VEGNA aukinnar eftirspurnar í innanlandsflugi og bilunar í einni af Fokkervélum Flugfélags Íslands hefur félagið leigt til landsins eina Fokker 50-flugvél frá belgíska flugfélaginu VLMog mun vélin verða hér í innanlandsflugi fram yfir...

VEGNA aukinnar eftirspurnar í innanlandsflugi og bilunar í einni af Fokkervélum Flugfélags Íslands hefur félagið leigt til landsins eina Fokker 50-flugvél frá belgíska flugfélaginu VLMog mun vélin verða hér í innanlandsflugi fram yfir verslunarmannahelgi. Í fréttatilkynningu frá Flugfélagi Íslands segir að leigan á vélinni muni verða til þess að uppsett áætlun eigi að haldast án óþæginda fyrir farþega. Belgískar áhafnir munu fljúga leiguvélinni, en íslensk flugfreyja verður um borð í hverri ferð.

Fyrsta flug belgísku vélarinnar var í gær til Egilsstaða, en í annarri ferð vélarinnar til Akureyrar seinnipart gærdagsins stöðvaðist vélin vegna smávægilegrar bilunar í rofum og var maður sendur norður með varahluti í vélina. Reiknað var með að viðgerð tæki um klukkustund og að vélin héldi áætlunarflugi áfram að henni lokinni í gærkvöld.

Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, segir að gífurlegur vöxtur hafi verið í innanlandsfluginu undanfarna mánuði. Sérstaklega er aukningin mikil á einstaka áfangastaði, td. var aukningin á flugi til Akureyrar í júní á milli ára um 45%, til Egilsstaða jókst farþegafjöldi um 30% og til Vestmannaeyja um 42% á milli ára.

Þá hefur einnig orðið talsverð aukning í millilandaflugi Flugfélagsins. Fjöldi farþega til Færeyja jókst um 50% í júní á milli ára og til Kulusuk í Grænlandi var aukningin um 62% á milli ára.

Ætti að geta breytt rekstrarafkomunni

Að sögn Jóns Karls má rekja þessa aukningu að hluta til verkfalls hjá Sleipnismönnum, en það virðist jafnframt vera stöðug aukning í fluginu og að aukinn fjöldi ferðamanna til landsins sé að skila sér í innanlandsflugið einnig.

Hann segir að gífurleg eftirspurn sé framundan í innanlandsfluginu, sem nái hámarki um verslunarmannahelgina. Belgíska leiguvélin verður hér á landi fram yfir þá helgi, enda segir Jón Karl að allar ferðir séu að fyllast þá og að fjöldi aukaferða hafi verið ráðgerður, m.a. 18 ferðir til Eyja.

"Þetta ætti að geta breytt rekstrarafkomunni. Við erum með auknar tekjur en við höfum einnig verið að sjá eldsneytisverðið rjúka upp og það hefur náttúrlega verið vel hækkandi kostnaður á móti þessari tekjuaukningu, en afkoman fer batnandi. Við erum a.m.k. á réttri leið og ætlum að snúa þessu þannig við að þetta standi undir sér og að það sé hægt að hafa eitthvað upp úr þessu," segir Jón Karl.