Sigurður Á. Friðþjófsson
Sigurður Á. Friðþjófsson
16. júní sl. sendi BSRB frá sér harðorð mótmæli, segir Sigurður Á. Friðþjófsson, vegna breytinga sem ríkisstjórnin gerði á reglugerð um hlut Tryggingastofnunar ríkisins í lyfjakostnaði.

Í Morgunblaðinu sunnudaginn 23. júlí birtist viðtal við Sindra Sindrason, framkvæmdastjóra Parmaco. Í viðtalinu segist Sindri undrast að ekkert skuli heyrast í verkalýðsforystunni vegna hækkunar á lyfjaverði til sjúklinga. Þessi orð hans eru síðan tekin út og birt feitletruð sem áherslupunktur með viðtalinu, þrátt fyrir að viðtalið fjalli að minnstu leyti um hækkun á lyfjaverði og afstöðu verkalýðshreyfingarinnar til hennar.

Þetta er ekki rétt hjá Sindra því 16. júní sl. sendi BSRB frá sér harðorð mótmæli vegna breytinga sem ríkisstjórnin gerði á reglugerð um hlut Tryggingastofnunar ríkisins í lyfjakostnaði. Ályktun þessi birtist m.a. í Morgunblaðinu á sínum tíma og fékk talsverða umfjöllun í fréttum Ríkisútvarpsins. Engu að síður virðist þetta hafa farið framhjá Sindra og eflaust fleirum, m.a. blaðamanni Morgunblaðsins sem tók viðtalið, og því full ástæða til að birta ályktunina aftur. Þá hafa forystumenn BSRB ritað greinar um efnið þar sem þessari ráðstöfun ríkisstjórnarinnar hafa verið gerð skil og henni mótmælt.

"BSRB vekur athygli á að samkvæmt breytingum ríkisstjórnarinnar á reglugerð um hlutdeild Tryggingastofnunar ríkisins í lyfjakostnaði mun hámarkshlutdeild sjúklinga hafa hækkað um 72,22% frá áramótum eða úr 1.800 krónum fyrir hvern lyfseðil í 3.100 krónur. Þetta á við um svokölluð B-lyf en í þeim flokki eru meðal annars lyf við hjarta-, astma-, psoriasis- og geðsjúkdómum. Hækkunin í svokölluðum E-lyfjaflokki er hlutfallslega minni eða 28,57% en í krónum nemur hækkunin eitt þúsund krónum fyrir hvern lyfseðil, fer úr 3.500 í 4.000 krónur. Hvað elli- og örorkulífeyrisþega snertir er hækkunin í báðum lyfjaflokkum minni, 58,33% fyrir B-lyf og 25% fyrir E-lyf.

Tekjuviðmiðun endurgreiðslna TR vegna læknis- og lyfjakostnaðar er hækkuð um tvö þúsund krónur á ári og frádráttur vegna barna aukinn og tekur nú til barna og unglinga til 18 ára aldurs í stað 6 ára áður. Þessi breyting er til framfara og henni ber að fagna. Hins vegar er rétt að vekja athygli á að fjölskyldur með samanlagðar tekjur hjóna yfir 267 þúsund krónur á mánuði fá engan stuðning. Þá ber að hafa í huga að ráðstafanir ríkisstjórnarinnar ganga út á að draga úr útgjöldum ríkisins vegna niðurgreiðslna á lyfjum um ríflega eitt þúsund milljónir króna á ársgrundvelli. Ljóst er að þetta verður gert á kostnað sjúklinga og því mótmælir BSRB harðlega."

Höfundur er upplýsingafulltrúi BSRB.