UPPREISNARMENN í Tsjetsjníu hertu skæruhernað sinn í héraðinu í gær og felldu að minnsta kosti þrjá rússneska hermenn í tveimur árásum úr launsátri í höfuðstaðnum, Grosní.

UPPREISNARMENN í Tsjetsjníu hertu skæruhernað sinn í héraðinu í gær og felldu að minnsta kosti þrjá rússneska hermenn í tveimur árásum úr launsátri í höfuðstaðnum, Grosní. Uppreisnarmennirnir hótuðu einnig sprengjuárásum á herstöðvar og verksmiðjur í Rússlandi.

Skæruliðar börðust í tvær klukkustundir við rússneska hermenn í hverfinu Staropromyslovskaja í Grosní eftir að hafa stöðvað brynvagna þeirra með því að sprengja fremsta vagninn.

Að sögn bandamanna Rússa í borginni féllu þrír hermenn í árásinni og sautján særðust. Uppreisnarmennirnir gerðu einnig árás nálægt Minukta-torgi í miðborginni.

Aslan Maskhadov, leiðtogi Tsjetsjena, sagði að árásunum yrði haldið áfram þar til "síðasti rússneski hermaðurinn fer frá Tsjetsjníu".

Skæruhernaðurinn í Grosní virðist harðna með hverjum deginum sem líður og rússnesk yfirvöld hafa varað við því að um 1.000 uppreisnarmenn hafi farið úr fylgsnum sínum í fjöllunum í suðurhluta landsins til að hefja nýja sókn á láglendinu.

Mikill öryggisviðbúnaður hefur verið í stærstu borgum Rússlands vegna hótana Tsjetsjena um að hefja árásir á herstöðvar, verksmiðjur og fleiri mikilvæg mannvirki.

Moskvu. AFP.