[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Blade Of The Immortal: Blood Of A Thousand eftir Hiroaki Samura. Bókin er gefin út af Dark Horse Comics árið 1997. Hún er sú fyrsta í sex bóka seríu um ódauðlega stríðsmanninn Manji. Þær fást allar í myndasöguverslun Nexus VI á Hverfisgötu.

ÞRÓUN myndasögunnar í Japan hefur verið með öðru sniði en annars staðar. Til dæmis fjallar einungis lítill hluti þeirra verka sem þar eru gefin út um svokallaðar ofurhetjur. Myndasöguáhugamenn í Japan hafa einfaldlega meira gaman af stóreygðum og óvenjulega saklausum skólastúlkum í styttri pilsum en sjást á tennisvöllunum eða þá óvenju blóðugum sverðabardögum sem láta lýsingar Íslendingasagnanna hljóma eins og vögguvísur fyrir smákrakka. Lykilorðið hér er "óvenju" því það er engu líkara en japanskar myndasögur þrífist á því hugtaki.

Til dæmis hefur sú furðulega þróun átt sér stað í Japan að einn teiknistíll er vinsælari en aðrir, og er eiginlega orðinn sá viðurkenndi stíll sem flestir myndasöguteiknarar þar tileinka sér. Það er hinn allsérstæði Manga-stíll, þar sem allir eru óvenjulega litlir og sætir með risastór bangsímonaraugu og jafnvel gamalmennin líta út fyrir að vera varla orðin kynþroska. Þetta er stíll sem allir kannast við úr teiknimyndum eins og Akira, Pokémon og Kalla í knattspyrnu. Þessi stíll er sérstaklega skemmtilegur af því hann er afar einfaldur og grípur því augu krakkanna strax. Einnig gefur þetta barnslega andlit stílsins þeim sögum sem eru ætlaðar eldri lestrarhópum svoldið sérstakt yfirbragð sem oft virkar ögrandi á lesandann, eins og stíginn sé línudans á landamærum þess ósiðlega og barnslega. Það er hægt að líkja þessu við það að koma að Kobba Kviðristu í myrkru húsasundi þar sem hann hefur nýlega banað einu af fórnalömbum sínum á hrottalegan hátt. Vegfarandinn frýs í fótsporum sínum þegar hann gerir sér grein fyrir því að fjöldamorðinginn hefur orðið var við sig og hann veit að þegar Kobbi lítur upp verður ekki aftur snúið. Þegar augu morðingjans og vegfarandans mætast er eins og einhver hafi framið morð í Stundinni okkar, því andlit morðingjans er andlit Íþróttaálfsins úr Latabæ. Svoleiðis eru margar Mangasögurnar.

Ein af vinsælli myndaflokkum í Manga stílnum hér á landi eru bækurnar "Blade Of The Immortal" sem fjalla um hinn ódauðlega sverðbardagamann Manji á tímum Samurai-ana. Hann hefur svarið þess eið að kála þúsund óþokkum til þess að bæta upp fyrir fyrri ódæðisverk sín og öðlast þannig dauðleikann á nýjan leik. Til þess að komast í kynni við öll helstu skítseiði landsins gengur hann til liðs við unga stúlku sem þarf aðstoð við það að ná fram blóðhefndum á morðingjum fjölskyldu hennar. Það er eiginlega óhætt að fullyrða að þessar sögur eru algjör viðbjóður og innihald þeirra myndi eflaust þykja kjörið fyrir svokallaðar "splatter" kvikmyndir. Ef við höldum okkar við samlíkinguna við Íslendingasögurnar þá er er Manji eins og Skarphéðinn Njálsson í sínu besta formi í bardaga, álíka skapstór og Egill Skallagrímsson en með mælsku og innihald á við Ingjaldsfíflið. Sögurnar eru sérstaklega fljótlesnar, eins og flestar Manga sögur, og mest er lagt í allar bardagasenur sem enda flestar á því að einhver miður heppinn einstaklingur er bútaður niður í frumeiningar sínar.

Birgir Örn Steinarsson