurstaða viðræðnanna myndi ráðast á næstu tveimur dögum.

Clinton kom aftur til Camp David á sunnudagskvöld eftir þriggja daga ferð til Japans vegna fundar átta helstu iðnríkja heims. Skömmu eftir komuna ræddi hann einslega við Ehud Barak, forsætisráðherra Ísraels, og Yasser Arafat, leiðtoga Palestínumanna, og bauð öllum samningamönnunum til kvöldverðar. Hann ræddi síðan við fámennan hóp ísraelskra og palestínskra embættismanna til klukkan fimm í fyrrinótt að staðartíma (níu í gærmorgun að ísl. tíma) og hélt viðræðunum áfram eftir rúmlega fimm klukkustunda hlé.

Bandarískir embættismenn sögðu líklegt að Clinton myndi láta á það reyna í að minnsta kosti einn eða tvo daga hvort hægt væri að ná samkomulagi.

Palestínumenn sögðu að engin deilumálanna hefðu verið leyst en deilan um yfirráð í Jerúsalem er enn helsti ásteytingarsteinninn.

Helsti ráðgjafi Arafats, Tayeb Abdel Rahim, sagði að palestínski leiðtoginn væri tilbúinn að tryggja að gyðingar og kristnir menn fengju aðgang að helgum stöðum sínum í Jerúsalem fengju Palestínumenn full yfirráð yfir austurhluta borgarinnar.

Fjölmiðlar í Egyptalandi sögðu í gær að Arafat hefði óskað eftir stuðningi Hosnis Mubaraks, forseta landsins, vegna deilunnar um Jerúsalem. Mubarak ræddi við Fahd Sádi-Arabíukonung á sunnudag og embættismenn sögðu að þeir hefðu lagt áherslu á að tryggja þyrfti að Palestínumenn fengju yfirráð yfir að minnsta kosti hluta Jerúsalem. Gert er ráð fyrir að Mubarak ræði málið á næstu dögum við Bashar Assad, nýjan forseta Sýrlands, og Abdullah II Jórdaníukonung.

Barak og Arafat hótað lífláti

Samkvæmt skoðanakönnun sem birt var í gær er helmingur Ísraela andvígur friðarsamningi sem fæli í sér að Palestínumenn stofnuðu eigið ríki á Gaza-svæðinu og 90% Vesturbakkans og fengju yfirráð yfir nokkrum hverfum í Austur-Jerúsalem. Aðeins 42% sögðust vera hlynnt slíkum samningi en aðrir höfðu ekki gert upp hug sinn.

Lögreglan í Ísrael hóf í gær rannsókn á máli öfgamanna í bannaðri hreyfingu gyðinga, Kach, sem hafa hótað að ráða Barak og Arafat af dögum semji þeir um að Austur-Jerúsalem verði undir stjórn Palestínumanna.

Thurmont. Reuters, AP.