Margrét Guðmundsdóttir
Margrét Guðmundsdóttir
Margrét Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík 30. júlí 1959. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund 1979 og prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1983. Hún starfaði við kennslu um tíma en hefur mest fengist við rannsóknar- og ritstörf. Hún er í sambúð með Þórarni Hjartarsyni, plötusmiði og sagnfræðingi, sem á þrjú börn frá fyrra hjónabandi.
Margrét Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík 30. júlí 1959. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund 1979 og prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1983. Hún starfaði við kennslu um tíma en hefur mest fengist við rannsóknar- og ritstörf. Hún er í sambúð með Þórarni Hjartarsyni, plötusmiði og sagnfræðingi, sem á þrjú börn frá fyrra hjónabandi.

Út er komin bókin: Í þágu mannúðar. Saga Rauða kross Íslands 1924 til 1999. Bókin er gefin út af Máli og mynd og er 443 blaðsíður í stóru broti. Höfundur bókarinnar er Margrét Guðmundsdóttir sagnfræðingur.

"Ég hóf að skrifa þessa bók fyrir röskum þremur árum. Ég hafði áður rannsakað og skrifað bók um sögu Hvítabandsins, sem kom út árið 1996 á 100 ára afmæli félagsins, og svo hafði ég kannað lítillega sögu Hjúkrunarfélagsins Líknar. Þegar Rauði krossinn auglýsti eftir sagnfræðingi til að skrifa sögu sína sótti ég um, enda hafði ég þá þegar kannað nokkuð ítarlega sögu líknarfélaga á Íslandi og taldi mig þar með hafa góðan grunn og fannst einnig að þetta væri skemmtilegt verkefni."

-Og er saga Rauða krossins eins spennandi og þig grunaði í upphafi?

"Já, ég er viss um að það fer fyrir fleirum eins og mér að það kemur á óvart hvað Rauði kross Íslands hefur komið víða við sögu á sviði heilbrigðis- og félagsmála á Íslandi sl. 75 ár."

-Hver var hvatinn að stofnun Rauða krossins á Íslandi?

"Hugmyndin kemur upphaflega frá mönnum sem þekktu starf Rauða krossins erlendis, og er þar fyrstan að telja Svein Björnsson, fyrsta forseta lýðveldisins. Hann starfaði sem sendiherra í Kaupmannahöfn í upphafi þriðja áratugarins og þá kynntist hann starfi Rauða krossins þar. Steingrímur Matthíasson, héraðslæknir á Akureyri, þekkti einnig starfið erlendis. Þeir komu með fyrstu hugmynd að nauðsyn þess að stofna landsfélag Rauða krossins hér á landi og fengu í upphafi fjölmarga lækna til liðs við sig."

-Hvar hóf Rauði krossinn starfsemi?

"Hann var stofnaður í Reykjavík 10. desember 1924 og skömmu síðar, eftir áramótin, var stofnuð önnur deild á Akureyri. Eftir það fjölgaði deildum ekki fyrr en á árum seinni heimsstyrjaldarinnar."

-Hver voru fyrstu verkefnin?

"Fyrstu baráttumál félagsins voru að koma fótum undir sjúkraflutninga á landinu. Félagsmenn keyptu fyrsta sjúkrabíl Rauða krossins til Reykjavíkur árið 1926 og annan bíl til Akureyrar 1931. Hugmyndin var upphaflega sú að bæta fyrst og fremst flutning sjúkra og slasaðra sem bjuggu utan Reykjavíkur og bíllinn fór þá eins langt og akfærir vegir náðu - sem var furðu langt. Árið 1935 tók Rauði krossinn að sér alla sjúkraflutninga í Reykjavík. Áður hafði bæjarfélagið haft þá flutninga með höndum einnig."

-Hvað með fjármagn?

"Þeir notuðu hefðbundnar leiðir líknarfélaga á þessum tíma, innheimt voru t.d. árgjöld af félögum og seld voru merki. Fljótlega varð öskudagurinn fjáröflunardagur Rauða krossins og merkjasöludagur. Félagið barðist þó lengi vel í bökkum fjárhagslega því þetta voru ótryggir tekjustofnar."

-Hvaða fleiri verkefnum sinnti Rauði krossinn í upphafi starfs síns?

"Félagið hóf heilsuverndarstarf meðal vertíðarmanna - sjómanna og landverkafólks. Það sendi hjúkrunarkonur eitt sumar til Siglufjarðar til þess að sinna sjúku fólki, aðallega þeim sem höfðu fengið fingur- eða handarmein í síldarvinnunni. Síðan sendi það hjúkrunarkonu til Sandgerðis þar sem hún starfaði yfir vetrarvertíðina við hjúkrun aðkomumanna og heimafólks. Félagið sinnti jafnframt fræðslumálum frá upphafi og var fyrst til þess að bjóða almenningi upp á námskeið í skyndihjálp. Það bauð jafnframt upp á námskeið í heimahjúkrun og meðferð ungbarna. En þegar seinni heimsstyrjöldin skall á urðu þáttaskil í starfi félagsins. Rauði kross Íslands gegndi mjög ábyrgðarmiklu hlutverki í almannavarnastarfi á stríðsárunum, byggði upp hjálparstöðvar og þjálfaði hjúkrunarsveitir sem störfuðu á þeim stöðum þar sem mest hætta var talin á loftárásum. Þegar stríðinu lauk sendi félagið Lúðvig Guðmundsson skólastjóra til Evrópu til að aðstoða stríðshrjáða Íslendinga og með hjálp hans tókst að koma fjölmörgum landsmönnum aftur heim. Á stríðsárunum hófst líka fyrst fyrir alvöru hjálparstarf félagsins erlendis. Á eftirstríðsárunum breyttist starfsemi félagsins smám saman, einkum eftir að almannatryggingar voru lögfestar á Íslandi á fimmta áratugnum. Fjölmörg líknarfélög lentu þá í erfiðleikum með að finna sér verðug verkefni.

Á sjötta og sjöunda áratugnum hélt félagið áfram að sinna sjúkraflutningum og fræðslustarfinu en í upphafi áttunda áratugarins fóru fram miklar umræður um stefnu félagsins sem leiddi til nýrra viðfangsefna, bæði innanlands og erlendis. Í aldarlok er Rauði kross Íslands ein öflugasta fjölda- og sjálfboðaliðahreyfing landsins sem nýtur virðingar innan alþjóðahreyfingar Rauða krossins fyrir störf sín hér á landi sem erlendis.