Dennis Hopper heldur sig enn við Harleyinn, aldarþriðjungi síðar - á Expo 2000 í sumar.
Dennis Hopper heldur sig enn við Harleyinn, aldarþriðjungi síðar - á Expo 2000 í sumar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞESSA dagana eru þrír áratugir liðnir frá því að ein tímamótamynda kvikmyndasögunnar var frumsýnd hérlendis. Þetta var Easy Rider ('69), afreksverk leikarans, hippans og leikstjórans Dennis Hopper .

ÞESSA dagana eru þrír áratugir liðnir frá því að ein tímamótamynda kvikmyndasögunnar var frumsýnd hérlendis. Þetta var Easy Rider ('69), afreksverk leikarans, hippans og leikstjórans Dennis Hopper . Þaða má reyndar kalla þennan litríka náunga vandræðagemling, eiturætu, róttækling, lífsnautnamann, rugludall, listinn er ótæmandi. Ástæðan er sú að líf þessa einstæða náunga hefur verið eitt laangt og undarlegt ferðalag. Hopper kom fyrst fram í kvikmynd árið 1954, aðeins 18 ára gamall. Síðan hefur hann haft einstakt lag á að vera í sviðsljósinu, jöfnum höndum fyrir afrek og endemi.

Hopper þekkir því kvikmyndabransann betur en flestir aðrir frá öllum hliðum. Byrjaði um fermingu sem táningsstjarna en í dag, á hægri og huggulegri siglingu inn í sólsetrið, er hann nánast ráðsettur, mikilsmetinn skapgerðarleikari, baðaður endurheimtri frægð endurrisunnar.

Hopper er fæddur 1936, í nafntoguðum bæ í sögu villta vestursins, Dodge City, á víðáttum Kansasfylkis. Sjálfsagt rennur blóð vesturfara og byssubófa í æðum hans því einhvern veginn tekst honum að rísa upp af flatneskju landbúnaðarfylkisins og koma sér fyrir í föstu smáhlutverki í sjónvarpsþáttunum Medic, þegar árið ´52. Litli skjárinn hefur greinilega ekki dugað fyrir uppreinarsegginn því ári síðar fer hann með dálítið hlutverk í Johnny Guitar, umtöluðum vestra Nicholasar Ray . Goðsögninni Ray hefur líkað við strák því tveim árum síðar fer hann með eftirminnilegt hlutverk í einni frægustu mynd Rays , Syndum feðranna - Rebel Without a Cause. Strax á þessum árum er goðsögnin um Dennis Hopper að fæðast því nú verður pilturinn, ekki tvítugur, ein aðalpersónan á mögnuðu tímabili kvikmyndasögunnar; þættinum af James Dean .

Óteljandi bækur og greinar hafa verið skrifaðar um þessi ár þegar Dean og Hopper voru bestir vina. Stórstjarnan Dean var fjórum árum eldri, en Hopper hefur örugglega verið iðinn nemandi á þeirri flughálu braut sem Dean arkaði löngum, svalur og töff, með sígarettuna lafandi, tryllti konur og karla, var þó meira fyrir konur, drakk og svallaði. Spennufíkill sem lifði hátt og dó ungur undir stýri nýja Porschebílsins síns. Þarna fengu uppeldið sitt auk Hoppers þeir Sal Mineo og Nick Adams , sem báðir eru löngu látnir, en allir voru þeir nafntogaðir villingar íhaldssamra tíma sjötta áratugarins.

Harðnaglinn Hopper stóð allt af sér og ekki fjarri lagi að hann hafi ætlað sér að fylla skarð kvikmyndagoðsins Dean , sem lést skömmu eftir að þeir félagar luku við Risann-The Giant ('56), enn eina stórmynd tímabilsins þar sem annar hvor eða báðir voru í leikhópnum. Hopper fyllti hins vegar aldrei skarðið, það var of stórt fyrir nokkurn dauðlegan mann þá um stundir og almennur ólifnaður, kjaftbrúk og rustamennska á tökustöðum var þá þegar farin að spyrjast út og taka sinn toll af möguleikum rétt tvítugs nýstirnisins.

Fyrsta bakslagið kemur snemma á ferlinum. Sögufræg rimma við leikstjórann Henry Hathaway við tökur á vestranum From Hell to Texas ('58) endaði með bannfæringu. Hathaway kallaði ekki allt ömmu sína, var orðlagður durtur; þegar hann átti í basli með mannskapinn tóku aðrir leikstjórar til fótanna og nú tók Hopper dýfu niður á B-myndaplanið þar sem Key Witness ('60), hversdagsleg glæpamynd með minnisstæðu lagi, var endastöðin um sinn.

Maðurinn sem kom Hopper til bjargar var enginn annar en hörkutólið Hathaway ; líkur sækir líkan heim. Hathaway lét Hopper fá ágætt hlutverk í The Sons of Katie Elder ('65), þessum fína vestra með sjálfan John Wayne í fararbroddi, Nú rann upp tími nokkurra smámynda, þ.ám. The Trip ('67), undir leikstjórn vinar hans, Peter Fonda , og Head ('68), þar sem annar félagi hans úr dópsukki og allsherjargleðskap sjöunda áratugarins, Jack Nicholson , var handritshöfundur og framleiðandi.

Þeir þrír komu heldur betur við sögu Easy Rider ('69), sterkustu og merkustu myndar þessara geggjuðu tíma. Hopper var aðalhvatamður hennar, tókst einhvern veginn að safna saman 400 þúsund dölum og gamli uppreisnarseggurinn var svo sannarlega í essinu sínu. Barðist við staðnaðan hugsunarhátt forpokaðra afturhaldsafla í kvikmyndaiðnaðinum - og vann glæsilegan sigur. Stóð uppi sem hetja, ímynd hippatímanna og stórefnaður ruglukollur sem Hollywood varð nú að bukta sig fyrir. Sýndi iðnaðinum fram á nýjan markað uppreisnargjarns æskufólks sjöunda áratugarins, sem þyrptist á myndina hans. Þá hafði kvikmyndaiðnaðurinn verið lengi í djúpri lægð en Hopper og félagar kveiktu áhuga milljóna ungmenna um allan heim fyrir töframætti hvíta tjaldsins og sannkölluð bylting átti sér stað í iðnaðinum.

Um þetta leyti gekk Hopper tæpast heill til skógar sökum eiturlyfjaneyslu. Hann var ímynd hippans með sitt síða og úfna hár, dökku sólgleraugu, slitnu gallabuxur og maríjúanastauturinn tekinn við af Camel í munnvikinu. Var giftur Michelle Phillips úr The Mamas & the Papas í einhverja daga o.s.frv. Sem leikstjóri gat hann gert hvað sem var og valdi The Last Movie ('71). Kvikmyndagerðin var samfellt og sögufrægt eiturlyfjasukk í Perú. Universal ætlaði heldur betur að græða á frægð Easy Rider og Hopper fékk eina milljón dala í skotsilfur. Ári síðar kom hann til baka með sex stundir af óskiljanlegu myndefni sem aldrei hefur tekist að klippa saman af viti. Aftur lenti kempan upp á kant við kerfið, en nú var hann fyrst orðinn virkileg andhetja og á hann bitu engin vopn.

Hafi Hopper þótt óalandi og óferjandi fyrr á ferlinum þá var sá vandræðagepill sannkallaður kórdrengur í samanburði við villimanninn sem skreytti gaspursíður tímarita næstu fimmtán árin. Frægur leikur hans í mynd Coppola , Apocalypse Now ('79), þar sem hann lítur út fyrir að vera endanlega genginn af göflunum, er samnefnari fyrir Hopper þessara ára.

Merkilegt nokk, smám saman fór að sjá batamerki á gamla hippanum. Það fyrsta var Out of the Blue ('80)grimm og athyglisverð kanadísk mynd sem Hopper skrifaði handrit að, leikstýrði og lék í aðalhlutverkið. Batinn hélt áfram með mögnuðum leik í Blue Velvet ('86) og Hoosiers ('86), tveimur vönduðum myndum sem eru fyrstu skrefin í átt til þeirrar traustu stöðu sem Hopper vann sig í á ofanverðum níunda áratugnum. Kid Blue ('73) er einnig í miklu uppáhaldi á þessum bæ.

Hopper var orðinn alvarlegur listamaður. Hver leiksigurinn á eftir öðrum í misstórum, góðum karakterhlutverkum sannaði það, og ekki um villst eftir að hann leikstýrði Colors ('88). Hann hefur átt glæsta endurkomu allan síðasta áratug, skemmt kvikmyndahúsagestum um allar jarðir með þáttöku sinni í myndum eins og True Romance ('93), Speed ('94), Waterworld ('95), Basquiat ('96) - að ógleymdri hinni einu og sönnu Space Truckers ('97)! Hopper hefur greinilega fleiri líf en kötturinn.

Sæbjörn Valdimarsson