STEFÁN Þ. Þórðarson var ekki lengi að slá í gegn hjá aðdáendum Stoke City. Í fyrsta leiknum á heimavelli félagsins, Britannia Stadium, á laugardaginn, gegn Liverpool, skoraði hann sigurmark Stoke, 1:0, með glæsilegu skoti, beint úr aukaspyrnu. Hvorki fleiri né færri en 16 þúsund áhorfendur mættu á leikinn sem endurspeglar stóraukinn áhuga fyrir Íslendingaliðinu í borginni.

Stoke var sterkari aðilinn og gat unnið stærri sigur. Liverpool hvíldi þá leikmenn sem tóku þátt í úrslitakeppni EM í sumar en meðal leikmanna voru Sami Hyypia, Titi Camara, Jamie Carragher, Erik Meijer, Rigobert Song, Gary McAllister, Bernard Diomede, Dominic Matteo, Steve Staunton, Stephane Henchoz og Danny Murphy.

Stefán þótti einn besti leikmaður vallarins og Bjarni Guðjónsson fékk einnig hrós fyrir sinn leik. Kristján Sigurðsson lék bróðurpart leiksins með Stoke en hann kom inn á fyrir fyrirliðann Nicky Mohan sem meiddist. The Sentinel hrósar Stefáni mjög fyrir leiki sína með Stoke til þessa og segir að hann sé tvímælalaust besti leikmaður liðsins á undirbúningstímabilinu.

Gerard Houllier, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði að það væri ekki mikið að marka úrslitin. Stoke hefði verið að spila sinn fjórða leik en Liverpool sinn fyrsta. "Mínir menn voru frekar stirðir en ef við hefðum verið að spila okkar fjórða leik hefði útkoman orðið önnur," sagði Houllier.

"Við lékum mjög agað og ég er ánægður með frammistöðu liðsins," sagði Guðjón Þórðarson, knattspyrnustjóri Stoke, sem fór beint með lið sitt út á eyjuna Mön í Írlandshafi þar sem það tekur þátt í árlegu æfingamóti. Stoke hefur unnið mótið þrjú ár í röð.