GUÐRÚN Arnardóttir hljóp geysilega vel á meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum um helgina. Hún sigraði í 100 og 200 m hlaupi ásamt 100 og 400 m grindahlaupi. Silja Úlfarsdóttir veitti henni hörkukeppni í 100 og 200 metra sprettum og því var spennandi að fylgjast með. "Maður fær meira út úr sér þegar það er keppni. Það er ákveðin spenna að hlaupa gegn Silju," sagði Guðrún.

Að sumu leyti legg ég meira á mig en ég held samt að metnaðurinn sé að standa sig vel, ekki bara vinna. Ég vil reyna að sýna hvers vegna ég er hérna og hafa þetta svolítið glæsilegt. Ég er bara mjög sátt nema það var leiðinlegt að hafa mótvind. Það er skemmtilegra að fá góða tíma og hafa vindinn í bakið. Ég er mjög ánægð með100 m grindahlaupið hjá mér því það var mikill mótvindur og tíminn var góður miðað við það. Ég er ánægð með að hraðinn sé að koma hjá mér og ég sé heil," sagði Guðrún sem meiddist á hásin í vetrarlok og er búin að vera að berjast við að ná sér góðri. "Þetta var auðvitað pínu erfitt í vor þegar ég meiddist því ég hafði ætlað mér svo miklu meira. Svona meiðsli eru kannski til að minna mann á hvað maður er heppinn að vera heill og geta notið þess," sagði hún.

Guðrún keppir í Casablanca í Marokkó þann 27. júlí þar sem allir helstu keppinautar hennar í 400 m grindahlaupi verða mættir. Til dæmis keppir heimakonan Nezha Bidouane en hún á annan besta tíma ársins. Síðan taka við mót í Gautaborg, Belgíu, Austurríki og loks bikarkeppnin á Íslandi áður en lagt er af stað til Sydney. "Sænska stelpan Frida Johansson-Svensson ætlar að reyna að ná lágmörkum í Gautaborg og ég var fengin til að hjálpa til svo ég vona að þetta takist í sameiningu. Völlurinn í Gautaborg er alveg stórkostlegur og kjörið tækifæri til að bíta af tímanum enn og aftur. Ástæðan fyrir því að ég segi það er að 400 m grindahlaup er þannig grein að því meira sem þú gerir af því, þeim mun betri verðurðu og ég er búin að fá tiltölulega fá hlaup en ég þarf að keppa mig í form. Maður þarf að læra af mistökunum og fá sjálfstraust í það sem maður getur gert. Ég verð að fá mót til að geta unnið úr öllum litlu mistökunum til að reyna að fá eitt fullkomið hlaup á Ólympíuleikunum," sagði Guðrún sem hlakkar mikið til Ólympíuleikanna. "Ég fæ gæsahúð bara að hugsa um það. Að geta sagst hafa keppt fyrir hönd minnar þjóðar er ólýsanlegt," sagði Guðrún en hún er með skýr markmið fram að leikum.

"Ég vil fá betri tíma í Casablanca heldur en ég hef náð best á árinu og saxa smám saman af þeim tíma. Svo framarlega sem ég bít af þeim tíma fram að leikum þá er ég ánægð en ég ætla mér engin risastökk heldur að fá allt út úr mér sem ég lagði inn í bankann. Ég er jákvæð - ánægð með hvað ég vann vel í vetur og veit að ég lagði allt á mig sem ég gat. Þetta er þarna inni og ég ætla mér bara að ná því út úr mér," sagði Guðrún.

Íris Björk Eysteinsdóttir skrifar